„Æ oftar og víðar vakna umræður um afleiðingar troðningtúrisma. Á sama tíma er bent á gríðarlegt efnahagslegt mikilvægi ferðaþjónustu. Borgir, svæði og lönd eiga mikið undir því að fá til sín ferðafólk. Jafnvægi virðist vandfundið,“ skrifar Óðinn Jónsson í fréttaskýringu á vef Túrista.
Í greininni fjallar Óðinn um árekstrar sífellt vaxandi ferðamannaiðnaðar við samféögin sem verða fyrir ferðamannabylgjunum, nokkuð sem Íslendingar verða æ meira varir við. Óðinn skrifar sína grein út frá Saint-Malo á Bretagne-skaganum í Frakklandi en sambærilegan vanda má finna víða. Grikkir eru til dæmis að bugast undan ferðaiðnaðinum, en til Grikklands koma nú 80% fleiri ferðamenn en var 2019.
„Flestir vilja ferðast en fæstir vilja að margmenni verði á vegi þeirra,“ skrifar Óðinn. „Þegar fólk er á heimaslóðum amast það gjarnan við því hversu margir útlendir ferðamenn fylla götur og torg. En þegar sama fólk ferðast til annars lands leiðir það ekki endilega hugann að þeim möguleika að með návist sinni sé það að þjarma að íbúum þar. Fólk vill ferðast en lítur ekki á sig sem dæmigerða túrista.“
Og Óðinn heldur áfram: „Auðvitað er það mismunandi hvar sársaukamörkin liggja, ef svo má segja. Íbúar á Suður-Spáni eða Kanaríeyjum hafa fyrir löngu vanist ferðafólki og átta sig á efnahagslegu mikilvægi túrismans. Auðvitað þarf það ekki að þýða að allir séu sáttir við þungan strauminn af sumarleyfisklæddu fólkinu frá morgni og fram á nætur. Feneyingar átta sig vel á mikilvægi rótgróinnar ferðaþjónustu í borginni en stynja samt undan álaginu og skemmdunum: Þurfa svona margir að koma? Skemmtiferðaskipin sem lögðust að fyrir framan Markúsartorgið ofbuðu venjulegu fólki, sem mótmælti og hrakti skipin í burtu. Íbúum í miðbæ Reykjavíkur þykir mörgum nóg um ferðamannafjöldann en aðrir fagna túristunum og benda á uppbyggingu veitingaþjónustu sem fylgt hefur, líf hafi færst í bæinn. En reynslan sýnir að mikill ferðamannafjöldi hrekur smám saman íbúa á brott. Fólk vill ekki búa á afþreyingarslóðum ferðafólks. Fólk vill ekki búa í Disneylandi.
Nú í sumar var dreginn upp borði fyrir ofan Porte Saint-Vincent, hliðið að virkisborg Saint-Malo á Bretagne. Þar fyrir innan er gamli virkisbærinn. Á þennan borða var skrifað stórum stöfum:
STÖÐVIÐ TROÐNINGSTÚRISMA. SAINT-MALO ER EKKI DISNEY MALO.
Um Porte Saint-Vincent halda flestir gangandi vegfarendur inn í virkisborgina og vakti borðinn þess vegna mikla athygli – en þó ekki kátínu hjá þeim fjölmörgu sem eiga lífsviðurværi sitt undir gestakomum. Að tæpri klukkustund liðinni var borðinn rifinn niður en skilaboðin um að stöðva troðningstúrisma vöktu heitar umræður meðal heimafólks.
Fræjum misklíðar var sáð.
Auðvitað hafði fólk náð að taka myndir af borðanum og deila þeim á samfélagsmiðlum. Skilaboðin flugu áfram – löngu eftir að borðinn var horfinn ofan í ruslatunnu. Einn sagði sem svo: „Fólk er aldrei ánægt.“ En þegar margir höfðu tekið undir gagnrýni á troðningturismann sagði ein heimakonan: „Við þörfnumst ferðafólks til að halda lífi í viðskiptunum.“
Samkvæmt frásögn héraðsblaðsins Le Pays Malouin, dugði þessi gjörningur með borðann yfir Porte Saint-Vincent til þess að fjörugar umræður sköpuðust á götum Saint-Malo. Mörgum þótti borðinn grunsamlegur, eins og árás úr launsátri. Ekki kom fram hver bar ábyrgð á honum. Engum tilgreindum kröfum var lýst. Þess var einfaldlega krafist að komið yrði í veg fyrir að margt ferðafólk kæmi til Saint-Malo.
Mótmælaborðinn dró þannig fram þá dapurlegu staðreynd að fólk þorir ekki af ótta við fordæmingu að mótmæla því sem skapar atvinnu – er efnahagslega mikilvægt. Um 12 prósent íbúa Saint-Malo starfa við ferðaþjónustu. Le Pays Malouin hefur eftir verslunareiganda, sem vill ekki láta nafn síns getið: „Gamlingar kvarta og vilja koma í veg fyrir að unga fólkið njóti alls þess góða sem það sjálft naut einu sinni.“ Hótelstjórnandi sagði að íbúar Saint-Malo geti ekki barmað sér en auðvitað megi ræða spurninguna um troðningstúrisma. Þriðji viðmælandi blaðsins brá fyrir sig frönsku orðatiltæki: „Le cul entre deux chaises“ – eða „Rassinn lendir á milli tveggja stóla.“ Á aðra hönd væru troðningurinn, erfiðleikar við leggja bílum og komast leiðar sinnar, en á hina höndina væri sjálft lifibrauðið. Ferðaþjónustan tryggði afkomu fólks.
Meðalhófið er vandratað.
Þegar líður á morguninn fyllast götur virkisborgarinnar af stuttbuxnaklæddum erlendum gestum með bakpoka. Frökkum sem komnir eru til að njóta strandbæjarins leiðist þetta, vildu gjarnan eiga bæinn fyrir sig.
Og straumurinn þyngist með hverju árinu. Íbúðir tæmast af heimafólki og þær eru leigðar erlendum ferðamönnum. Gripið var til þess ráðs að takmarka þann fjölda Airbnb-íbúða sem mættu vera inni í virkisborginni, gamla miðbæ Saint-Malo, en það dugar skammt. Mörg hótel eru utan múranna og fjölmargar leiguíbúðir – og allir vilja skoða virkisborgina og fara niður á strendurnar í kring. Ýmsir óttast hreinlega að venjulegt fólk nenni ekki að búa þarna.
Á meðan heimafólkið stynur þá fagna gestirnir í Saint-Malo því að þar skuli ekki vera eins mikil mannþröng og í strandbæjum við Miðjarðarhafið. Fólk getur notið strandlífsins án truflana frá sölumönnum. Veitingaþjónusta er á afmörkuðum stöðum. Fólk fær að vera í friði. Flestir gestkomandi átta sig þó fljótlega á að varla sé búandi inni í virkisborginni og hlusta þar daga og nætur á aðkomufólk ganga upp og niður steinlagðar göturnar, margir með háværar ferðatöskur á hjólum í eftirdragi.
Áætlað var að sumarið 2019 hafi ein milljón gesta komið til Saint-Malo. Hafa verður þá í huga að íbúar með fasta búsetu innan virkisveggjanna eru innan við eitt þúsund. Líf þeirra er undirlagt af háværum túrisma. Skilaboðin á borðanum sem strengdur var yfir Porte Saint-Vincent kveikti í þessu fólki. Raunar er ekki ólíklegt að einhver íbúanna sem misst hefur þolinmæðina hafi læðst út um nótt og dregið upp borðann – en látið sig síðan hljóðlaust hverfa aftur heim og lokað vel á eftir sér dyrunum.
Skilaboðið bárust út á meðal fólks og hreyfðu við því. Sjálfur ráðherra ferðamála hafði fyrr um sumarið lýst áhyggjum af troðningstúrima og þannig ýtt undir umræðuna. Íbúar Saint-Malo eru að melta skilaboðin en verslana- og veitingahúsaeigendur fagna straumi ferðafólks – og mávarnir líka“, endar Óðinn greinina í Túrista, sem er áskriftarvefur um ferðamál.