Últra-hægrið í stórsókn í Evrópu – á leið í ríkisstjórn á Spáni

Bannað er að birta skoðanakannanir síðustu vikuna fyrir kosningar á Spáni. Könnunarfyrirtækin birtu því öll sínar síðustu kannanir á sunnudaginn. Og eins og vanalega þá tekur stórblaðið El País þessar kannanir saman og býr til kosningaspá. Samkvæmt henni eru mun meiri líkur á hægri stjórn á Spáni eftir kosningarnar á sunnudaginn næsta og mestar líkur á samsteypustjórn Þjóðarflokksins og Vox. Það væri þá fjórða ríkisstjórnin sem mynduð er í Evrópu á síðustu níu mánuðum þar sem últra-hægriflokkur fær sæti í ríkisstjórn eða styður stjórn gegn áhrifum á stefnumálin.

El País segir 55% líkur á að Þjóðarflokkurinn fái nægt fylgi til að mynda meirihlutastjórn. Og ef það dugar ekki séu líkur á að þeir dragi með sér héraðsflokkana Þjóðarbandalag Navarre, Kanaríeyska bandalagið og Teruel Exists.

Ef Vox kemst í ríkisstjórn verður það í fyrsta sinn sem últra-hægri flokkur verður í ríkisstjórn Spánar eftir lok Franco-tímans.

Í október í fyrra myndaði Ulf Kristersson, formaður Moderatarna í Svíþjóð, ríkisstjórn með Kristlegum demókrötum og Liberalerna með blessun og samþykki Svíþjóðardemókrata Jimmie Åkesson, sem fengu að launum mikil áhrif á stefnumál ríkisstjórnarinnar.

Í sama mánuði myndaði Giorgia Meloni, formaður Bræðralags Ítalíu, ríkisstjórn með Lega Matteo Salvini og Áfram Ítalíu Silvio heitins Berlusconi. Þetta er líklega hægri sinnaðasta ríkisstjórn sem mynduð hefur verið í lýðræðisríki Evrópu frá því fyrir seinna stríð.

Í vor myndaði síðan Petteri Orpo, formaður Þjóðfylkingarinnar í Finnlandi, ríkisstjórn með Kristilegum demókrötum, Sænska þjóðarflokknum og Finnska flokknum, sem áður hét Sannir Finnar.

Og nú stefnir í að Vox komist í ríkisstjórn á Spáni með Þjóðarflokknum, sem rekur sögu sína til Þjóðarbandalagsins sem stofnað var af samreiðarsveinum Franco. Og eins og staðan er í könnunum í Hollandi má reikna með að hægri popúlískir flokkar verði í sterkri stöðu eftir kosningarnar þar seint í haust eða snemmvetrar.

Samandregið sýnir þetta mikla sveiflu í Evrópu yfir til últra-hægris. Einu kosningarnar fyrir utan þetta í Vestur-Evrópu voru þær dönsku þar sem mynduð var breið ríkisstjórn yfir miðjuna, frá hægri að mið-vinstri, og grísku kosningarnar þar sem hægri flokkurinn Nýtt lýðræði fékk meirihluta þingsæta út á 40% fylgi vegna sérkennilegra kosningalaga, sem segir að sá flokkur sem fær flest atkvæði í kosningum fá 50 þingmenn aukalega í bónus. Kyriakos Mitsotakis, formaður Nýs lýðræðis, þurfti því hvorki að treygja sig yfir miðjuna til vinstri né draga últra hægri flokkana Spartverja eða Grísku lausnina inn í stjórn sína.

Og fyrir rúmu ári varði Viktor Orban meirihluta sinn í Ungverjalandi, svo dæmi séu tekin af austurhluta Evrópu þar sem staða últra-hægrisins er enn sterkari en í vestrinu. Og í vor var Erdogan endurkjörinn forseti Tyrklands og flokkur hans, og þeir sem eru hægra megin við hann, héldu meirihluta í þinginu.

Pólitísk staða í Evrópu er að breytast hratt.

Frelsisflokkurinn í Austurríki hefur nokkrum sinnum myndað ríkisstjórn með Austurríska þjóðarflokknum, sem er flokkur kristilegra demókrata. Fyrst 1983-86, síðan 1999-2006 og aftur 2017-19. Austurríki er það land í Vestur-Evrópu sem hægri popúlískir flokkar hafa oftast og lengst verið í ríkisstjórn.

2001-11 studdi Danski þjóðarflokkurinn minnihlutastjórn Anders Fogh Rasmussen og 2015-19 minnihlutastjórn Lars Løkke Rasmussen. Þótt flokkurinn sé í dag smár þá hafði þessi stjórnarþátttaka hans afgerandi áhrif á dönsk stjórnmál og stefnu danskra stjórnvalda.

Norski Framfaraflokkurinn studdi oft minnihlutastjórnir hægri flokkanna, allt frá 1981 og síðast minnihlutastjórn Kjell Magne Bondevik 2001-05. Flokkurinn átti síðan sæti í ríkisstjórn frá 2013-20.

2010 studdi Frelsisflokkur Geert Wilders fyrstu ríkisstjórn Mark Rutte til valda og hafði flokkurinn nokkur áhrif þar til kosið var að nýju 2012.

Eins og sjá má af þessu var það aðeins milli 2017-19 sem tveir flokkar af þessu tagi sátu samtímis í ríkisstjórn í Vestur-Evrópu, Frelsisflokkurinn í Austurríki og Framfaraflokkurinn í Noregi.

Nú er Finnski flokkurinn í ríkisstjórn í Finnlandi, Svíþjóðardemókratar halda hægri stjórninni í Svíþjóð við völd, Bræðralag Ítalíu leiðir ríkisstjórn í Ítalíu og allar líkur eru á Vox verði í næstu ríkisstjórn Spánar. Og margt bendir til að systurflokkar þessara flokka komist líka til valda í Hollandi. Og kannanir sýna að Alternative für Deutschland er í mikilli sókn í Þýskalandi, Vlaams Belang í flæmska hluta Belgíu og últra hægrið í Frakklandi styrkist eftir því sem flokkarnir verða fleiri.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí