Landssamband smábátaeigenda skorar á Svandísi að auka veiðiheimildir til strandveiða

Sjávarútvegur 10. júl 2023

Í áskorun sem Landssamband smábátaeigenda sendi frá sér til Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra er skorað á hana til að auka veiðiheimildir til strandveiða. Samtökin taka fram að veiðiheimildir ársins hafi ekki að fullu verið nýttar og að engin fordæmi séu fyrir því að ekki hafi verið bætt við aflaheimildum til strandveiða þegar veiðiheimildir hafi ekki verið að fullu nýttar. Stjórn LS bendir á þá staðreynd að strandveiðimenn séu iðulega látnir mæta afgangi þegar kemur að úthlutun veiðiheimilda og harmar það í ljósi þess að strandveiðikerfið er eina kerfið þar sem einstaklingar geta reynt fyrir sér fiskveiðar í atvinnuskyni án þess að þurfa að kaupa eða leigja veiðiheimildir, en þær eru bæði rándýrar og illfáanlegar.

Lesið áskorunina hér fyrir neðan:

„Stjórn LS skorar á matvælaráðherra að endurskoða ákvörðun sína er varðar beiðni LS um auknar veiðiheimildir til strandveiða.  Vísar stjórnin m.a. til mikilvægi þeirra og hins mikla áhuga sem strandveiðum er sýndur.  Þetta á jafnt við sjómenn, fiskkaupendur, vinnsluaðila og eftirspurn frá mörkuðum.  Strandveiðar geta á þann hátt brúað það tímabil sem stóru fyrirtækin loka vegna sumarleyfa fram að næsta fiskveiðiári.

Stjórn LS minnir á að engin fordæmi eru fyrir því að ekki hafi verið bætt við aflaheimildum til

strandveiða þegar sambærileg staða hefur komið upp.  

Í svari Matvælaráðuneytisins 6. júlí sl. við erindi LS segir að „ráðuneytið hafi ekki lagaheimild til að fallast á fyrrgreint erindi sambandsins samkvæmt þeim málflutningi sem þar kemur fram.“

Stjórn LS harmar þá niðurstöðu, en bendir á að ákvæði um magn aflaheimilda til byggðakvóta eru ákveðnar í reglugerð.  Heimildir þessar hafa ár eftir ár ekki verið að fullu nýttar.  Að óbreyttu verður yfirstandandi fiskveiðiár engin undantekning.  Breyting á reglugerð eins og gerðar hafa verið á undanförnum árum kæmi þannig í veg fyrir ótímabæra stöðvun strandveiða.

Stjórn LS vekur athygli ráðherra á að veiðiheimildir til VS-afla í þorski hafa ekki verið fullnýttar á undanförnum árum og verða það ekki á yfirstandandi fiskveiðiári.  Strandveiðar til ágústloka leiða því ekki til þess að afli verði umfram það sem ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar kveður á um.

Stjórn LS minnir á að samkvæmt ákvæði laga um stjórn fiskveiða er hverju skipi heimilt að stunda strandveiðar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar mánuðina maí, júní, júlí og ágúst.

Jafnframt að „Á hverju fiskveiðiári er ráðherra heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski skv. 5. mgr. 8. gr. sem nýtt skal til veiða með handfærum á tímabilinu frá 1. maí til 31. ágúst samkvæmt sérstökum leyfum Fiskistofu.”  Aflamagn sem tiltekið er í reglugerð sem ráðherra getur breytt.

Með skírskotun til þessa er það óásættanlegt að strandveiðar standi einungis yfir í hluta tímabilsins.

Það er skoðun stjórnar LS að það sem hér hefur verið tilgreint sé í öllu falli nægjanlegt til að verða við áskorun LS.  Tryggja jafnan rétt allra byggðarlaga landsins í strandveiðum og koma í veg fyrir atvinnumissi þúsund einstaklinga sem snerta mun þrisvar sinnum fleiri. 

Frá því tækni í miðlun upplýsinga gegnum, Facebook, tölvupósta og heimasíður hóf innreið sína hefur aldrei ríkt jafnmikill samhljómur í skoðunum sjómanna um ástand þorskstofnsins.  Þar skiptir engu hvort spurningu þess efnis sé beint til togarasjómanna eða sjómanna á smábátum, svör eru öll á þann veg að það sé þorskur um allan sjó.

Við endurmat Hafrannsóknastofnunar í mars sl. á stærð viðmiðunarstofns þorsks fyrir árið 2022 reyndist hann rúmum 7% stærri en áætlað hafði verið ári fyrr.  Stjórn LS telur mælinguna samsvara upplifun sjómanna og séu skýr skilaboð um vanveiði sem hægt er að koma í veg fyrir með auknum veiðum.  

Að lokum vill stjórn LS benda á þá staðreynd að strandveiðimenn eru ævinlega látnir mæta afgangi þegar kemur að úthlutun veiðiheimilda.  Það er nöturlegt í ljósi þess að

strandveiðikerfið er eini glugginn í fiskveiðikerfinu þar sem einstaklingum gefst færi á því að reyna fyrir sér við fiskveiðar í atvinnuskyni, án þess að þurfa að kaupa eða leigja veiðiheimildir á verðum sem fæstir ráða við og eru í þokkabót ófáanlegar.  

Strandveiðikerfið var sett á fót í kjölfar úrskurðar frá Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2007.  Það er löngu kominn tími til að ganga þannig frá málinu að sómi sé að.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí