Yfir fjörutíu manns hafa látist vegna skógarelda í Alsír, Ítalíu og á Grikklandi. Þúsundir hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna eldanna.
Miklir eldar geisa á grísku eyjunum Rhodes, Corfu og Evia. Hitabylgjan í Grikklandi heldur áfram og er búist við 44 gráðu hita á næstu dögum. Eldar í Sikiley og á Apúlíu á Ítalíu hafa neydd þúsundir til að yfirgefa heimili sín. Sterkir vindar og mikill hiti gera slökkviliðsmönnum erfitt að slökkva og hemja eldana. Í Króatíu og Portúgal er líka barist við elda.
Mesti skaðinn hefur orðið í Alsír þar sem 34 hafa látist. Verst er ástandið í bænum Bejaia þar sem 23 létu lífið. Yfirvöld í Alsír segja þó að 80% eldanna sé núna búið að slökkva en enn þá eru viðamiklar slökkviliðsaðgerðir í gangi með 8.000 manna slökkviliði, flugvélum og hundruðum slökkviliðsbíla. Hitinn þar hefur verið gríðarlegur og mældist hæst 48 gráður.
Evrópska geimvísindastofnunin fylgist með gangi eldanna með gervihnöttum, hér má sjá nokkrar myndir teknar af þeim. Myndir frá Pierre Markuse og Geimvísindastofnun Evrópu.
Staðan gæti áfram versnað
Veðurfræðingar í Grikklandi hafa spáð því að þessi mikli hiti sem hefur verið muni halda áfram. Annarri hitabylgju er spáð eftir þá sem stendur nú yfir en Grikkland er að upplifa lengstu samfelldu hitabylgjurnar, ein eftir aðra, frá því mælingar hófust og vitað sé til. Slökkvilið þar metur að áhættan af eldum sé gríðarleg á meginlandinu og mjög há annars staðar í landinu.