Í dag, þann 1. agúst 2023, eru þrettán ár liðin síðan alþjóðasamningur um bann við klasasprengjum tók gildi. Ísland var á meðal þeirra ríkja sem undirrituðu samninginn strax í upphafi, árið 2008. Samningurinn felur í sér bann við notkun klasasprengja, framleiðslu þeirra, vörslu þeirra og flutningi. Hann tók gildi árið 2010 en var lögfestur á Íslandi árið 2015.
Yfir hundrað ríki eiga aðild að samningnum. Á meðal þeirra ríkja sem ekki hafa undirritað hann eru Bandaríkin, Rússland og Úkraína.
Danska dagblaðið Information birtir í dag grein sem Tue Magnussen ritar í tilefni þrettán ára afmælisins. Þar bendir höfundurinn á að 21. grein samningsins krefji aðildarríki hans um að hvetja þau ríki sem ekki eiga aðild að samningnum til að gerast aðilar að honum og leggja sig fram um að ráða þeim frá því að nota klasasprengjur. Danmörku beri því ekki aðeins siðferðileg skylda heldur lagaleg til að ráða Bandaríkjunum frá því að veita Úkraínu slík vopn.
Um þessa skyldu voru íslensk stjórnvöld meðvituð við undirritun samningsins vorið 2008, en í annars knappri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um samninginn var 21. greinar hans sérstaklega getið: „Orðalagi 21. gr. um samskipti samningsríkja og ríkja sem eru ekki aðilar að samningnum var sérstaklega ætlað að leysa sérstök vandkvæði viðvíkjandi beitingu samningsins í tilvikum þar sem samningsríki tekur þátt í hernaðarsamvinnu við ríki sem er ekki aðili að samningnum“.
Þegar mbl.is innti Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra eftir viðbrögðum, snemma í júlí, við áformum bandarískra stjórnvalda um að senda Úkraínu klasasprengjur til átaka við innrásarher Rússa, svaraði ráðherrann með tilvísun í framannefnd lög og sagði þau banna flutning vopnanna um íslenska lofthelgi. Ráðherrann bætti því við að persónulega ætti hún þó erfitt með að setja sig í dómarasæti yfir því til hvaða ráða úkraínsk stjórnvöld telja sig þurfa að grípa gegn innrás Rússa.