Eftir að berast það til eyrna að almenningsgarðar Reykjavíkurborgar væru í meiri notkun nú í sumar en annars hefur tíðkast, þótti blaðamanni tilefni til að leita staðfestingar á því og hafði samband við verkbækistöð borgarinnar við Fiskislóð. Zuzana Vondra, yfirverkstjóri garðyrkjudeildar, varð til svara. Eftir fimm ára störf við almenningsgarða borgarinnar gat hún staðfest þessa tilfinningu annarra heimildamanna: „Já, nákvæmlega. Ég myndi segja það, að fólk er bara farið að njóta almenningsgarðanna meira. Líklega vegna þess að gróðursældin hefur aukist, veðrið hefur batnað og við erum að verja mikilli vinnu í að viðhalda görðunum vel.“
Í almenningsgörðum nágrannalanda virðast garðar í gegnum tíðina hafa verið nýttir til ýmiss konar tómstunda sem lengi vel virtist ekki tíðkast að sama skapi hér. Blaðamaður spurði því Zuzönu hvort notkun garðanna hefði líka breyst á seinni árum. Já, svaraði hún því líka. Tvö grillsvæði, til dæmis, bæði við Klambratún og í Hljómskálagarði, væru mikið nýtt í góðu veðri, fólk héldi litlar samkomur þar, jafnvel skólar hefðu samband með fyrirspurnir um notkun á þeim. „Svo liggja sumir kannski bara í grasinu í sólinni, aðrir labba bara í gegn vegna þess að nú eru grænu svæðin svo falleg, og enn aðrir nota grillsvæðin og matreiða fyrir sig.“
Jafnvel fyrir hádegi á þessum miðvikudegi í ágúst mátti finna fólk á Klambratúni, komið til að njóta gróðurs, veðurs og samveru.