Birtingarmynd hinnar rasísku útlendingastefnu ríkisins

Það ríkti neyðarástand við húsnæði Útlendingastofnunar í Flatahrauni í dag. Flóttafólk hefur dvalið þar undanfarið eftir að það fékk endanlega synjun á umsóknum sínum um vernd á Íslandi. Blessing Newton frá Nígeríu ásamt þeim Esther og Mary, var gert að yfirgefa húsa­kynni stofnunarinnar. Þær hafa verið sviptar réttindum eftir að hafa fengið endan­lega synjun um al­þjóð­lega vernd. Í samtali við Vísi segir Blessing að hún hafi talið starfsfólkið vera að grínast þegar þeim var sagt að klukkan 11 yrðu þær á götunni. Samkvæmt nýju lögunum. Hún segir yfirvöld neyða sig aftur í vændi. Önnur flóttakona segist einnig vera ráðalaus. Mál þeirra vekja spurningar um nýju útlendingalögin.

„Þeir sögðu okkur að klukkan 11 yrðum við á götunni. Við héldum að þeir væru kannski að grínast,“ segir Blessing í sam­tali við frétta­stofu.

Flóttafólkið hefur fengið endanlega synjun um alþjóðlega vernd á Íslandi og hefur samkvæmt nýjum útlendingalögum verið tilkynnt um lok á þjónustu. Samkvæmt nýju lögunum missir fólk öll sín réttindi 30 dögum eftir að það fær endanlega synjun nema ef um er að ræða börn og fjölskyldur þeirra.

Konurnar eru allar fórnarlömb mansals og vændis en Blessing sem hefur dvalið hér á landi til margra ára fékk engu að síður synjun um vernd.

Á Facebook síðu samtakanna No border stendur: „Í dag höfum við orðið vitni að því ógeðslegasta ofbeldi íslenska ríkisins í garð varnarlauss fólks í viðkvæmri stöðu sem hægt er að ímynda sér. Á þessu bera stjórnvöld fulla ábyrgð, ráðherrar og hver einasti þingmaður sem greiddu frumvarpi um breytingar á útlendingalögum atkvæði sitt. Skömm þeirra er alger. Þetta er birtingarmynd hinnar rasísku útlendingastefnu íslenska ríkisins. Viðbjóðsleg mannréttindabrot.”

Í Flatahrauninu í dag var Sema Erla Serdrar frá hjálparsamtökunum Solaris einnig mætt til aðstoða konurnar en þær voru sóttar af sjúkrabíl í gríðarlegu uppnámi.

Í Flatahrauni dvelur hópur fólks um þessar mundir sem hefur verið hér á landi allt upp í fimm ár en konurnar greindu frá því í dag að þær hafi búið í herbergi þrjár með allt upp í tuttugu karlmönnum. Þær hafa ekki náð tali af lögmanni.

Dómsmálaráðherra Guðrún Hafsteinsdóttir segist í viðtali við RUV enga vankanta sjá á nýju útlendingalögunum. Það sé alveg skýrt að fólki sem hefur fengið synjun eftir efnislega meðferð á málum sínum beri að fara úr landi. Málin vandist þegar engir samningar séu við móttökuríki og fólki skorti ferðaskilríki.

„Þetta er auðvitað mjög viðkvæmur hópur og eitthvað sem við erum að skoða í ráðuneytinu. En það er alveg ljóst að þar sem ekki eru framsalssamningar eða samningar við ákveðin ríki að við getum ekki sent fólk til heimaríkisins, það er vandamál. Og einnig þar sem er skortur á skilríkjum, ferðaskilríkjum, og þetta er sem betur fer ekki svo stór hópur enn sem komið er. En þetta er eitthvað sem verður að finna lausn á.“

Þá segir hún fólk verða að sýna samstarfsvilja. Þá fái það þá þjónustu sem það þarf hjá ríkislögreglustjóra, til að mynda húsnæði og fæði. Nýju útlendingalögin sem samþykkt voru í vor felli þá þjónustu niður fari fólk ekki eftir tilmælum.

Guðrún segir enn fremur í viðtali RUV ekki telja að gallar á nýju útlendingalögunum séu komnir í ljós. Þau séu að raungerast núna og stjórnvöld séu rétt byrjuð að vinna eftir þeim.

„Auðvitað getur komið eitthvað upp, einhverjir vankantar sem við munum þá bara horfa til og sníða til, en ég tel svo ekki vera.“

Útlendingastofnun lætur ekki ná í sig í síma fyrir frekari fyrirspurnir en Samstöðin hefur heimildir fyrir því að svipað sé ástatt fyrir hópi fólks sem sér sér ekki fært annað en að vera í felum þar til lausn fæst í þeirra málum. Þetta er gjarna fólk sem enn bíður svars um vernd en hefur þó misst alla þjónustu er upp á náð og miskunn borgaranna komið þar sem það hefur enga leið til að vinna fyrir sér.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí