Mikil sláttur var á stjórnarþingmönnum í fréttum og spjallþáttum um helgina. Þeir börðu í borðið og kröfðust þess að allt yrði upp á borðum varðandi Íslandsbankasöluna, en áttu þar aðeins við um starfslokasamning Birnu Einarsdóttur bankastjóra. Sömu þingmenn hafa komið í veg fyrir það í þinginu að skipuð verði rannsóknarnefnd Alþingis til að skoða alla þætti þessa máls, þar meðtalinn hlut Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem Alþingi fól að selja hlut almennings í bankanum.
Þegar Bjarni kynnti áform um annað útboðið gerðu stjórnarþingmenn í þingnefndum litlar athugasemdir við fyrirkomulag sölunnar. Stjórnarandstaðan hafði hins vegar efasemdir. Viðreisn var meira og minna sammála meirihlutanum um söluna en lagði áherslu á dreift eignarhald og að söluandvirðið yrði ekki notað til að fjármagna áframhaldandi hallarekstur ríkissjóðs. Flokkur fólksins hafnaði því að salan á hlut ríkisins myndi bæta hag almennings.
„Sala arðbærra eigna veikir tekjustofna ríkissjóðs til lengri tíma. Jafnvel þótt allur ábati sölunnar færi í að greiða niður skuldir ríkissjóðs er alls óvíst hvort vaxtagjöld myndu lækka meira en sem nemur þeim reglulegu arðgreiðslum sem ríkissjóður verður af. Þá er skuldastaða ríkissjóðs ekki svo alvarleg að selja þurfi gulleggin til að fjármagna fjárfestingar. Þvert á móti,“ skrifaði Ásta Lóa Þórsdóttir í minnihlutaálit sitt í efnahags- og viðskiptanefnd. Hún lagði áherslu á að mikil áhætta væri fólgin í sölunni, hverjir myndu eignast virkan meirihluta í bankanum.
Jóhann Páll Jóhannsson, fulltrúi Samfylkingarinnar, varaði við því að fela Bjarna Benediktssyni að halda utan um útboðið. „Í könnun MMR sem framkvæmd var í janúar 2021 kemur fram að 63 % aðspurðra vantreysti Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, til að leiða einkavæðingu Íslandsbanka,“ rifjaði Jóhann Páll upp. „Fulltrúi Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd hefur skilning á þessu vantrausti í ljósi þess að Bjarni Benediktsson tók þátt í viðskiptum sem veiktu Íslandsbanka á árunum fyrir hrun ásamt skyldmennum sínum og viðskiptafélögum sem voru í senn meðal stærstu eigenda og stærstu lántaka bankans. Þá kom Bjarni að viðskiptafléttu árið 2008 þar sem Hæstiréttur Íslands telur að hagsmunir lántaka hafi verið teknir fram yfir hagsmuni bankans sjálfs. Til að fullt traust ríki um söluna á Íslandsbanka er réttast að forsætisráðherra feli öðrum ráðherra að fara með málið.“
Það má því segja að stjórnarþingmenn hafi verið varaðir við, að þeir væru að fara gegn afgerandi meirihlutavilja almennings, en þeir sinntu þessum varnaðarorðum ekki. Og þegar allt fór á versta veg stóðu þessir þingmenn gegn því að málið yrði rannsakað, höfnuðu skipan rannsóknarnefndar Alþingis þrátt fyrir að könnunum kæmi fram að 83% landsmanna væru óánægð með hvernig að verkum var staðið, undir stjórn Bjarna.
En um helgina voru þingmennirnir harðir. Nú vilja þeir fá starfslokasamning Birnu strax, en gera má ráð fyrir að hann birtist í hálfsársuppgjöri bankans seint í þessum mánuði.
„Ég mun fyrir hönd nefndarinnar allrar óska eftir því að nefndin fái þennan starfslokasamning afhentan. Auðvitað ætti bankinn að sjá sóma sinn í því og birta hann, en það virðist ekki ætla að gerast þannig að ég tel að þá verðum við að reyna að fara þessa leið að fá þetta í gegnum nefndina, þeim ber að svara þinginu. Þannig að ég treysti því að það gerist,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður VG og formaður fjárlaganefndar við RÚV.
„Já, það er algjörlega skýrt,“ sagði Það þarf auðvitað að birta allt í kringum þessa sölu. Þarna er verið að selja ríkiseignir og því miður þá var framkvæmdin ekki eins og við, sem studdum söluna, hefðum viljað óska og það er bara mjög eðlilegt að allar upplýsingar í tengslum við þetta mál verði birtar og sem fyrst,“ sagði Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi flokksins fjárlaganefnd, í viðtali við RÚV.
„Þess vegna mun ég beita mér fyrir því á næstu dögum að ef, til dæmis þessi samningur verður ekki birtur, mun ég beita mér fyrir því innan fjárlaganefndar þingsins að boða til fundar þess efnis og við fáum bara að sjá hvað er verið að gera. Leggjum öll spilin á borðið og byggjum upp traust, því að ef við gerum það ekki þá getum við ekki haldið áfram með þetta mikilvæga ferli að losa um eignarhlut ríkisins í þessum fjármálafyrirtækjum,“ sagði Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar og fulltrúi í fjárlaganefnd í Vikulokunum.
Ætla mætti af þessum þingmönnum að Íslandsbankamálið sé mál sem snýst fyrst og síðast um starfslokasamning Birnu Einarsdóttur bankastjóra. Frá sjónarhóli almennings hefur málið frá upphafi snúist um það hvernig eignum almennings var komið í hendur útvalinna á afsláttarverði undir stjórn og eftirliti Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.