Morgunblaðið ræðir í dag, mánudag, við Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra um myglu í íslenskum húsakosti. Í viðtalinu er haft eftir Sigurði Inga að nauðsynlegt sé „að ráðast í frekari rannsóknir á rakavandamálum og myglu í byggingum hér á landi“. Hann segir skipta máli að taka fyrir ný byggingarefni sem berast til landsins og rannsaka út frá aðstæðum hér. „Þó að þau hljóti CE-merkingu í Evrópu,“ segir hann, „er ekki víst að þau séu fullkomin á Íslandi. Við þyrftum að hafa prófunarstöð.“
Og það er þetta sem vakti athygli Andrésar Jónssonar, þingmans Pírata, sem vísar á viðtalið í færslu á Facebook og segir það kostulegt. Ráðherra vandi sig mjög „við að segja ekki það augljósa: að mikilvægt sé að endurreisa Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins. Segir í staðinn: Við þyrftum að eiga prófunarstöð fyrir innflutt byggingarefni.“
Það var víða gagnrýnt þegar stjórnvöld ákváðu að leggja niður Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins, árið 2021. Þá hafði RÚV það meðal ananrs eftir Sylgju Dögg Sigurjónsdóttur, sérfræðingi í rakaskemmdum að ný efni, aðferðir og útfærslur „flæði nú inn í landið. Mikilvægt sé að óháð fagfólk kanni efni og aðferðir við íslenskar aðstæður. Áskorun næstu ára felist meðal annars í að verið sé að byggja með nýjum efnum sem við vitum ekki endilega hvernig þoli íslenskar aðstæður.“ Hún sagði ófært að leggja niður rannsóknarstofuna.
„Sennilega væri of vandræðalegt,“ skrifar Andrés Ingi nú, „að viðurkenna að ríkisstjórnin gerði stór mistök með því að leggja Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins niður, aðeins tveimur árum eftir að það var gert. En það væri kannski eðlilegt að viðurkenna þau mistök í ljósi þess að sérfræðingarnir sem töluðu gegn ákvörðun ríkisstjórnarinnar bentu á að nákvæmlega sú staða sem Sigurður Ingi ræðir í viðtalinu myndi verða vandamál.“