Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir að stefna stjórnvalda sé beinlínis hönnuð til þess að gera hjálpa ríku fólki á kostnað almennings. „Það er nefnilega ekkert svo flókið að vera ríkur á Íslandi. Seðlabankinn og stjórnvöld sjá til þess,“ skrifar Grímur á Facebook og heldur áfram:
„Á meðan býr almenningur við þetta:
Þriggja herbergja íbúð í Þingholtunum fer á 400.000 kr. í dag á leigumarkaðnum og tveggja herbergja kjallari í Vesturbænum er í kringum 300.000 kr.
50 m.kr. eign er síðan það ódýrasta sem fólk finnur á húsnæðismarkaðnum í dag en það sleppa fáir í gegnum greiðslumatið. Slysist fólk hins vegar í gegn og á 10 m.kr. fyrir útborgun þá byrjar það með 180.000 kr. greiðslubyrði á mánuði af 40 m.kr. verðtryggða láninu sem það tók (30 ára lán). Eftir 20 ár þá stendur lánið í 90 m.kr. og lánþeginn hefur þegar borgað u.þ.b. 170 m.kr. í afborganir.“
Grímur segir að í ljósi þessa þá sé augljóst að endalausar vaxtahækkanir bitni mest á þeim sem minnst mega sín. „50 punkta hækkunin bitnar þannig eins og allir vaxtaákvörðunadagar Seðlabankans á þeim sem minnst eiga,“ segir Grímur og bætir við að lokum:
„Ps. Stýrivextir eru nú 131% hærri hér en í Noregi, 208% hærri en í Albaníu, 429% hærri en í Sviss og 176% hærri en í Danmörku. En við skulum alls ekki tala um krónuna.“