Annar barinn, hinn myrtur, báðir rægðir fyrir „kynvillu“ – Tryggvi Rúnar segir frá málum Haraldar og Hans

Menning 12. ágú 2023 Haukur Már Helgason

Tryggvi Rúnar Brynjarsson, doktorsnemi í sagnfræði, hélt fyrirlestur á dagskrá Hinsegin heiftar, hátíðar sem haldin er samhliða Hinsegin dögum. Fyrirlesturinn bar yfirskriftina „Haraldur & Hans: Kynvillingar í réttarkerfinu“, en þar fjallar Tryggvi um mál tveggja manna sem urðu fyrir árásum í Reykjavík, annar 1968, hinn 1981. Annar var barinn til óbóta, hinn var drepinn. Og báðir sættu því, segir Tryggvi, að yfirvöld og fjölmiðlar fjölluðu um mál þeirra á forsendum gerendanna og rægðu þolendur árásanna fyrir „kynvillu“. Gunnar Smári Egilsson ræddi við Tryggva í Rauða borði Samstöðvarinnar.

Stærstur hluti lögregluskýrslu fjallaði um myndir á veggjum og klámblöð

„Ég treysti mér ekki til að fara út í mikil smáatriði varðandi árásina,“ sagði Tryggvi Rúnar, í upphafi viðtalsins, þegar Gunnar Smári spurði hann út í fyrra málið, árásina á Harald Ómar Vilhelmsson. „En útlínurnar voru að minnsta kosti þessar: hann var heima hjá sér aðfaranótt mánudags, þar sem tveir menn – eða þrír, samkvæmt lögreglunni, tveir samkvæmt Haraldi – réðust inn á heimili hans á Baldursgötu í Reykjavík og börðu hann hræðilega illa. Það eru kannski nokkrar líkur á því að þeim hefði tekist sitt verk ef ekki hefði verið ungur piltur sem bjó heima hjá Haraldi á þeim tíma og hringdi í neyðarlínuna. Árásarmennirnir tóku eftir honum og flýttu sér burtu.

Dómurinn, eins og við munum sjá, var svo hræðilega illa unninn, að við vitum ekki nóg. En svo ég haldi áfram með atburðarásina í október 1968, er að lögreglan mætir og sér þennan hræðilega vettvang. Frumskýrsla lögreglunnar er ein blaðsíða. Þar er lýst: Maðurinn alblóðugur. Það er blóð úti um alla íbúð. En svo fer langstærstur hluti skjalsins í að lýsa því sem lögreglumennirnir sáu á heimilinu: ósiðlegar myndir á veggjunum, bækur, klámblöð, sem að bentu til þess að þarna væri til heimilis maður sem þeir könnuðust við sem „kynvilling“. Þú nefndir áðan að hann hefði verið samkynhneigður maður. Á Íslandi á þessum tíma var það orð ekki til. Það er seinni tíma uppfinning. Þeir komu inn og þeir sáu „kynvilling“. Og það hugtak er svolítið það sem ég var að tala um í gær í fyrirlestrinum, vegna þess að þar tvinnast saman kynhneigð og glæpahneigð. Hver þú ert, kynferðislega – það er enginn greinarmunur á því og að vera glæpamaður.“

Grunaður og ásakaður um það sem hét „skírlífisbrot“

Lögreglan kemur inn á vettvang glæps, þar sem maður varð fyrir fólksulegri líkamsárás, barinn til ólífis, en þeir líta á þetta sem vettvang glæps um kynvillu?

„Já. Öll gögn málsins og allt sem síðar gerist í rannsókninni bendir til þess að þeim hafi verið algjörlega sama um þessa líkamsárás. Ég velti fyrir mér hversu miklar barsmíðar maður þarf að líða til að sleppa við að vera hent inn í einangrun. Því eftir að sárin hans voru hreinsuð, rétt á yfirborðinu, þá var honum hent í einangrunarklefann. Grunaður og ásakaður um það sem hét „skírlífisbrot“. Það er lagabálkur sem var við lýði á Íslandi sem hljóðaði þannig, án þess að fara í smáatriðin, að kynmök milli aðila af sama kyni eru ólögleg ef annar aðilinn er yngri en 18 ára. Greinarmunurinn var sá, að ef það voru gagnkynja aðilar voru mörkin við 16 ára. Hugmynd yfirvalda var sú að kynvilla væri eitthvað sem að táningar „yrðu“, eða jafnvel, eins og í sumum blaðagreinum kringum þetta mál ’68, að kynvilla væri eitthvað sem fólk smitaðist af. Þannig að það er verið að reyna að hlífa unglingspiltunum með þessari löggjöf, tel ég. En það sem kemur í ljós í þessari rannsókn er að það er ekki verið að hlífa neinum unglingspiltum. Þessi 15 ára sem hringdi á neyðarlínuna, honum var líka hent inn í geymslu. Hann var geymdur og yfirheyrður alla nóttina. Þeir litu ekki á hann sem einstakling sem þyrfti að verja. Þetta var bara annar kynvillingur.“

En þeir sem brutust inn og lömdu Harald, þeir voru handteknir, er það ekki? Ég var að lesa gömul blöð, þrír handteknir sagði þar.

„Þrír voru handteknir. En það sem gerðist, það sem við höfum í þessum lögregluskýrslum, sem þú kannast kannski við úr Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, er að lögreglunni berst til eyrna að þrír menn hafi verið við þessa árás. Og hún finnur þá alla til og þar er einn maður sem er á fertugsaldri, annar á þrítugsaldri, og sá þriðji er rétt orðinn sautján ára gamall. Og yfirheyrslurnar og atburðarásin er sú, til að gera langa sögu stutta, að þessi sautján ára tekur þetta á sig og hlífir þessum eldri. Og það verður hin opinbera frásögn.“

Hvert er tilefni árásarinnar að þeirra sögn?

„Samkvæmt dómnum er einfaldlega verið að berja á honum fyrir óeðlilega og afbrigðilega kynhegðun og kynvillu.“

Sem þeir vissu af en tengdist þeim ekkert persónulega.

„Sem þeir vissu af. Þetta eru orðrómar og sögusagnir. Og ég hef heyrt það líka, og má segja það, ég treysti því bara að hlustendur og áhorfendur meti það sjálf, ég hef heyrt þær sögur að þetta hafi verið slúður sem var í gangi í bænum.“

Rangur dómur og ósvífinn

Hvernig hljóðuðu dómarnir fyrir árásina?

„Þeir voru misjafnir. Þessi ungi fékk níu mánuði. Hann var dæmdur fyrir alvarlegasta liðinn. Það eru tvö ákvæði í hegningarlögunum, hann var dæmdur fyrir sérstaklega alvarlega líkamsárás sem hefði getað leitt til dauða. En það sem er svolítið merkilegt – og nú verð ég að hoppa aðeins yfir og komast inn í frásögn Haraldar, af því að hann skrifaði ritling sem hét „Rangur dómur og ósvífinn“. Hann var sannfærður um að allt sem stóð í dóminum sem við erum nú að tala um hafi verið vitlaust og rangt. Hinir kallarnir sem voru dæmdir, þeir fengu dóma. En þeir voru miklu vægari og fyrir vægari ákvæði. Og það er ítrekað í dóminum: ekki telst sannað að hann hafi gert neitt alvarlegt, það sást ekki til hans og svo framvegis. Þannig að sá yngsti tekur þetta algjörlega á sig.

Það sem síðan gerist er að Haraldur Ómar, eftir að hafa liðið hræðilega meðferð, vera neitað um læknisaðstoð þar sem hann lá inni í klefa, og ég tel að það sé engin ástæða til að efast um að þar hafi hann verið nær dauða en lífi. Það er fangaprestur sem biðlar til fulltrúa sakadómar og fangalæknis, að maðurinn þurfi aðhlynningu, sem hann að endingu fékk. Hann var fluttur á Landakot, í lögreglueftirliti. En barátta hans gegn dómsyfirvöldum á Íslandi hófst þar. Þar handskrifar hann sitt fyrsta bréf til dómsmálaráðherra, lýsir því að menn hafi ráðist á heimili hans, honum hafi verið hent í klefa, og að gerendurnir væru lausir. Og við skulum ekki misskilja það neitt: Það var ekkert púður lagt í að finna þessa árásarmenn. Áherslan var á Harald.“

Var hann ákærður?

„Það sem er svo athyglisvert er að Haraldur Ómar, þegar hann kemst loksins úr dýflissunni, þá flýr hann til Svíþjóðar. Og lifir þar sem flóttamaður, held ég að sé óhætt að segja, flóttamaður frá íslenskum yfirvöldum, þangað til hann deyr. Ákæra var aldrei gefin út á hendur honum.“

Tungumálakall sem flúði undan nasisma til Íslands

Kanntu að segja mér einhver deili á honum? Hvaða maður er þetta?

„Ég vil leggja á það áherslu að þarna er manneskja sem er svo miklu stærri heldur en hugtakið sem var stimplað á hann, „kynvillingur“. Hann var kennari í Reykjavík. Hann kom til Íslands, náði íslenskunni óaðfinnanlega. Ég er búinn að lesa svona 1000 blaðsíður eftir hann, bréf sem hann skrifaði, og hann er augljóslega mikill tungumálakall. Hann flúði nasisma, lærði íslensku í háskólanum og settist síðan hér að. Hann átti sumarbústað í Skorradal. Nú man ég ekki nákvæmlega hvar en hann var þar að rækta sinn skóg. Og hann var að kenna, var túlkur, var að þýða og þess háttar. Hann taldi sig meðal fínni borgara Reykjavíkur. Hann var svona borgaralegur, lét ekki sjá sig utandyra órakaður, horfði niður á drykkjufólk og eiturlyf og alls kyns ólifnað. Var hreinn og beinn, getum við sagt. En svo var það, sem hann neitaði aldrei og þrætti aldrei fyrir, að hans preferens, hans helstu kynferðislegu langanir, voru gagnvart unglingsstrákum. Sem að voru augljóslega, samkvæmt þeirra daga lögum og okkar daga lögum – ég breiði ekki yfir það – lögbrot, augljóslega. En þarna á þessum tíma, á þessum árum, eins og ég hef verið að kanna, þá var enginn greinarmunur gerður á milli þessa og því sem við sjáum í málinu sem við skoðum seinna. Þar er kynvilla og glæpsamleg hegðun, allt saman í hinu gamla regnhlífarhugtaki hinsegin fólks, þar var öllu troðið inn. Og þeir gera engan greinarmun.“

En Haraldur skrifar bækling, eins og þú varst að segja. Er í baráttu innan úr samfélagi homma, eins og það var þá?

„Ég myndi ekki segja innan úr samfélagi homma. Ég held að hann hafi verið afskaplega einangraður í þessari baráttu. Hann átti sér einn bandamann, sem að ekki treysti sér til þess að stíga fram sem slíkur. En ég held að það sé algjörlega óhætt að nefna það bara hér, við töluðum um hann lengi í gær, á þessum fundi. Það var Elías Mar, sem var blaðamaður sem þú kannski kannast við. Þeir voru góðir vinir.“

Rithöfundur og prófarkalesari.

„Já, akkúrat. Og við sjáum í þeim bréfum sem Haraldur skrifar Elíasi að Haraldur er svolítið að reyna að fá Elías til að hjálpa sér. Spyrja ritstjóra á Þjóðvilja hvort þeir væru til í að birta eitthvað sem hann skrifaði.“

En það vill það enginn?

„Það er enginn til í það.“

Sá dæmdi kom hvergi nærri Haraldi þetta kvöld, sagði hann

Ég ætti kannski að orða þetta þannig frekar þannig að hann er í baráttu frá stöðu homma. Það vita allir um hvað þetta mál snýst. Hann talar um að hann hafi fengið óréttlátan dóm, hann er að andmæla því. Þannig að þó að það séu ekki margir sem taka undir með honum, þá stendur hann í þessari baráttu sem …?

„Hann notar það hugtak aldrei. Hann segir: Ég tilheyri ákveðnum minnihlutahópi. Hugtakið sem hann notar er hómósexúal. Ég veit bara ekki hvort hommi og lessa, hvort hann hafi verið búinn að heyra af þeim. En ég er ekki búinn að útskýra hvers vegna hann taldi þetta rangan dóm, um árásina. Eftir að hann flutti til Malmö, þá beið hann og beið, og beiðni er í gangi hjá íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn, um að fá dóminn í hendurnar. Dómurinn féll ári eftir að árásin var framin en Haraldur Ómar fékk hann ekki fyrr en tveimur og hálfu ári eftir árásina. Þar hryllti hann við að lesa af þessum sautján ára, sem hann sjálfur kannaðist við, en sagði og skrifaði ítrekað í ritlinga og erindi til dómsmálaráðherra og yfirvalda, að þessi strákur kom hvergi nærri honum þetta kvöld. Þeir hafi dæmt rangan aðila.“

Hann hafi ekki komið í íbúðina?

„Að minnsta kosti segir hann að hann hafi ekki verið einn af þeim börðu hann.“

Haraldur sá hann ekki. Manninn sem tók á sig stærstu sökina.

„Já. Og niðurstaðan sem Haraldur komst að, út frá þessu eina plaggi – hann hafði bara dóminn, ég hef miklu meiri aðgang að gögnum um málið en hann – hans niðurstaða var að Ísland væri í reynd mafíuríki. Hans kenning, sem ég er ósammála, var að árásarmennirnir tveir sem fengu þessa vægu dóma og var einhvern veginn selppt, að þeir hafi verið í samfloti með yfirvöldum allan tímann. Til stuðnings þessari samsæriskenningu, þá tínir hann til alls kyns ummæli. Fulltrúi sakadómara sagði að hann hefði heldur viljað að Haraldur væri bara drepinn. Það voru gríðarlegir fordómar í gangi. Og öll þessi meðferð, að henda honum í einangrun. Þannig að hann taldi að markmið árásarmannanna og yfirvalda hafi verið þau sömu. Hann taldi að þarna hafi þessi rangi maður verið dæmdur fyrir þetta. Og það sem Haraldur vissi ekki en ég veit, því að ég fór og skoðaði gögnin, er að þessi sautján ára, hann var búinn að vera í gæsluvarðhaldi í níu mánuði þegar Ármann Kristinsson sakadómari biður hann um að staðfesta sinn framburð. Þetta er gert þannig að það er lögregluskýrsla, einhver skýrsla sem er tekin. Það sem þarf síðan alltaf að gerast er að dómari þarf að fara yfir hana. Það gerist ekki fyrr en níu mánuðum eftir að hann tekur þetta á sig.“

Og er þá búinn að vera í gæsluvarðhaldi allan tímann?

„Já. Fyrir önnur, ótengd mál. Og mín kenning er sú að þessi ungi maður hafi fengið einhvers konar díl. Og þetta hafi allt verið einhverjar óformlegar málamiðlanir sem voru gerðar til að loka þessu óþægilega og ógeðslega máli þessa kynvillings á Baldursgötu. Það er mín kenning.“

Níu mánuðir í gæsluvarðhaldi fram að játningu

Það er minna samsæri en Haraldur heldur fram.

„En samt samsæri. Og ég hef svona … út af því að barátta Haraldar, út af því hvernig hann mætti alls staðar, hjá íslenskum stjórnvöldum, lokuðum dyrum, enginn vildi hlusta á hann, það er svolítið það sem styður mína samsæriskenningu. Hann byrjar á því, þegar hann fær þennan ranga og ósvífna dóm, eins og hann kallaði hann, í ritlingnum sínum, „Rangur dómari og ósvífinn“ sem hvaða borgari sem er í þessu landi getur farið niður á bókasafn og lesið – hann sendir hann til þáverandi dómsmálaráðherra, Auðar Auðuns, og hann óskar eftir því að réttarrannsókn fari fram í garð Ármanns Kristinssonar, sakadómarans sem fór með þetta mál. Og hann útskýrir fyrir dómsmálaráðherranum allar þessar ástæður fyrir því að þetta sé rangur dómur. Dómsmálaráðherra sendir erindið til Ármanns, óskar eftir viðbrögðum, fær þau fljótlega. Og einu varnirnar sem Ármann kemur með eru þær að dómur hans hafi byggt á „skýlausri játningu“ sakborningsins, og þarmeð þurfi ekki meira að ræða það. Hann segir Auði ekki að strákurinn hafi verið búinn að vera í gæsluvarðhaldi í níu mánuði, þegar Ármann rukkaði hann um játninguna. Þannig að það sem Auður gerir er að hún fær viðbrögðin frá Ármanni, sendir þau á saksóknaraembættið, þar sem Hallvarður Einvarðsson nokkur tekur við þeim, og Hallvarði er falið að mæla með því hvað eigi að gera. Hans bréf til Auðar segir að hann vilji að ekkert sé gert, það sé ekki tilefni til að aðhafast neitt vegna þessara ásakana. Það sem Auði mistekst hrapallega að gera er að skoða ekki að Hallvarður var sjálfur saksóknari í þessu máli. Hann hafði sjálfur verið hluti af þessu, sem ég tel að hafi verið – ég er búinn að lesa ræðu Hallvarðs, það er hann sem mælir með þessari leið, „að gefinni þessari játningu verður að gefa vægari dóm“ – Hallvarður er með í öllum þessum skrefum. Og Auður, í staðinn fyrir að segja: Heyrðu, þú ert ekki maðurinn til að gera þetta, fáum einhvern annan, þá sendir hún niðurstöðuna til Haralds, til Svíþjóðar: við ætlum ekki að gera neitt, ríkisstjórninni kemur þetta ekki við.“

Maður sem flýr land fyrir skírlífisbrot sagður ómarktækur

„Ritlingurinn sem Haraldur prentaði erlendis í þúsund eintökum – það var ekki lítið mál þarna úti, að finna íslenska stafi til að prenta þetta – og ætlaði að reyna að dreifa á Íslandi, en gekk ekkert, fékk engan dreifingaraðila. Nema hvað að blaðamaður á Vísi pikkar þetta upp, spurði Ármann Kristinsson hvað honum finnist um þessar ásakanir. Ármann svarar ekki ásökununum. Út af því að þær snúast um að Haraldur vildi að árásin, sem hann rétt svo lifði af og varð öryrki út af, yrði höndluð rétt. Ármann segir: ég er fyrst að heyra af þessu núna. Sem ég komst að að var helber lygi. Hann var löngu búinn að fá erindi frá dómsmálaráðherra um að fá þetta svar. En hann segir: orð manns sem flúði land þegar yfir honum vofði ákæra fyrir skírlífisbrot eru áreiðanlega öllum mönnum léttvæg. Þar endar greinin í Vísi. Blaðamaðurinn hafði það ekki í sér að segja: þetta er ekki það sem ásakanirnar snúast um. Þetta var nóg til að grafa algjörlega undan trúverðugleika …“

Útlendingur, hommi og landflótta. Á flótta undan réttvísinni. Og þar með ekki tekið mark á neinu sem hann segir.

„Ég vil meina að það sé þessi, sko, þetta er ótrúlegt. Lögreglumenn voru að skrifa blaðagreinar, þeir voru að mæta í viðtöl í Ríkisútvarpið, þeir voru með fyrirlestra. Það var allt gert til að þetta snerist um kynvillu. Og kynvilla og glæpur, semsagt, það að þú sért ekki trúverðugur, það að þú sért ekki bara … siðferðisvera, það byggist á því. En ég verð líka að nefna aðra grein sem birtist í Morgunblaðinu, einum eða tveimur mánuðum eftir árásina sjálfa. Það var maður sem stjórnaði tæknirannsókn árásarmálsins gegn Haraldi. Hann skrifar, um Harald, hann er að kvarta í greininni sinni, yfir Alþingi. Hann kvartar yfir því að Alþingi hafi ekki rannsakað glæpsamlegan bakgrunn þessa manns, áður en það veitti honum ríkisborgararétt. Alþingi ætti að vera að auka eftirlitsheimildir Útlendingastofnunar, segir hann, í staðinn fyrir að vera að hleypa inn kynvillu. Og hann spyr: Hversu margir unglingar gætu hafa smitast og orðið kynvilltir út af þessum eina manni sem við hleyptum inn í landið?“

Er ekki skiljanlegt að Haraldur Ómar upplifi að kerfið sem hann glímir við, fangaverðirnir, lögreglan, mögulega heilbrigðisstarfsfólk, hann upplifi að allt þetta fólk sé í liði með árásarmönnunum?

„Það er ekki skrítið. En ég held að það hafi ekki verið svo einfalt.“

Skiljanleg niðurstaða hjá honum en þú telur að það sé ekki endilega rétt?

„Já.“

Maður sem flýr land fyrir skírlífisbrot sagður ómarktækur

Þetta var 1968. 1974 eða 75 birtist viðtalið við Hörð Torfason í Samúel. Samtökin ’78 eru náttúrlega stofnuð 1978. En næsta mál er 1981, þá er semsagt kominn einhver farvegur til þess að ræða málefni homma. Var orðið kynvillingur enn notað 1981?

„Það sem er svakalega áhugavert við málið 1981 er að í lögregluskýrslunum og dóminum er allt morandi í þessu orði. Kynvilla. Það er orðið sem lögreglumennirnir nota í sínum skjölum. En það sem við sjáum í fjölmiðlum, og kemur beint frá lögreglunni, allt saman, þar er fyrst um sinn talað undir rós, það er talað um að hann hafi ekki verið við kvenmann kenndur, að hann haldi með ákveðnum hópi karlmanna í Reykjavík. Það er svona aðeins varfærnara orðalag – út á við. En í skjölunum, og þetta eru líka mestallt sömu karlar sem stjórnuðu rannsókninni 1968 og 1981, og sem stjórnuðu líka Guðmundar- og Geirfinnsrannsókninni, þetta er stutt tímabil og litlar stofnanir, eins og gefur að skilja. En í öllum skjölum er „kynvilla“ það sem þeir eru að notast við.“

Og grófara hvernig þeir töluðu í plöggum sem eru innanhússgögn, þannig að þú getur rétt ímyndað þér hvernig þeir töluðu saman á kaffistofunni?

„Nákvæmlega.“

„Kynvilla orsök hins hræðilega atburðar“

En þarna er Hans Wiedbush, sem er drepinn á hroðalegan hátt, á heimili sínu við Grenimel. Fyrir þá sem ekki muna, geturðu sagt okkur aðeins frá þessu máli?

„Það sem gerðist þarna, það var semsagt miðvikudagskvöld, í september 1981, að Hans var búinn að vera úti að skemmta sér. Og það er semsagt einhver sem hann var búinn að spjalla við niðri í bæ og fer með honum heim og þeir ætla eitthvað að halda áfram að sötra. Og því miður er það eina sem við höfum, og það sem íslenskt dómskerfi er búið að leggja stimpil sinn á, er eingöngu frásögn gerandans, sem er aldrei dregin í efa, þannig að ég verð bara því miður að endursegja þá sögu, með þeim fyrirvara að ég held að þetta hafi ekki verið þannig.“

Það er fullorðið fólk að hlusta og það veit að nú er að hefjast frásögn sem byggir á vitnisburði gerandans, sem er auðvitað að reyna að bera af sér sök með afgerandi hætti.

„Já. Hann segir að Hans hafi látið sig reykja kannabis og hann hafi gefið honum einhverjar svefntöflur og síðan hafi hann nauðgað honum. Og hann vaknar við það að sér sé nauðgað. Og hann bregst við með því að myrða hann. Stinga hann endurtekið, til dauða. Og það sem gerist er að ólíkt því sem var á Baldursgötunni, það er ekkert símtal, það kemur enginn samdægurs, það líða tveir dagar sem Hans mætir ekki í vinnunna, þar sem hann vann í Blómavali. Og það eru áhyggjur yfirmanna og vina sem leiða til þess að þau fara inn í íbúðina og finna hann þar. Og það er þá sem að lögreglan kemur, á föstudeginum. Þetta er strax komið í alla fjölmiðla. Og það sem er svo sláandi – og líkindin milli þessa máls og ’68 eru meðal annars þau – að þar er vettvangi þessa glæps aftur snúið við. Það er allt gert í þeirri rannsókn, eins og var gert í fyrri rannsókninni, til þess að skella skuldinni á þolandann. Það er fundin einhver kannabisplanta, það er gramsað í öllu hans dóti, og það er verið að skrásetja allt þetta, í stað þess raunverulega að reyna að skapa einhverja hlutlæga atburðarás þess sem hefði gerst. Sem á auðvitað að vera hlutverk …“

Lögreglan trúði þeim ekki

Eins og rannsóknin beinist að því að réttlæta verknaðinn. Þessir menn hafi verið réttdræpir.

„Og það sem gerist í málinu – ég leyfi mér að efast um það að rannsakendur hefðu eytt miklu púðri í að finna gerandann ef að vinur þess manns hefði ekki blaðrað, komið til lögreglunnar og sagt frá. Hann var handtekinn og umsvifalaust, þá sagði hann, um leið og hann var handtekinn, þá játar hann það að hafa drepið þennan kynvillingadjöful á Grenimel, eins og hann segir. Og það var eiginlega allt sem þeir þurftu. Hann segir þeim þessa frásögn, hann hafi verið látinn reykja einhver eiturlyf og honum hafi verið nauðgað. Þetta hafi verið hans viðbrögð við því. Og út frá þessu, út frá þessum vitnisburði, þá fer allt púður rannsóknarinnar í að rannsaka hvers konar kynvilla hafi verið látin grasserast þarna niðri á Grenimelnum. Fullt af fólki sem eru tekin í yfirheyrslur, þeir kalla þetta reyndar viðtöl, þetta voru bara einhver vitni – þetta eru stífar yfirheyrslur og allt púður fer í að komast að því hvort Hans hafi verið að nauðga einhverjum öðrum. Hvort hann hafi verið að brjóta á einhverjum öðrum mönnum. Og alveg eins og í máli Haraldar er enginn tilbúinn að segja um hann stakt, vont orð. En það sem við sjáum er að lögreglan trúir ekki – þegar það voru giftir menn sem voru teknir inn, aðrir grunaðir kynvillingar fengnir þarna inn, til að reyna að staðfesta frásögn gerandans – en það sem við sjáum inni í skjölunum er að vitnið er sterklega áminnt um sannsögli. Það eru svona hlutir, inni í viðtölunum – lögreglan bara trúði þeim ekki. Hún heldur að mennirnir skammist sín svo mikið.“

Þetta séu menn sem ljúga.

„Ég verð að segja frá einu sem ég las þarna. Ég er að leggja áherslu á að undir kynvilluhugtakinu hafi verið öll þessi glæpsamlega hegðun. Það sem við sjáum er eitthvað á þann veg að „já“ segir þessi maður sem kemur þarna inn, „ég vissi að Hans var kynvilltur, hann sagði það ekki en ég bara sá það á honum, að hann væri kynvilltur. En ég vil leggja á það áherslu að hann sýndi aldrei slíka hegðun gagnvart mér. Hann viðhafði alltaf fulla kurteisi í minn garð. Og í öll þau skipti sem ég gisti þá sýndi hann mér aldrei óviðeigandi hegðun.“ Og þarna sérðu að bara kynvilla, munurinn á kynvillu og þess að vera kynferðisbrotamaður, það var bara enginn munur.“

Þó þeir væru sekir þá ættu þeir skilið að málin væru rannsökuð betur

Sá kynvillti tekur ekki nei fyrir svar. Líklegur til þess að þröngva öðrum til kynmaka sem ekki vilja.

„Já og svíkja og fá einhvern veginn, lokka menn þarna inn, dópa þá og svona. Það sem við sjáum á rannsókninni eru lúsleitanir í Blómavali, að fleiri kannabisplöntum, sem þeir finna, með einhverri vatnspípu. Og í staðinn fyrir að vera að rannsaka morðvettvanginn er þetta sent út á einhverja vísindastofnun í Noregi til að skoða styrkleika eitursins sem morðinginn sagði að sér hefði verið byrlað.“

Í þessu takmarkaða sem ég var að skoða sá ég að munurinn var svolítið sá, sem stakk í augu, að vinir Hans senda frá sér tilkynningu því þeim ofbýður þetta tal, hvernig verið er að sverta fórnarlambið. Lýsa honum sem góðum manni, vini vina sinna, ljúfum og blíðum manni.

„Já og þetta er stóri munurinn. En að sama skapi áttum við ágætis umræður í gær, eftir fyrirlesturinn, um viðbrögð hinsegin samfélagsins við þessum málum. Og það var einn sem sagði svo rosalega vel – ég varpaði fram þessum fyrirsögnum sem voru í blöðunum á þessum tíma, að banamaður sakar Þjóðverjann um nauðgun, var gripinn ofsahræðslu og þessar fyrirsagnir – bara hversu ótrúlega erfið sú barátta var samt, að reyna einhvern veginn að koma sér inn í samfélagsumræðuna, þegar hún er á þessu plani.“

Það er kannski ástæðan, giska ég, fyrir því að þú ert að fjalla um þetta í dag. Hvað hinsegin samfélagið ætti að gera við þessa tvo menn?

„Já … ég spyr, og lokaspurningin mín í gær var sú, ég sagði þetta svona: að okkar staða í dag, og þau réttindi sem við höfum fengið, þau grundvallast á því að við höfum rosalega harkalega skilið á milli glæpa annars vegar og kynhneigðar hins vegar. Sem ég er búinn að lýsa í þessum tveimur málum að hafi verið algjörlega samofin í gamla daga. Að okkar réttindi byggjast á því að við hérna séum bara saklaus, siðferðisleg og góð og fín og ekkert við okkur að athuga. En allt svona, þar sem eitthvað er á einhverju gráu svæði – og ég vil taka það fram að ég er ekki að reyna að sótthreinsa þessa menn. Ég vil halda því fram að jafnvel þó þeir væru sekir um þessi brot þá ættu þeir skilið að málin væru rannsökuð betur. En ég velti því fyrir mér hvort það sé akkúrat þetta sem geri það að verkum að hinsegin samfélagið á svolítið erfitt með að tala um Harald og Hans.“

Vopnið kynvilla notað til að stigmatisera þá

Áttu við að hinsegin samfélagið þurfi svo mikið á því að halda að slíta sig algjörlega frá einhverju sem er lögbrot eða glæpsamlegt að þeir sem mögulega stíga yfir línuna og tilheyra samfélaginu, þá snúi samfélagið baki við þeim? Hafi ekki styrkinn í samfélaginu til að geta varið sitt fólk sem stígur yfir einhverja línu? Eitthvað þannig?

„Sko, ég er bara að velta upp spurningum, sko.“

Ég líka.

„Já. Mér þætti mjög fróðlegt að vita og sjá hvað meginstraumurinn, hvað þeim finnst um þetta.“

Meginstraumurinn í hinsegin samfélaginu.

„Já, ekki Hinsegin heift. Ég velti fyrir mér, því við höfum þurft, í öll þessi ár, að segja: Við erum nákvæmlega ekki þetta. Sem yfirvöld sáu í Haraldi og Hans. Við erum nákvæmlega ekki það. Og þess vegna eigið þið að leyfa okkur að vera bara hér í friði og ró. En það sem er svo erfitt í þessu öllu saman er að ég tel að þeir hafi verið beittir hræðilegu misrétti. Og þetta vopn, kynvilla, hafi verið notað til að stigmatisera þá, til að gera þeim svona rosalega erfitt að hafa uppi einhverjar varnir. Þannig að ég er ekki að skamma neinn eða álasa neinn …“

Þú talar um að þó að þeir hafi brotið þetta af sér þá eru brot Hans til dæmis ekkert …

„Ég náði ekki að komast yfir það þegar ég var að lýsa hans máli, en það er með ólíkindum, sá dómur sem féll í Hæstarétti, sem sannarlega ætti líka að skrifa um ritling sem héti Rangur dómur og ósvífinn. Hæstaréttardómararnir, margir þeir sömu og í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, þeir segja, til að útskýra þá miklu refsilækkun sem þeir beita sér fyrir, að það verði að líta til þess að ákærði hafi orðið fyrir alvarlegu kynferðisbroti af hálfu mannsins sem hann var að „bregðast við“. Þar kemur fram – þó að það hafi ekki komið fram í miðlunum, eins og það gerði í máli Haraldar, „Kynvilla orsökin“, það kemur fram í Hæstarétti. Hæstarétti Íslands. Að þetta hafi verið orsökin.“

Finnst þér að í dómnum hafi verið sannað að þarna hafi átt sér stað nauðgun?

„Engan veginn. Það eru engin gögn. Það er ekkert. Það eina sem við höfum í dómi Hæstaréttar er „Við verðum að ganga út frá því sem gefnum hlut, að maðurinn sé að segja satt og rétt frá“. Að hann hafi bara verið að bregðast við þessu. Að honum hafi verið byrlað, að honum hafi verið nauðgað, að þetta hafi bara verið hans, í raun og veru, skiljanlegu viðbrögð.“

Ég er tvítugur 1981. Þetta tengist kannski þroskasögu minnar kynslóðar, að rifja upp hvernig umfjöllunin var á þessum tíma. Eins og Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Sem snýst þá svolítið um að meta hvernig samfélagið hefur þroskast síðan. Maður þekkir það líka frá öðrum kúguðum hópum, eða jaðarsettum hópum, sem hafa þurft að þola margt, að það er tilhneiging til að velja hafna þeim sem eru einhvern veginn afgerandi góðir eða fínir eða flottir, til þess að vinna á móti stigmanu sem að var. Og þess vegna er fólk sem er á einhverju gráu svæði eða eitthvað sem verður hálf-raddlaust. Hvað eigum við að gera við þessar sögur?

„Í þessu máli er nákvæmlega það sem samfélagið var að reyna að hafna. Og ég skil alveg af hverju það er. Það er bara hræðsla. Það vill enginn vera assósíeraður … hvað á maður að segja … við einhvern sem er svona rosalega auðvelt að setja þennan stigmatíska stimpil á, sem minnir okkur á allt þetta, alla þessa gríðarlegu jaðarsetningu, sem var hérna fyrir svo rosalega stuttu síðan að fólk man eftir því.“

Þá ætla ég að spyrja: Ætti hinsegin samfélagið að vera orðið það sterkt að það gæti ráðið betur við að fjalla um þessa tvo menn en það var 1990? Eða 2000?

„Það ætti að vera það. Ég veit ekki hvort það sé. En ég kannski býð mér bara á fund með Samtökunum 78. Ég hef aldrei talað við þau um þetta. Ég veit ekki einu sinni hvort þau vita af þessu.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí