Það er af sem áður var þegar kemur að afstöðu VG til friðar og afvopnunarmála en Katrín Jakobsdóttir hefur verið áberandi í afstöðu sinn og þátttöku í málum hernaðarbandalagsins NATÓ. Hver heræfingin af annarri á sér einnig stað á Íslandi í dag en bandalagið og aðildarríki þess taka beinan og óbeinan þátt í hernaðarbrölti Úkraínumanna gegn innrásarliði Rússa.
Andrés Ingi Jónsson fyrrum þingmaður VG skrifar skoðanapistil á Vísi þar sem hann gagnrýnir Katrínu Jakobsdóttur fyrrum flokksfélaga sinn úr VG og ríkisstjórnina í harðlínu afstöðu sinni gagnvart TPNW Samningnum sem er Samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum.
Andrés segir „Í dag köllum við eftir kjarnavopnalausri veröld. Það er eina framtíðarsýnin sem vit er í – og eitthvað sem m.a.s. kjarnavopnabandalagið NATÓ segist stefna að. Því miður skortir mjög á markviss skref í þá áttina.
Ein af vonarglætunum þessa dagana er TPNW, Samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum.”
Þá bendir Andrés á að Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir gefi það skýrt út að hún ætli ekki að gerast aðili að þessum mikilvæga afvopnunarsamningi enda sé NATÓ aðildin að flækjast fyrir. Andrés segir það meira í orði en á borði sem bandalagið stefni að kjarnavopnalausri veröld.
Hann fer þess á leit við ríkisstjórnina að hún finni kjarkinn til að tala fyrir afvopnun af meiri styrk auk þess að senda út áheyrnarfulltrúa á næsta fund TPNW til að eiga samtal við aðildarríki samningsins. Það hafi þegar verið gert af fjórum öðrum NATÓ ríkjum á síðasta ári. Það voru Þýskaland, Noregur, Holland og Belgía. „ En Ísland tók harðlínuafstöðu gegn fundinum og sat heima” segir Andrés.
Þá hvetur hann ríkisstjórnina til að endurskoða þá afstöðu fyrir næsta fund aðildarríkja Samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum og að fulltrúar Íslands verði í salnum með þeim sem eru að skrifa lokakaflann að sögunni sem byrjaði með árásunum á Hiroshima og Nagasaki.