Benedikt ljónheppinn að búa við skattkerfi sonar síns

Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna fjármálaráðherra, varð 85 ára í sumar. Hann er hættur að vinna, var aðeins með rúmlega 70 þús. kr. í tekjuskattsskyldar tekjur á mánuði í fyrra samkvæmt hátekjulista Heimildarinnar. En Benedikt er meðal auðugustu Íslendinganna og var með tæplega 179 m.kr. í fjármagnstekjur eða um 14,9 m.kr. á mánuði.

Þrátt fyrir þessar miklu tekjur greiðir Benedikt sáralítið útsvar til Garðabæjar þar sem hann býr, aðeins tæplega 116 þús. kr. Það dugar ekki fyrir mikilli þjónustu frá bænum. Ástæða þess að Benedikt greiðir svona lítið útsvar er að fjármagnstekjur eru undanþegnar útsvari. Ef svo væri ekki hefði Benedikt greitt 24,5 m.kr. meira til bæjarins.

En fjármagnstekjur sleppa ekki aðeins við útsvar heldur er skattprósentan lág, aðeins 22%. Launatekjur bera tekjuskatt upp að allt að 31,58%. Ofan á það leggst útsvar sem er 13,7% í Garðabæ. Samanlagt eru launatekjur fólk í Garðabæ skattlagðar allt að 45,28%. Ef tekjur Benedikts væru skattlagðar eins og launatekjur þyrfti hann að borga 79,7 m.kr. í skatt. Hann borgaði hins vegar aðeins 39,5 m.kr. í skatt. Segja má að hann hafi fengið um 40,2 m.kr. í skattaafslátt fyrir að hafa tekjur af fjármagni en ekki vinnu eða úr lífeyrissjóðum.

Þau sem vilja skattleggja fjármagnstekjur lægra en launatekjur hafa meðal annars haldið því fram að ef fjármagnstekjur væru skattlagðar sem launatekjur væri verið að skattleggja sömu krónurnar tvisvar. Kenningin er að þegar skattur er lagður á hagnað fyrirtækja og síðan aftur á arðgreiðslur til eigenda hlutafjárins sé um tvísköttun að ræða. Þessi kenning stenst ekki þar sem fyrirtækið er sjálfstæður skattaðili eins og hluthafinn.

En látum sem svo sé. Þá getum við sagt að áður en Benedikt fékk 179 m.kr. í fjármagnstekjur hafi eignarhaldsfélög hans verið búin að borga 20% af hagnaðinum. Til að geta borgað Benedikt 179 m.kr. í arð þurftu félögin að skila tæplega 225 m.kr. hagnaði. Sem þau borguðu 44,9 m.kr. í tekjuskatt. Benedikt borgaði síðan 39,6 m.kr. í fjármagnstekjuskatt af sínum hlut. Samanlagt borguðu eignarhaldsfélögin og Benedikt því um 84,3 m.kr. eða 37,52% af þessum tekjum. Ef við leggjum hins vegar skatt á þessa fjárhæð eins og um launatekjur væri að ræða hefði skatturinn orðið 100,1 m.kr. eða 44,55%.

Jafnvel þótt tillit sé tekið til raka nýfrjálshyggjufólksins þá er skattaafslátturinn sem Benedikt fær 15,8 m.kr.

Í Svíþjóð er fjármagnstekjuskattur 30%. Þar þyrfti Benedikt, pabbi Bjarna, að borga 53,7 m.kr. í fjármagnstekjuskatt, 14,3 m.kr. meira en hérlendis.

Í Finnlandi er fjármagnstekjuskattur 34%. Þar þyrfti Benedikt að borga 60,8 m.kr. í fjármagnstekjuskatt, 21,5 m.kr. meira en á Íslandi.

Í Noregi er fjármagnstekjuskattur 35,2%. Þar þyrfti Benedikt að borga 63,0 m.kr. í fjármagnstekjuskatt, 23,6 m.kr. meira en hér.

Í Danmörku er fjármagnstekjuskattur 42%. Þar þyrfti Benedikt að borga 75,1 m.kr. í fjármagnstekjuskatt, 35,8 m.kr. meira en á Íslandi.

Það er því sama á hvernig það er litið, Benedikt er heppinn að hafa son sinn í fjármálaráðuneytinu sem gætir svo að hagsmunum fjármagnseigenda að Benedikt borga lægri skatta en launafólk á Íslandi en líka lægri skatta en fjármagnseigendur í nágrannalöndunum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí