Pedro Briones skotinn til bana í Ekvador, þriðji stjórnmálamaðurinn á innan við mánuði

Pedro Briones, einn forystumanna vinstrihreyfingar í Ekvador, var skotinn til bana í gær, mánudag. Á fjórum vikum hafa þarmeð þrír stjórnmálaleiðtogar verið ráðnir af dögum í Ekvador, í bylgju árása sem á sér ekki fordæmi í landinu.

Pedro Briones starfaði innan vinstriflokksins Borgarabyltingin (Movimiento Revolución Ciudadana), flokks um lýðræðislegan sósíalisma, sem var stofnaður árið 2018. Hann var skotinn tveimur skotum. Samkvæmt lögreglu var árásin framin af meðlimum glæpagengis.

Forsetaframbjóðandinn Luisa González býður sig fram á vegum sama flokks. Í færslu sem hún skrifaði á samfélagsmiðla fordæmdi hún árásina: „Ekvador gengur gegnum sína blóðugustu daga,“ skrifaði hún. „Orsökin er að vanhæf stjórnvöld hafa yfirgefið okkur og ríkið verið tekið yfir af mafíum. Í samstöðu faðma ég fjölskyldu félaga Pedro Briones, sem féll fyrir hendi ofbeldisins. Það liggur á breytingum.“

Nú er vika til forsetakosninga í landinu, og aðeins rétt vika er síðan forsetaframbjóðandinn Fernando Villavicencio var skotinn til bana, í árás á framboðsfundi. Villavicencio var 59 ára gamall, áður rannsóknarblaðamaður, virkur í mannréttindabaráttu og framarlega í baráttu gegn spillingu í landinu.

Þann 26. júlí var Agustín Intriago, borgarstjóri Manta, þriðju stærstu borgar Ekvadors, einnig skotinn til bana. Intriago var 38 ára gamall og hafði nýlega náð endurkjöri, fyrir kjörtímabil sem hófst í maí.

Í umfjöllun The Guardian kemur fram að þúsundir manns hafi verið drepin í Ekvador á undanliðnum þremur árum, um leið og landinu hefur verið umbreytt í skiptistöð smygl- og mansalshringja.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí