Dagný Aradóttir Pind, lögfræðingur hjá BSRB, segir í grein á Vísi í dag að stjórnendur hjá Kópavogsbæ velti fjárhagsvanda bæjarins yfir á konur í lágtekjustörfum. Hún bendir á að Kópavogsbær sé að refsa fólki fjárhagslega og ýta undir foreldrasamviskubit þegar bæjaryfirvöld segja að börn hafi ekki gott af því að vera 8 tíma eða lengur á dag í leikskóla.
„Kvennastörf hafa verið og eru enn vanmetin og ljóst er að leiðrétta þarf það sögulega óréttlæti. Það er spurning um forgangsröðun hjá sveitarfélögum að leggja leikskólunum til nægilegt fjármagn til þess að greiða almennileg laun, tryggja að vinnuálag sé hæfilegt og vinnuaðstæður góðar. Leikskólar eru gríðarlega mikilvæg grunnþjónusta sem flest okkar nýta sér á einhverjum tíma. Leikskólar efla þroska og velferð barna og án leikskóla myndu hjól atvinnulífsins staðna. […] Það er því alvarlegt að Kópavogsbær skapi frekari pressu á konur til að vera í hlutastörfum og velti þannig mönnunarvanda bæjarins yfir á þær. Kópavogsbær er ekki einungis að refsa fólki fjárhagslega heldur ýtir bærinn undir foreldrasamviskubit með því að vísa til þess að börn hafi ekki gott af því að vera 8 tíma eða meira á dag á leikskóla.“
Þá segir Dagný að ekki sé sanngjarnt að sveitarfélagið geri þá kröfu að stytta dvalartíma barna á leikskólum á meðan stærsti hluti vinnumarkaðarins vinni 40 tíma á viku.
„Á meðan stærstur hluti vinnandi fólks vinnur í kringum 8 tíma vinnudag (40 stunda vinnuvika) er ekki sanngjarnt að sveitarfélög geri þá kröfu að börn verði styttra á leikskóla.“
Frétt af vef Samykis.
Dagný verður gestur Rauða borðsins í kvöld ásamt Önnu Mjöll Guðmundsdóttur, formann samtakanna Fyrstu fimm, og ræðir þar leikskólana.