Eðlilegt að leigusalar framvísi sakavottorði ef leigjendur gera það

Síðastliðinn fimmtudag deildi Margrét nokkur ábendingu til meðlima í hópnum Leiga á Facebook. Hún sagðist hafa auglýst íbúð til leigu á vefnum myigloo.is, sem virðist vera vaxandi vettvangur slíkra auglýsinga á Íslandi. Vefurinn tilheyrir Leiguskjóli sem er dótturfélag Arion banka. í færslu sinni á Facebook benti Margrét væntanlegum leigjendum á nytsemi þess að skila fullkláruðum umsóknum, með meðmælum og öðru: „Fyrir mig sem leigusala þá voru langbestu umsóknirnar þær sem voru kláraðar strax“.

Svo virðist vera sem fullkláruð umsókn hjá Myigloo feli hins vegar í sér fleira en að fylla út reiti. Meðal fylgigagna nefndi Margrét sjálf meðmæli frá fyrri leigusölum. Í athugasemdum við færsluna má hins vegar lesa efasemdir fólks á leigumarkaði um önnur gögn sem krafist er: upplýsinga frá vanskilaskrá CreditInfo ásamt sakaskrá.

Við þetta gerir Sigrún þá athugasemd að það sé í góðu lagi að biðja um hvort sem er sakaskrá eða vanskilaskrá „en leigjandi ætti líka að fá að sjá sakaskrá/vanskilaskrá frá leigusala“.

„Þarf ekki að vera gagnkvæmt traust og gegnumsæi?“

Við þessa athugasemd hefjast fjörugar umræður. Margrét sú sem setti inn upphaflegu færsluna spyr Sigrúnu hvernig hún fái þetta út. Sigrún svarar að leigjandi sendi allar upplýsingar um sína fjölskylduhagi en viti lítið um leigusala. „Ég get ekki lagt þetta að jöfnu,“ segir Margrét. „Leigusalar eru að láta leigjendum jafnvel aleigu sína til afnota. Eignir uppá tugmilljónir sem eru jafnvel hátt skuldsettar og eigandinn þarf að greiða áfram af þó hann fái leigjanda sem greiðir ekki leigu og/eða veldur skemmdum á húsnæðinu.“

Ásgeir blandar sér í umræðuna og bendir á að í mörgum tilfellum sé leigjandi að „borga húsnæði leigusala. Leigusali kaupir húsnæði og leggur vissulega út fjárhæð til kaupanna en leigjandi borgar allar afborganir. Þarf ekki að vera gagnkvæmt traust og gegnumsæi?“

Þá nefnir Lilja að hún hafi leigt hús sem leigusali borgaði ekki af. „Húsið var boðið upp af sýslumanni eldsnemma einn morguninn þegar ég var í vinnu og maðurinn minn sofandi á efri hæðinni. Ég var buin að leigja þetta hús í heilt ár! Og ekki hafði verið borgað af því árum saman.“

Jakob nokkur bendir Margréti á að hún sé „væntanlega með lykla að íbúðinni sem manneskjan leigir hjá þér og treystir að þú misnotir ekki aðstöðu þína. Er ekki sjálfsagt að veita leigjanda sömu hugarró og þú (eða hver sem biður um svona) krefst?“

„Ætti að vera sársaukalaust fyrir leigusala að gera slíkt hið sama“

Margrét segir Jakobi að ef eigandi fer inn í íbúð leigjanda án leyfis og tilskilins frests, þá eigi leigjandi að hringja á lögregluna. Lilju svarar hún með því að vonandi sé „algjör undantekning að svona gerist og auðvitað glatað. En kalt mat er að þú þarft að finna þér nýtt leiguhúsnæði og hefur væntanlega fengið einhvern frest til þess en eigandinn er búinn að missa allt sitt. En eins og ég nefndi í öðru kommenti þá mun ég örugglega ekki biðja um upplýsingar úr vanskilaskrá aftur, ég held það hafi lítið að segja.“

Lilja svarar: „Kalt mat? Þarna var leigusalinn búinn að stinga í vasann upphæð frá mér sem telur í miljónum. Þegar ég stóð á götunni með börnin var hann í öðru húsnæði og bjó þar frítt. Þarna hafði ég borgað leiguna fyrir hann í rúmt ár og þetta var fólk með fínar tekjur, mun hærri tekjur en ég og minn maður. Hefði ég fengið upplýsingar um þetta fólk úr vanskilaskrá hefði legið ljóst fyrir að ekki var búið að borga af þessu húsi lengi. Ef leigusölum finnst það sársaukalaust fyrir fólk sem er leita að húsnæði til að leigja, að afhenda þessar upplýsingar ætti það að vera sársaukalaust fyrir leigusala að gera slíkt hið sama.“

Hryllingssaga af leigasala gallaðs húsnæðis

Allt þetta bliknar þó við hlið þeirrar sögu sem Berglind nokkur hefur að segja af sinni reynslu af leigusala. Hún segist hafa leigt íbúð fyrir sjö, átta árum síðan, sem einstæð fjögurra barna móðir, fært fram upplýsingar af vanskilaskrá sem hafi verið A1, „sakaskrá sem var engin“, sýnt fram á fastar tekjur og lagt fram 830 þúsund krónur í tryggingu, gegn því sem henni var tjáð að væri langtímaleiga, að minnsta kosti til tveggja ára.

Þegar hún flutti inn í íbúðina hafi fyrsti gallinn birst: ofninn í eldhúsinu hafi ekki virkað. Leigusalinn hafi þóst ætlað að senda mann til viðgerðar en það hafi enn ekki átt sér stað þegar háfurinn hrundi. Þá var kominn vetur og konan og börnin höfðu búið í íbúðinni í 2-3 mánuði. Um miðjan desember segist hún hafa gefist upp á biðinni og sjálf greitt manni fyrir að annast viðgerðirnar. Iðnaðarmaðurinn hafi verið hneykslaður á að „þessi risaháfur hefði verið skrúfaður upp með tveim skrúfum í gipsvegg“.

Hún hafi loks senti leigasalanum myndir af reikningunum fyrir þessar viðgerðir. Leigusalinn hafi sagst ætla að endurgreiða kostnaðinn, „þar sem að hann vissi að bakaraofninn væri ónýtur àður en hann leigði mér íbúðina“ en það hefði hann þó aldrei tekið fram við hana.

„Ég borgaði samt sem áður alltaf leiguna mína og alltaf á réttum tíma. Og bjóst við að leigu salinn minn myndi endurgreiða mér ofninn, og verktakavinnuna,“ segir Berglind.

Þakleki, sjúkrahúsvist, íbúð seld

En gallar íbúðarinnar héldu áfram að koma í ljós. „Þakið var ónýtt og farið að leka og lak alltaf inn til mín bæði þegar var rigning eða þegar var þýða og snjórinn bráðnaði og lak inn.“ Í ljós kom að þetta vissi leigusalinn líka, Berglind talaði við annað fólk í sama húsi, sem „sögðu að í 10 ár hafi þau reynt að eltast við hann til þess að fá hann í það með þeim að gera við þakið.“

„Jæja,“ skrifar Berglind, „ég hugsaði þetta er svo sem allt í lagi og best væri að halda leigusala góðum svo að ég og börnin mín gætum búið á okkar heimili sem að ég leit á að væri til framtíðar. Og skítt með allan peninginn sem að ég var búin að eyða í ofninn og verktakareikninginn fyrir vinnunni til þess að festa upp háfinn rétt.“

Að tveimur árum liðnum hafði leigusalinn samband við konuna, þegar hún lá á sjúkrahúsi, „með sýkingu í blóði, einhverskonar kúlu á lunga og aðra sem var eins og tennis bolti að stærð rétt við mjaðabein … með friðarpípu og súrefni, og var sett á 4 tegundir af sýklalyfjum áður en þeir loksins fundu réttu lyfin sem loksins fóru að virka á mig.“ Hún varð vör við tilraunir leigusalans til að ná sambandi þegar hún kom heim af sjúkrahúsinu eftir þriggja vikna innlögn, „ennþá fárveik og enn á sýklalyfjum.“ Þegar þau heyrast færir hann henni þau tíðindi „að íbúðin sé seld og að kaupendur vilji fá íbúðina afhenta strax.“

Berglind segist hafa sagt leigusalanum að hún væri enn fárveik, og hefði „enga orku í að fara að pakka niður og flytja enda átti ég að taka því mjög rólega samkvæmt lækni.“ Þá sendi hún leigusalanum myndir af læknisvottorðum sem hún hafði fengið. Allt kom það fyrir ekki, íbúðina skyldi rýma. „Ég fæ svo aðstoð til þess að pakka dótinu mínu niður, leigði búslóðageymslu og flutti búslóðina þangað.“

Fjölskylda í andnauð og mygla í íbúðinni

Á sama tíma hafði sonur Berglindar veikst, hann hafði verið sendur í andnauð á sjúkrahús, og varð að vera á pústi alla daga. Þegar hér er komið sögu átti það við um fjóra af fimm meðlimum fjölskyldunnar, að þau studdust öll við Ventolin púst. „Svo datt vinafólki mínu og fjölskyldu í hug þegar þau voru að þrífa íbúðina að kannski hafi öll okkar veikindi stafað út af myglu.“

Við athugun kom það á daginn. Sjö tegundir af myglu í íbúðinni, sem væru „hættulegar og aðrar lífshættulegar fólki“.

Berglind segist aldrei hafa fengið ofninn eða háfinn eða viðgerðirnar endurgreiddar, ekki fengið fulla þrjá mánuði til að finna sér annað húsnæði, „og svo þegar ég gekk eftir tryggingunni þá átti leigusalinn ekki fyrir því að borga mér hana til baka.“ Það hafi verið með aðstoð lögfræðings sem hún samþykkti loks að leigusalinn greiddi sér trygginguna niður á þremur mánuðum. „En svo vantaði mig meðmæli þar sem èg var að fara að leigja annarsstaðar og þá blokkaði leigusalinn mig og ég hef aldrei heyrt aftur í honum né séð.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí