Ysta hægrið fer eins og vofa um Evrópu

Með því að draga kosningar til loka nóvember vilja stofnanaflokkar Hollands vinna sér inn tíma til að svara sókn BorgaraBandalagsBænda, stjórnmálaflokks sem spratt fram úr mótmælum bænda gegn takmörkunum á losun kolefnis og notkun á áburði og skordýraeitri sem bændur töldu kippa fótunum undan búrekstri sínum. Flokkurinn náði inn einum manni í kosningunum 2021 en mældist með allt að 36 þingmenn í vor. Og þótt fylgið hafi dalað síðan þá segja kannanir að flokkurinn fengi 25 þingmenn ef kosið yrði nú.

Ákvörðun Mark Rutte að slíta ríkisstjórn sinni en fresta síðan kosningum til 22. nóvember minnir að sumu leyti á nýliðna íslenska sögu. Þegar Panamaskjölin voru afhjúpuð snemma vors 2016 mældist fylgi Pírata yfir 30% og hafði gert í heilt ár. Í stað þess að slíta ríkisstjórninni strax og boða til kosninga kaus Sjálfstæðisflokkur og Framsókn að láta ríkisstjórnina lafa, skipta úr forsætisráðherra en bíða með kosningar fram í lok október til að gefa stjórnarflokkunum færi á að jafna sig. Frá afsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar 7. apríl og fram að kosningum 29. október voru 206 dagar og á þeim tíma tókst Framsókn að verja sig falli og Sjálfstæðisflokkurinn að bæta nokkuð við fylgi sitt. Og það fenti yfir Panamaskjölin. Ríkissjónvarpið spurði ekki einu sinni um þau í kappræðum formanna, þótt þau væru tilefni þess að boðað hafði verið til kosninga. Fylgi Pírata helmingaðist og rúmlega það á þessum tíma, færðist að hluta yfir til Viðreisnar og Vg en dreifðist annars víða.

Mark Rutte ætlar að leika svipaðan leik. Hann er þó ekki alveg eins grófur og Bjarni Benediktsson á sínum tíma og gefur stjórnarflokkunum 139 daga til að jafna sig. Og öfugt við Bjarna þá hefur Rutte tilkynnt að hann muni hætta í stjórnmálum eftir kosningarnar. Og það sama gerðu Wopke Hoekstra, formaður Kristilegra demókrata, og Sigrid Kaag, formaður Demókrata 66. Þessir þrír flokkar hafa samanlagt tapað helmingnum af þingmönnum sínum frá kosningum, ef marka má skoðanakannanir. Og þurfa því afgerandi endurnýjun til að verja stöðu sína í hollenskum stjórnmálum.

Hrun stjórnarflokkanna minnir á hrun sósíaldemókrata fyrir nokkrum árum, en er þó ekki jafn afgerandi. 2017 fékk Verkamannaflokkurinn, fyrrum burðarflokkur hollenskra stjórnmála, aðeins 5,7% atkvæða. Það sama og Samfylkingin ári fyrr. Að hluta til fór fylgi Verkamannaflokksins yfir til róttækari sósíalískra flokka, til Vinstri grænna (GroenLinks) og Sósíalistaflokksins, en ekki síður út á ysta hægrið þar sem Frelsisflokkur Geert Wilders er og reyndar nokkrir aðrir. Ysta hægrið er rótgrónara í hollenskum stjórnmálum en víðast annars staðar og þar birtist það í ýmsum myndum.

BorgaraBandalagBænda er ein birtingarmyndin, kannski ekki eins geirneglt á ysta hægrið eins og Frelsisflokkurinn en klárlega einn af þeim ný-hægri flokkum sem hafa styrkt sig gríðarlega í evrópskum stjórnmálum á undanförnum misserum og mánuðum. Flokkurinn er ekki bara á móti aðgerðum gegn loftlagsvá og verndun dýra og náttúru heldur vill takmarka fjölda flóttafólks í Hollandi, auka völd hollenskra stjórnvalda og draga úr völdum Brussel og sver sig að öðru leyti í ætt við flokka sem reyna að orða óánægju fólks með þróun samfélagsins á undanförnum áratugum, þess samfélags sem stofnanahægrið, -vinstrið og -miðjan hafa mótað í sameiningu.

Verkamannaflokkurinn hefur reynt að mæta vexti ysta hægrisins með því að mynda kosningabandalag með Vinstri grænum. Saman mælast flokkarnir með 25 þingmenn af 150 og koma fleiri með Vinstri grænum. Þetta er sami fjöldi og BorgaraBandalagBænda fær í nýjustu könnunum og einnig það sama og Þjóðarflokkur Mark Rutte fær. Þarna eru því þrír jafn stórir turnar. Á eftir þeim kemur Frelsisflokkur Geert Wilders með 15 þingmenn. Og staðan er sú að ysta hægrið er stærsta blokkin í hollenskum stjórnmálum, ef hún kýs að vinna saman.

Sókn ysta hægrisins í Hollandi er ekki einsdæmi. Fyrir sunnan landamærin er Flæmskar áherslur (Vlaams Belang) stærsti flokkurinn í flæmska hluta Belgíu, flokkur sem fékk metfylgi 2019, tæp 12%, en mælist nú með tæp 23%. Austan landamæranna mælist Valkostur fyrir Þýskaland (Alternative für Deutschland) nú næst stærsti flokkurinn, stærri en Sósíaldemókratar, með 22% fylgi. Í kosningunum 2021 fékk flokkurinn 10% og voru bæði Græningjar og Frjálslyndir demókratar stærri, auk Sósíaldemókrata og Kristilegra demókrata.

Austurríski Frelsisflokkurinn mælist með 30% fylgi þessa dagana, vex í stjórnarandstöðu. En Bræðralag Ítalíu og Fylkingin (Lega) vaxa þótt þessir flokkar séu í stjórn á Ítalíu, mælast með 39% fylgi ásamt Ítalexit, flokki yst til hægri sem vill að Ítalía segi sig úr Evrópubandalaginu. Í Frakklandi er fylgi Þjóðfundar Le Pen og flokka sem er enn utar á hægri kantinum um 32% í könnunum. Svíþjóðardemókratar styðja hægri stjórnina í Svíþjóð og mælast með 19% fylgi. Sannir finnar eru í stjórn í Finnlandi og mælast með 20% þrátt fyrir hneykslismál. Svissneski Þjóðarflokkurinn er stærsti flokkur Sviss með 27% fylgi í könnunum.

Og í Austur-Evrópu er ysta hægrið víða við völd, í Póllandi og Ungverjalandi og það vex víðar. Það hefur ekki gerst sem margir sáu fyrir sér eftir fall Sovét að stjórnmál austursins myndu taka mið af stjórnmálum vestursins. Það má segja að hið öfuga hafi gerst. Að stjórnmál austursins eftir áfall nýfrjálshyggjuáranna og rán óligarkanna á völdum, eignum og auðlindum almennings, séu að færast vestur þar sem óligarka hvers lands hafa sölsað undir sig völdum og auð, þótt það hafi gerst hægar og ekki með jafn augljósum hætti og í austrinu.

Og frammi fyrir stjórnmálum sem þjóna fyrst og fremst hagsmunum óligarkanna og ganga gegn vilja stórs hluta almennings hafa vaxið flokkar sem selja kjósendum að hnignun samfélagsins sé menningarleg en ekki efnahagsleg, að vandinn sé ekki efnahagslegt óréttlæti heldur aukin réttindi kvenna, hinsegin fólks, innflytjenda og annarra undirsettra hópa. Þótt finna megi dæmi um viðspyrnu frá vinstri er sagan sú í flestum löndum að hið hefðbundna vinstri, sem hafði tekið rækilega hægri beygju á nýfrjálshyggjuárunum, ver kerfin sem almenningur upplifir að hafi svikið sig og tekst ekki að stilla sér upp sem valkost til mótvægis við óbreytt ástand.

Tilhneigingin í kosningum síðustu missera er að þær leiði til samsteypustjórna fallandi hefðbundna hægrisins og rísandi ysta hægrisins. Undantekningin er Danmörk þar sem mynduð var stjórn yfir miðjuna. Og á Ítalíu var mynduð stjórn ysta hægrisins. Það kann að verða raunin í Hollandi í nóvember. Það er til spásögn sem segir að það sem gerist í ítölskum stjórnmálum gerist í kjölfarið annars staðar.

Áhrif þessarar þróunar mátti heyra á tröppum Bessastaða við ráðherraskiptin í síðasta mánuði þegar Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokkurinn talaði um að Alþingi hefði brugðist í flóttamannamálum og að stjórnleysi ríkti í þessum málaflokki. Þetta eru svipuð skilaboð og Mark Rutte sendi þegar hann sleit ríkisstjórn sinni. Hið hefðbundna hægra metur það svo að þarna séu vaxtarsvæði stjórnmálanna.

En hvort sem þessi þróun verður á Íslandi eða ekki, er ljóst að þróunin í Evrópu mun hafa áhrif á Íslandi. Það skiptir Íslendinga máli hver það eru sem stýra Evrópusambandinu og Nató, hvort þar verði tekið æ meira tillit til krafna ysta hægrisins.

En mestu skiptir auðvitað að Íslendingar finni raunverulegt svar við hnignun samfélagsins á nýfrjálshyggjuárunum en leyfi stjórnmálunum ekki að leysast upp í vitleysu, annars vegar flokka sem vilja umbreyta þeim í menniingarstríð og hins vegar flokka sem ætíð heita breytingum en segja í sömu andrá að litlu ef nokkru þurfi að breyta. En það er önnur saga.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí