Maður leitaði á síðasta ári árangurslaust bæði til Félagsmálaráðuneytisins og Innviðaráðuneytisins eftir áralangar tafir á því að sveitarfélag úthlutaði honum félagslegu húsnæði. Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem tilheyrir Félagsmálaráðuneytinu, hafði þá tvívegis komist að þeirri niðurstöðu að mál mannsins hefði ekki verið afgreitt í samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga.
Málefni sveitarstjórna heyra aftur undir Innviðaráðuneytið. Félagsmálaráðherra er úr flokki Vinstri grænna en Innviðaráðherra úr Framsóknarflokki. Og þar, á milli flokka, virðist mál mannsins hafa strandað: Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar hafði engar afleiðingar í för með sér, leiddi ekki til lausnar á þeim húsnæðisvanda sem maðurinn stóð enn frammi fyrir, vegna þess að „lítið sem ekkert samráð“ var á milli ráðuneytanna tveggja um hvort og þá hvernig ætti að knýja sveitarfélagið til að virða réttindi mannsins. Hreyfing komst loks á málið þegar maðurinn leitaði til Umboðsmanns Alþingis sem hafði afskipti. Var manninum þá úthlutað húsnæði, tafarlaust.
Þetta kemur fram í inngangi Umboðsmanns Alþingis að ársskýrslu embættisins fyrir árið 2022, sem birtist í liðinni viku. Söguna nefnir umboðsmaður til dæmis um afleiðingar þess að ráðuneyti hafi ekki samráð og samvinnu sín á milli „þegar málefni lúta að verkefnum tveggja eða fleiri.“
Viðkvæmir hópar verða fyrir barðinu á samráðsleysi stjórnvalda
Umboðsmaður nefnir fleiri dæmi, meðal annars um kæru foreldra nemenda í einkareknum grunnskóla vegna fyrirkomulags skólamáltíða. Foreldrarnir leituðu til Innviðaráðuneytisins, en undir það heyra „Það vakti athygli umboðsmanns að ráðuneytið hafði hvorki óskað álits ráðuneytis menntamála á því hvort málið kynni að heyra undir það né þá hver afstaða þess ráðuneytis væri til álitaefnisins, jafnvel þótt ljóst mætti vera að það tengdist a.m.k. málefnasviði þess.“
Enn alvarlegri spurningar um réttindavörslu virðast birtast í málum sem varða bæði yfirvöld heilbrigðismála og dómsmála. Umboðsmaður nefnir tilfelli „þegar fangelsisyfirvöld eða lögregla meta það svo að fangi eða handtekinn maður þurfi að leggjast inn á geðdeild eða þegar heilbrigðisstofnun telur sig þurfa aðstoð lögreglu vegna sjúklings. Leiti þessar stofnanir til sinna ráðuneyta um lausnir með það fyrir augum að leitað sé leiða í samvinnu við annað ráðuneyti virðist sem um nokkurs konar innbyggða tregðu sé að ræða innan kerfisins við úrlausn mála.“ Dag frá degi virðast ráðuneyti Framsóknarflokks samkvæmt þessu ekki eiga nánara samstarf við ráðuneyti Sjálfstæðisflokksins en við ráðuneyti Vinstri grænna.
Ríkisstjórn er ætlað að starfa sem samræmd heild
Umboðsmaður segir að í fyrri skýrslum hafi þegar verið vakin athygli á nauðsyn þess að ráðuneyti hafi samráð og samvinnu sín á milli þegar málefni lúta að verkefnum tvegja eða fleiri. „Ekki fer á milli mála,“ skrifar hann, „að þessi óskráða regla liggur til grundvallar ákvæðum stjórnarskrárinnar um störf ríkisstjórnar (ráðherrafundar) auk þess sem hún kemur beinlínis fram í lögum um Stjórnarráð Íslands.“ Ekki fari á milli mála „að ríkisstjórn og Stjórnarráði íslands er ætlað að starfa sem ein samræmd heild undir umsjón forsætisráðherra og það sama má raunar segja um stjórnkerfið allt að sveitarfélögum meðtöldum. Sú staðreynd að á Íslandi eru samsteypustjórnir ráðandi þar sem oddvitar fleiri en eins stjórnmálaflokks fara með ráðherraembætti getur ekki réttlætt að ráðuneyti innan Stjórnarráðsins starfi hvert í sínu horni án viðhlítandi samstarfs hvert við annað, hvort heldur sem er að framkvæmd laga, undirbúningi reglusetningar eða við aðrar aðgerðir.“