Óli Björn vill markaðs- og einkavæða grunnskólana og auka þar með stéttaskiptingu

„Sam­keppni verður ekki inn­leidd í grunn­skól­ana án þess að gefa for­eldr­um val­frelsi þegar kem­ur að mennt­un barna. Val­frelsi sam­hliða jafn­rétti til náms verður ekki án þess að tryggja að fé fylgi hverj­um nem­anda. For­eldr­ar verða því ekki bundn­ir af því að senda barnið í hverf­is­skól­ann eða skóla sem „kerfið“ hef­ur ákveðið, held­ur þann skóla sem þeir telja að henti barn­inu best og upp­fyll­ir best kröf­ur um gæði,“ skrifar Óli Björn Kárason þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins í vikulega skoðanagrein sína í Mogga.

Óli Björn hampar þarna sömu menntastefnu og menntamálaráðherra Donald Trump, Betsy DeVos, sem vildi markaðsvæða með þessum hætti þann hluta skólakerfisins Bandaríkjanna sem enn er opinber, að gefa foreldrum ávísun fyrir menntakostnaði barna sinna sem þeir gætu síðan notað til að kaupa menntun. Menntakerfið yrði þá markaður þar sem skólar kepptu um athygli foreldra og reyndu að lokka til sín ávísanir þeirra.

„Skól­ar sem bjóða upp á góða mennt­un munu blómstra en þeir lök­ustu verða und­ir í sam­keppn­inni og leggja upp laup­ana. Við get­um kallað þetta vald­efl­ingu for­eldra og barna sem losna úr fjötr­um kerf­is sem hef­ur brugðist. Um leið verður raun­veru­leg sam­keppni um starfs­krafta kenn­ara og þeir munu njóta þess,“ skrifar Óli Björn. Því miður höf­um við oft­ar en ekki fallið í þá gryfju að ætla að leysa vanda­mál með því að ausa meiri fjár­mun­um úr sam­eig­in­leg­um sjóðum. Fémildi stjórn­mála­manna er mik­il þegar þeir neita að horf­ast í augu við að vandi, sem glímt er við, liggi ekki í fjár­skorti held­ur í kerf­inu sjálfu. Vand­inn er kerf­is­læg­ur.“

Svona ávísanakerfi er ekki óþekkt á Íslandi. Listnám, íþróttir og tómstundir barna voru markaðsvæddar með frístundakortinu. Þá var stuðningur færður frá opinberum stuðningi við íþróttafélög, tónlistar- og listaskóla og aðrir slíkar stofnanir yfir til foreldranna, ávísanir þeirra urðu mótandi afl við uppbyggingu kerfisins. Reynslan sýnir að kerfið ýtir undir stéttaskiptingu. Frístundakortin eru t.d. minnst notuð í Breiðholti í Reykjavík þar sem hlutfallslega flestra fátækar fjölskyldur búa og flestir innflytjendur. Styrkurinn dugar ekki til að tryggja hinum efnameiri þjónustu. Skólarnir, félögin og tómstunda-fyrirtækin eru reknar sem markaðsfyrirtæki en ekki félagslegar stofnanir sem gæta að lýðræði og jöfnuði, koma til móts við hin efnaminni.

Sambærileg reynsla er af ávísanakerfi nuí Svíþjóð. Þar eru rík­is­reknir grunn­skólar í sam­keppni við einka­vædda skóla um nem­endur og fjár­magn. Kenningin var að fólk hefði val um í hvaða rík­is­rekna skóla barnið færi í og hvort að rík­is­rek­inn eða einka­rek­inn skóli yrði fyrir val­inu. Eins og liggur í eðli svona kerfa fór hægt og rólega að bera á auk­inni stétta­skipt­ingu innan sænska skóla­kerf­is­ins þar sem til urðu „betri skól­ar“ sem jafn­framt voru í „betri hverf­um“. Þar voru bæði umsóknir og nem­endur fleiri sem leiddi til auk­ins fjármagns sem fylgdi vali foreldra. Sem þýddi um leið að „verri skól­arn­ir“, þar sem nem­endur eru oft í miklum meiri­hluta inn­flytj­end­ur, fengu minna rík­is­fjár­magn þar sem aðsókn var minn­i.

Nú þegar hægrið á Íslandi hefur áhyggjur af innflytjendamálum, ætti það kannski að skoða þátt nýfrjálshyggjunnar í breytingum skólakerfisins, sem í reynd gróf undan styrk hinna fátækari hverfa.

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á breytingum menntakerfisins í Svíþjóð og allar bera að sama brunni. Þessi breyting er skaðræði, magnar upp stéttskiptingu í samfélaginu og grefur þar með undan lýðræði. Betur settu börnin einangrast í sínum skólum og verða vanhæf til lífs og starfs í fjölbreytulegu samfélagi. Kerfið magnar upp ójöfnuð með því að draga niður menntun hinna verr settu. Aukin ójöfnuður dregur niður traust í samfélaginu. Eins og aðrar delluhugmyndir nýfrjálshyggjunnar virkar þessi sem eitur, leysir upp allt sem einhvers virði er í samfélaginu en magnar upp frumskógarlögmálið, yfirráð og völd hinna ríku.

Þróunin í Svíþjóð er sú að fáein risafyrirtæki vaxa upp innan þessa kerfis, stórfyrirtæki sem reka skóla um alla Svíþjóð. Í stað stórar stofnunar ríkisvaldsins koma stórfyrirtæki auðhringja, sem greiða eigendum sínum mikinn arð sem sóttur er til ríkissjóðs og þar með skattfjár almennings.

Það er vaxandi krafa um þetta, aðgengi auðvaldsins að ríkissjóði, hjá auðvaldinu á Vesturlöndum. Þar hefur svokallaður rentu-kapítalisminn orðið yfirráðandi eftir að stór hluti framleiðslunnar hefur verið fluttur til Asíu eða landa þar sem laun eru lág. Og hluti þjónustunnar líka. Eftir situr auðvald sem sækir í einskonar áskriftartekjur af almenningi í gegnum vexti fjármálakerfisins, iðgjalda í tryggingarfélögum eða álagningar á fákeppnismörkuðum, þar sem busnessinn gengur í reynd út á að blóðmjólka almenning en ekki að stunda samkeppni, eins og goðsögn auðvaldssinna heldur fram. Þetta auðvald skapar ekkert, þótt það vilji benda á Kerecis sem dæmi um sköpunarkraft sinn. Rentu-kapítalisminn skapar ekkert heldur nær yfirráðum yfir tilteknum geirum og notar þau til að sjúga upp fé frá almenningi.

Með minni framleiðslu sækir auðvaldið á Vesturlöndum inn í opinbera þjónustu af þessum sökum. Það kann ekki né getur búið neitt til, finnst það of mikið vesen. Það notar því stjórnmálin, sem það hefur beygt undir sig, til að komast yfir opinbera þjónustu þar sem heilbrigðis- og menntakerfinu eru stærst. Og í grein sinni í Mogganum fer Óli Björn með þetta erindi og boðskap rentu-kapítalismans.

„Marg­ir, ekki síst vinstri­menn, hafa ekki náð að yf­ir­vinna að því er virðist inn­byggðan fjand­skap gagn­vart sjálf­stætt starf­andi skól­um og val­frelsi for­eldra og nem­enda,“ skrifar Óli Björn. „Kannski vegna þess að þeir eiga erfitt með að gera grein­ar­mun á því hver greiðir fyr­ir þjón­ust­una (hið op­in­bera) og hver veit­ir hana (jafnt einkaaðilar sem op­in­ber­ir). Af­leiðing­in er hverf­andi sam­keppni og fá­breytt­ari val­kost­ir. Kostnaðinn bera nem­end­ur, kenn­ar­ar og að lok­um sam­fé­lagið allt.“

Þarna hafnar Óli Björn öllum rannsóknum sem sýna afleiðingar stefnunnar sem hann boðar. Það er í anda nýfrjálshyggjunnar, sem vill halda því fram að lítið sé að marka vísindi og þekkingu háskólanna, að þar séu niðurstöður mótaðar af skoðunum prófessora og rannsakenda. Í stað þess að taka mið af þekkingu háskólanna flagga hægrimenn því niðurstöðum hugveita sem ríkasta fólkið rekur til að reka sitt stéttastríð. Og til hugveita hinna ríku er hægt að sækja allskonar skýrslur sem segja að markaðsvæðing skóla sé bæði snjöll og hagkvæm fyrir almenning. En það kemst enginn rannsakandi að þeirri niðurstöðu nema að fá borgað fyrir það.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí