Í BNA mæla sérfræðingar aftur með andlitsgrímum fyrir áhættuhópa

Í ljósi aukins fjölda Covid-smita um þessar mundir ætti Joe Biden Bandaríkjaforseti að ganga með grímu á opinberum vettvangi um þessar mundir. Þetta segir Dr. Jonathan Reiner, hjartalæknir við George Washington háskóla í Bandaríkjunum. „Mér er sama hvernig það lítur út,“ bætti hann við á X, áður Twitter, „að veikjast hefur verri afleiðingar“.

Hægrið barðist gegn grímunotkun

Framan af heimsfaraldrinum urðu í Bandaríkjunum átök um rétt viðbrögð við honum sem birtust ekki með sama hætti hér á Íslandi. Á tímabili bar þar mest á átökunum um grímuburð, sem fóru þar að nokkru leyti eftir flokkslínum: bandaríska vinstrið og Demókratar virtust upp til hópa hlynnt því að ganga með grímur í fjölmenni til að verja sig og aðra fyrir smiti, en hægrið og Repúblikanar, undir forystu Donalds Trump, voru mótfallin því, enda væri hver sjálfum sér næstur, allt væri þetta spurning um frelsi, og ekki hægt að neyða fólk til að gera eitt né neitt fyrir aðra. Svona í grófum dráttum.

Á Íslandi virðist ekki hafa verið sama svigrúm fyrir tvær ólíkar afstöður til viðfangsefnisins samtímis: nær allir héldu fjarlægðum og gengu með grímur þegar yfirvöld veittu tilmæli um slíkt, og nær allir hættu því þegar yfirvöld hættu að veita slík tilmæli. Þá virðist það álit víða hafa skotið rótum, til samræmis við hinn nýrri tíðaranda, að grímur séu gagnslausar. Svo er ekki, segja sérfræðingar, og benda á að þeim er mikið beitt af þeim sem til þekkja, til að mynda heilbrigðisstarfsfólki, þegar það vill forðast smit innan stofnana.

Áhættuhópar og fólk sem umgengst þá

Fréttir hafa borist af því að einhverjir fjölmennir vinnustaðir í Bandaríkjunum, til að mynda háskólar og kvikmyndaver, hafi nú tekið upp grímuskyldu á ný, í ljósi hækkandi tíðni sýkinga.

Réttar grímur gera mikið gagn til að verja fólk fyrir smiti, segja kunnugir, og geta enn reynst mikilvægar, til að mynda fólki í áhættuhópum. Fólk yfir áttræðu, eins og Biden, er í mestri áhættu af því að veikjast alvarlega í kjölfar Covid-sýkingar, sagði Reiner, hjartalæknirinn sem vísað er til að ofan, í viðtali við CNN. „Að minnsta kosti þar til tölurnar taka að síga á ný, þá væri við hæfi að forsetinn gerði einhverjar ráðstafanir og gengi með grímu í fjölmenni.“

„Ef þú annast manneskju sem er í hættu á alvarlegum afleiðingum í kjölfar sýkingar, þá held ég að þú ættir að nota grímu á almannafæri,“ sagði Reiner. „Og þar sem gagnlegustu grímurnar eru N95-grímur sem nú fást víðast hvar, þá eru það þess háttar grímur sem þú ættir að nota, bætti hann við.

Grímur sem eru merktar N95 vestanhafs samsvara þeim sem eru merktar FFP2 í Evrópu og hér á landi. Í Þýskalandi var til að mynda skylda að nota slíkar grímur í almenningssamgöngum lengi framan af faraldrinum. Merkingin felur í sér vottun um þéttleika og síun, sem varnar smitum umtalsvert betur en þær lausleikandi ljósbláu grímur sem flestir kynntust á fyrstu stigum faraldursins.

Leiðbeiningar sóttvarnalæknis

Smitum fer nú aftur fjölgandi á Íslandi eins og víðast hvar. Samkvæmt leiðbeiningum sóttvarnalæknis á Íslandi teljast nú meðal annars eftirtaldir til áhættuhópa vegna Covid-19: aldraðir, barnshafandi konur, fólk með fíknsjúkdóma, geðraskanir, hjartasjúkdóma, krabbamein, langvinna lifrarsjúkdóma, langvinna lungnasjúkdóma, langvinna vöðva- og taugasjúkdóma, offitu, ónæmisbælingu, gigtar- og sjálfsónæmissjúkdóma, líffæraþegar, fólk með meðfædda ónæmisgalla, skerta nýrnastarfsemi eða sykursýki, ásamt börnum með langvinna lungnasjúkdóma, alvarlega hjartasjúkdóma, eða langvinna taugasjúkdóma.

Í leiðbeiningum embættisins til áhættuhópa er einstaklingum „bent á að viðhafa smitvarnir sem felast í að viðhafa 1 metra nándarmörk og forðast fjölmenni eins og kostur er“. Um andlitsgrímur er sagt að þær eigi við „í ákveðnum kringumstæðum“ án þess að þær séu tilgreindar nánar. Ekki er þar fjallað um muninn á virkni ólíkra gerða af andlitsgrímum.

Árið 2022 létust um 400 manns af völdum Covid-19 á Íslandi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí