Í bilinu á milli „búsetuúrræða með takmörkunum“ og „lokaðra flóttamannabúða“ virðist pláss fyrir heila ríkisstjórn

Flokksráð Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins luku fundum sínum um helgina með ályktunum í fjölda mála. Meðal þeirra mála sem ber hæst, og þar sem kjósendur beggja flokka vonast jafnvel til að þeir séu á öndverðum meiði, er spurningin um afdrif umsækjenda um alþjóðlega vernd sem íslensk yfirvöld synja. Í því efni er ályktun flokksráðs Sjálfstæðisflokksins jafn skýr og lófaklappið þegar málið bar á góma í ræðum þessa helgi: „Þeir sem ekki eiga samvinnu við yfirvöld skulu sæta vistun í búsetuúrræði með takmörkunum þar til hægt er að brottvísa af landinu.“ Skáletrun blaðamanns.

Á sama tíma mótmælir flokksráð Vinstri grænna, í sinni ályktun: „vinnubrögðum við framkvæmd nýrra útlendingalaga hvað varðar þjónustumissi þeirra, sem hlotið hafa endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd, að 30 dögum liðnum.“ Skáletrun blaðamanns. Flokksráðið ályktaði með öðrum orðum ekki að nokkuð væri athugavert við lögin, heldur aðeins við vinnubrögð við framkvæmd þeirra. Það er í samræmi við þá afstöðu sem félagsmálaráðherra tjáði í ræðu sinni á þinginu, að „broguð framkvæmd“ laganna væri á ábyrgð Ríkislögreglustjóra.

„Framkvæmdin má ekki verða til þess að fólk sé skilið eftir á götunni,“ segir svo í ályktuninni. Slíkt sé „grafalvarlegt og í hróplegu ósamræmi við það samfélag sem við viljum búa í.“ Þá er minnt á lögbundin réttindi barna, foreldra og umsjónarmanna þeirra, ættingja barna, barnshafandi kvenna, alvarlega veikra einstaklinga og fatlaðra. Grundvallarmannréttindi verði að tryggja. Loks segir: „Lokaðar flóttamannabúðir þar sem fólk er geymt þar til hægt er að senda það úr landi er ekki lausnin á þessari stöðu.“ Skáletrun blaðamanns.

Frelsið sem spurning um orðalag

Við fyrstu sýn gætu flokkarnir þannig virst á öndverðum meiði í málinu og ólíklegt að þar náist samkomulag. Þar sem formenn beggja flokka hafa hins vegar nýverið tjáð skýran vilja til að halda stjórnarsamstarfinu áfram, hvað sem á dynur, má ætla að þau hafi augun á einhvers konar glufu til að koma til móts við kjósendur beggja og kröfur flokksráða sinna. Því virðist ekki úr vegi að huga enn nánar að orðalagi ályktananna.

Búsetuúrræði með takmörkunum er rósamál dómsmálaráðherra yfir það sem hún sjálf hefur sagt að heiti detention center á ensku. Hugtakið detention center er betur þýtt sem varðhaldsbúðir. Ekki aðeins ráðherrann heldur bakland hennar, flokksráðið, vill að stofnsettar verði varðhaldsbúðir. Flokksráð Vinstri grænna setti sig aftur á móti ekki upp gegn varðhaldsbúðum yfirleitt heldur tilgreinir nánar að „lokaðar flóttamannabúðir“ séu ekki lausnin á málinu.

Dómsmálaráðherra hefur gefið til kynna að varðhaldsbúðirnar megi útfæra með ýmsum hætti. Hún hefur meðal annars vísað til útfærslu þar sem gætt væri að ferðum vistfólks með merkjasendingum frá armbandi og þess fyrirkomulags að íbúum búsetuúrræðis gæti verið gert að melda sig kvölds og morgna en væru frjáls ferða sinn, svo langt sem það nær, þess á milli. Það virðist vera sú leið sem farin hefur verið í Danmörku, en stjórnarflokkarnir virðast að nokkru leyti sækja fyrirmyndir sínar þangað. Í ályktun flokksráðs Sjálfstæðisflokksins er ennfremur vísað í þá átt: „Útlendingalöggjöfina þarf að þróa áfram af ábyrgð og raunsæi með löggjöf og framkvæmd annarra Norðurlanda sem fyrirmynd.“

Þannig virðist ekki óhugsandi að ráðherrar freisti þess í vetur að fá bæði sleppt og haldið: Flokkur frelsisins muni í samræmi við ályktun og lófaklapp flokksráðsins reisa sín „búsetuúrræði með takmörkunum“ – varðhaldsbúðir. Vinstri græn muni þó einnig fylgja ályktun síns flokksráðs, og veita andstöðu þeim útfærslum sem teljast myndu til „lokaðra flóttamannabúða“. Þau gætu þá fagnað varnarsigri þegar ráðherra kynnir áform um varðhaldsbúðir með armböndum eða geðprúðum dyraverði, búðir sem halda mætti fram að séu ekki að öllu leyti „lokaðar“. Af orðalagi ályktananna að dæma er þannig ekki víst að um málið verði neinn verulegur ágreiningur í ríkisstjórn.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí