Ítalska ríkisstjórnin setur 40% skatt á banka vegna mikils hagnaðar á tímum verðbólgu

Ítalska ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja 40% hvalrekaskatt á banka sem hafa hagnast mikið á tímum verðbólgu og hárra vaxta. Skatturinn er lagður á vaxtamun, sem hefur aukist mikið á Ítalíu á undanförnum misserum eins og víðast, til dæmis á Íslandi. Talið er að þessi skattur muni skila um 2-3 milljörðum í ríkiskassann eða um 290-435 milljörðum íslenska króna.

Ítalir fara þarna að dæmi Spánverja og Ungverja sem þegar hafa lagt hvalrekaskatt á banka til að afla fjár til að lina áföll lágtekjufólks vegna verðbólgu og hárra vaxta. Ítalska ríkisstjórnin ætlar að verja fénu á svipaðan máta, en ekki síst styðja íbúðakaupendur sem hafa mátt þola mikla hækkun greiðslubyrði að undanförnu.

Frá 2021 hefur vaxtamunur Arion hækkað úr 2,8% í 3,2%, Landsbanka úr 2,3% í 2,9% og Íslandsbanka úr 2,4% í 3,2%. Að meðaltali hefur vaxtamunurinn vaxið úr 2,5% í 3,1%. Árið 2022 voru hreinar vaxtatekjur Arionbanka 40,3 milljarðar króna, það er mismunurinn af vöxtum sem bankinn fékk og vöxtum sem bankinn greiddi. Hreinar vaxtatekjur Landsbankans voru 46,5 milljarðar króna og Íslandsbanka 43,1 milljarður króna. Samanlagt gera þetta rétt tæpa 130 milljarða króna. Þetta eru þær tekjur sem bankakerfið hefur af vaxtamuninum. Og miðað við aukinn vaxtamun, að meðaltali úr 2,5% í 3,1% má ætla að yfir 25 milljarðar króna af þessum 130 milljörðum króna séu tekjur sem rekja má til vaxandi vaxtamunar vegna verðbólgu.

Samkvæmt ráðagerðum ítalskra stjórnvalda verða tekin 40% af vaxtamuninum í eitt skipti, annað hvort miðað við rekstrarárið 2022 eða 2023 eftir því hvort árið vaxtamunurinn var hærri. Ef íslenska ríkisstjórnin færi að dæmi þeirrar ítölsku gæti hún sótt um 10 milljarða króna af auknum tekjum bankanna vegna vaxtamunar. Og notað féð til að bæta stöðu þeirra sem verst verða úti vegna verðbólgu og hærri vaxta.

Ungverjaland, Spánn og nú Ítalía hafa skattlagt þennan mun þegar hann vex úr hófi. Ekki er víst að bankaskattur á Íslandi yrði útfærður með þessum hætti. Íslenskir bankar borga til dæmis sérstakan skatt sem lagður er á heildareignir bankanna, 5,7 milljarðar króna í fyrra. En það er töluvert fyrir innan það sem ríkisstjórnir í þessum löndum eru að sækja til bankanna.

Við tilkynningu ríkisstjórnarinnar lækkaði gengi hlutabréfa í ítölskum banka lítillega, um og undir 10%. Fjármálapressan hefur gert mikið úr þessari lækkun, en hún er samt ekki meiri en svo að flestir bankanna eru nú hærra metnir en fyrir cóvid. Sú hækkun sem varð vegna aukins vaxtamunar hefur ekki gengið til baka.

Myndin er af Matteo Salvini innviðaráðherra faðma Giorgiu Meloni for­sæt­is­ráðherra í þinginu eftir að tilkynnt var um bankaskattinn.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí