„Þetta er auðvitað ekki boðlegt. Þetta er einhver kommúnismi, sósíalismi sem er verið að leggja til, að allir fjármunir sem verða til í samfélaginu séu í raun eign ríkisins og skuli endurúthlutað héðan úr þessum sal. Þetta er ekki góð leið til að auka hagsæld og stækka heildarskattspor neinnar atvinnugreinar og alls ekki greinar eins og sjávarútvegurinn er, sem kallar á eins mikinn fyrirsjáanleika og þar er nauðsynlegur til að geta nýtt stöðu á þessum betur borgandi mörkuðum og hámarka með því þann arð sem næst út úr hverjum fiski,“ sagði Bergþór Ólason Miðflokki á Alþingi um liðmna helgi.
„Þetta er allt eitthvert „skuespil“, þetta er allt eitthvert leikrit. Það sem vekur mér helst áhyggjur núna er að miðað við allar þær umsagnir sem fram hafa komið, öll þau sjónarmið gesta sem fram hafa komið fyrir atvinnuveganefnd, þá fundi sem haldnir hafa verið, m.a. fund Samfylkingarinnar sjálfrar á Ísafirði í fyrradag — öll þessi rök, allar þær áhyggjur sem settar eru fram, virðast hrökkva af stjórnarliðum eins og vatn af gæs. Það virðist vera næstum því alveg sama hvað sagt er hvað varnaðarorð varðar, það nær ekki í gegn. Ég er hugsi yfir því hvers vegna svo sé í máli sem er jafn seint fram komið og raunin og unnið í jafn miklu offorsi og raunin er og í raun jafn brogað og þróun sýnir okkur hvað talnalegan grundvöll varðar,“ sagði Bergþór og bætti svo við:
„Eitthvað er það. Einhver samningur er þarna stjórnarliða á milli. En það er auðvitað ekki boðlegt að slíkur samningur, slíkt samkomulag — og það er í öllu falli ekki bakkað upp af þeim hagaðilum að meginhluta til sem sent hafa inn umsagnir vegna málsins og komu fyrir nefndina. Endalaust er vísað í þessa furðukönnun Þjóðareignar, sem er apparat sem fjárhaldsmaður Samfylkingarinnar heldur utan um, ef ég skil það rétt. Ég ætla reyndar að koma inn á það í næstu ræðu minni, þ.e. afstöðu almennings til þessa í raun.“