Euromaidan Press, enskumælandi fréttamiðill í Úkraínu, birti á mánudag uppfærðar tölur frá Úkraínuher um tjónið sem innrásarlið Rússlands hefur, að þeirra sögn, orðið fyrir á þeim 530 dögum sem þá voru liðnir frá upphafi innrásarinnar til 7. ágúst 2023. Samkvæmt skránni höfðu þá 4.244 skriðdrekar Rússa verið gerðir óvígir, 8.270 brynvarðir bílar, 7.451 bifreiðar af öðrum toga, 4.977 fallbyssur eða kerfi til stórskotaliðsárása, 709 færanlegir skotpallar, 467 eintök af loftvarnarbúnaði, 315 flugvélar, 311 þyrlur, 18 herskip og bátar, 4.154 drónar, 1.377 flugskeyti, og 735 eintök af aðskiljanlegum munum sem teljast sérstakur búnaður.
Þá höfðu, samkvæmt talningu mánudagsins, 250.240 rússneskir hermenn orðið óvígir í innrásinni fram að því. Talan nær yfir bæði fallna hermenn og særða. Samkvæmt skráningu Euromaidan fjölgaði í þeim hópi um 540 á milli daga, svo þennan dag fór heildarfjöldinn í fyrsta sinn yfir kvartmilljón.
Á þriðjudagsmorgun birti enskumælandi fréttamiðillinn Kyiv Independent uppfærða skrá: milli daga höfðu Rússar samkvæmt henni misst tíu skriðdreka í viðbót, átta brynvarða bíla, fjóra dróna, og 560 hermenn.
Úkraínski herinn birtir ekki tölur um mannfall í sínum röðum, til að draga ekki úr baráttuþreki meðal almennings.