Verðbólga síðustu tólf mánuði lækkar í 6,0% samkvæmt mælingu Hagstofunnar. Það merkir að 9,25% stýrivextir Seðlabankans bera nú 3,1% raunávöxtun sem er algjört met í veröldinni, víðast eru stýrivextir við eða undir núll ávöxtun miðað við verðbólgu.
Verðbólguhraðinn er aðeins meiri, það er verðbólgan í apríl er meiri en meðaltal síðustu tólf mánaða eða 6,8%. Raunvextir stýrivaxta eru eftir sem áður háir, eða 2,3%.
Og ef húsnæðisliðurinn er tekinn út úr vísitölunni, en hann er að lang mestu leyti mæling á hækkun eignaverðs en ekki neysluverðs, er verðbólguhraðinn 3,6%. Raunávöxtun stýrivaxta er því 5,5% sem er fáheyrt og út úr öllu korti miðað við það sem aðrar þjóðir búa við.
Yfirdráttarlán bankanna bera nú 17% vextir. Miðað við verðbólgu neysluverðs, það er án mælingar á hækkun eignarverðs, eru raunvextir af þessum lánum rétt tæplega 13%. Það er augljóst að ekkert heimili eða fyrirtæki stendur undir slíku, bankarnir eru í reynd að sjúga lífskraftinn úr fólki og fyrirtækjum.