Ian McDonald fer fram á afsögn Seðlabankastjóra í grein sem Vísir birti í dag, fimmtudag. Hann segir að þær þrengingar sem almenningi, ekki síst aðfluttu verkafólki, eru skapaðar með endurteknum vaxtahækkunum bankans, muni að óbreyttu leiða til efnahagshruns, sem ekki megi verða.
Ef eitthvað ynni gegn mér, kæmist ég ekki af
Í greininni lýsir McDonald stöðu erlends verkafólks á Íslandi í ljósi fjórtándu vaxtahækkunar Seðlabankans í röð. „Peningastefnunefnd Seðlabankans,“ skrifar hann, „lítur nú svo á að við hæfi sé að hækka vext fjórtánda skiptið í röð, undir þeim formerkjum að ná tökum á verðbólgu með því að neyða fólk sem býr á Íslandi til að eyða minna og gera kostnaðinn við tilveru á landinu svo háan að nærri fer að hún verði ómöguleg.“
Tilefni greinarinnar virðist þó vera að Seðlabankastjóri hafi gengið lengra en svo í rökstuðningi sínum, og kennt verkafólki á lágum launum um aðgerðirnar, þau sem vörðu fjórum mánuðum síðastliðinn vetur „í að öðlast einhvers konar lífsgæði með því að semja um laun sem dugi til framfærslu“.
McDonald segist vera einn af þeim sem hafi verið hundruðum klukkustunda í lokuðu herbergi með fulltrúum SA, í þeim kjaraviðræðum. „Ég er líka láglaunamaður, innflytjandi og nýr íbúðareigandi,“ skrifar hann. „Allt það þýðir að síðustu mánuði hefur líf mitt orðið hratt og greinilega dýrara.“ Hann greinir frá því að afborgarnir af hinni nýkeyptu íbúð, sem hafi verið markaðssett sérstaklega fyrir unga kaupendur sem fyrsta íbúð, hafi hækkað um 70 þúsund krónur á mánuði. „Og gerið ykkur engar grillur, ég er einn af þeim heppnu,“ bætir hann við og segist vera í barnlausri sambúð með lítil útgjöld.
„Ef ég væri einn míns liðs á Íslandi, sem innflytjandi með ekkert stuðningsnet, kæmist ég ekki af. Ef ég hefði fjölskyldumeðlimi á minni framfærslu, kæmist ég ekki af. Ef ég hefði keypt íbúðina einn, kæmist ég ekki af. Ef eitthvað ynni gegn mér, kæmist ég ekki af.“
Seðlabankastjóri muni þurfa að skrúbba sín klósett
Þá beinir McDonald orðum sínum að Ásgeiri Jónssyni Seðlabankastjóra og segir:
„Vittu, að hér og nú lifa og starfa yfir 50 þúsund innflytjendur á Íslandi. Fólk sem vinnur störfin sem margir Íslendingar líta svo á að séu þeim ekki samboðin, störf sem eru lykilatriði til að íslenskt samfélag einfaldlega virki, dag fyrir dag.
Ef þú heldur áfram á þessari braut get ég fullvissað þig um að umtalsvert hlutfall þessa fólks mun taka að hugsa sig alvarlega um, hvort það að lifa og starfa á Íslandi sé boðlegt, fjárhagslega. Þau munu yfirgefa landið og láta Seðlabankastjóra eftir að laga sitt eigið kaffi og skrúbba sitt eigið klósett.
Við erum í mjög bókstaflegum skilningi límið sem heldur íslensku samfélagi saman.
Aðgerðir þínar nú eru til marks um meira en fávísi, barnaskap eða vanhæfni. Þú sýnir beinlínis illvilja í garð fólks sem berst í bökkum, þrammar þeim fram að fjallsbrún og kennir þeim um að vilja ekki taka síðasta skrefið.“
Því fer ég fram á að þú, Ásgeir Jónsson, segir af þér
Þá víkur McDonald máli sínu að forgangsröðun stjórnvalda.
„Þú kvartar yfir því að vandinn liggi í að Íslendingar verji of miklu fé í frídaga á Tenerife.
Hér og nú búa um 380 þúsund manns á Íslandi sem verja peningum í að lifa frá degi til dags. Ekki í dýr ferðalög, einfaldlega að lifa af.
Á þessu ári einu er því spáð að yfir tvær milljónir ferðamanna heimsæki Ísland, öll viljug og fær um að verja gríðarlegum fjárhæðum í dýran mat, gistingu, ferðir og munað.
Þú hefur ekki vikið einu orði að þessari neyslu sem áhrifavaldi á verðbólgu, þrátt fyrir þá milljarða króna sem varið er með þessum hætti ár hvert.
Ég tel að ástæðan fyrir þessu sé einföld. Seðlabankinn og íslensk stjórnvöld meta tekjustreymið frá ferðafólki meira en líf og velferð íslenskra ríkisborgara.
Þau myndu ekki dirfast að gera eða segja neitt sem gæti sett dæld í auð þeirra fáu íslensku fjölskyldna sem eiga og reka nánast allt sem hefur nokkurt verðmæti í landinu.“
Í ljósi þessa krest McDonald loks afsagnar Seðlabankastjóra:
„Því fer ég fram á (eins og allir ættu að gera, sem lesa þetta) að þú, Ásgeir Jónsson, segir þig frá stöðu þinni þegar í stað, og fallist á rannsókn á embættisstörfum þínum.
Ég trúi því fastlega að ef ekki verður komið böndum á hátterni þitt muni það leiða íslenska hagkerfið í heild til hruns, sem má ekki láta gerast aftur.“