Ólafur Margeirsson hagfræðingur segir verðbólgan sem Íslendingar glíma við sé í raun húsnæðisdrifin verðbólga. Besta lausnin við því væri einfaldlega að byggja meira. Hann furðar sig á því hvers vegna „lausnin“ við þessu vandamáli sé ávallt að hjálpa til á eftirspurnarhliðinni, það ser að segja með aðgengi að lánum, hærri húsnæðisbætur, notkun á séreignarlífeyrissparnaði til að greiða niður lán. Þetta segir Ólafur í pistli sem hann birtir á Patreon-síðu sinni, en þar er hægt að gerast áskrifandi að pistlum hans.
Ólafur segir þó að verðbólgan hafi lækkað örlítið þá sé enn talsvert í land. „Það er hins vegar enn vandamál að verðbólgan er of víðfem, breidd hennar er of mikil. Þannig virðist lítil breyting vera á því hversu hátt hlutfall varanna í vörukörfunni sem notuð er til að mæla verðbólgu er að hækka um t.d. 10% á ári. Einhver jákvæð breyting virðist þó vera á hlutfalli vara sem hefur hækkað um 2,5% á ári eða meira (sjá bláu línuna) en það er of snemmt að segja til hvort þetta sé viðvarandi breyting,“ segir Ólafur.
Hann segir að húsnæðisverð á Íslandi sé ekki eðlilegt. „Það skal tekið fram hér að það er fjarri því að húsnæðisverð sé sjálfbært m.v. núverandi laun og vaxtastig. Allt frá árinu 2010 hefur húsnæðisverð verið í nokkuð góðu reki m.v. laun og vaxtastig á óverðtryggðum lánum, sem sjá má á næstu mynd. En síðan snemma á síðasta ári hefur mismunurinn aukist hratt, fyrst vegna þess að húsnæðisverð hækkaði alltof hratt og síðar vegna þess að Seðlabankinn hækkaði vexti of hratt (í stað þess að nota útlánakvóta til að draga úr þenslunni á húsnæðismarkaði). Húsnæðisverði í dag er haldið uppi með verðtryggðum lánum og skorti á leigu- og eignamarkaði sem heldur uppi leiguverði og þar af leiðandi fasteignaverði,“ segir Ólafur.
Hann segir að þetta smiti svo út frá sér. „Þessi skortur á fasteignum til íbúðar er kerfislegur á Íslandi, alltaf skal „lausnin“ vera sú að hjálpa til á eftirspurnarhliðinni (aðgengi að lánum, hærri húsnæðisbætur, notkun á séreignarlífeyrissparnaði til að greiða niður lán, o.s.frv.) í stað þess að stækka framboðshliðina með auknu byggingarmagni. Því fer sem fer: verðbólgu er haldið uppi með síhækkandi fasteignaverði sem smitast yfir í aðra vöruflokka því verkalýðsfélög gera hærri launakröfur eftir því sem stórir kostnaðarliðir á borð við húsnæði hækka í verði. Úr verður húsnæðisdrifin verðbólga til langs tíma.“