Um helgina fór Kuldaboli, líklega stærsta ungmennahátíð á Austurlandi, fram á Reyðarfirði. Hátíðin hefur verið haldin af Félagsmiðstöð Fjarðabyggðar og er unglingum eldri bekkjum grunnskóla boðið að taka þátt og gista í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði. Það væri ekki frásögu færandi nema fyrir þær sakir að faðir barns sem gisti í nótt í höllinni, Theodór Elvar, tók eftir því í morgun að allir neyðarútgangar höfðu verið reyrðir fastir með ýmsum tólum. Eðlilega er hann ekki sáttur með þessi vinnubrögð, enda má með sanni segja að Fjarðabyggðarhöllin hafi verið dauðagildra í nótt.
„Nú fórum við hjónin í morgun að sækja 15 ára barnið okkar sem var á Reyðarfirði í Fjarðabyggðarhöllinni á hinum svokallaða Kuldabola en þar hittast ca 200-300 börn og eyða þar kvöldinu og nóttinni en krakkarnir gista í tjöldum inni í íþróttahöllinni. En þegar við komum í morgun og sóttum barnið þá tók ég eftir því að allir neyðarútgangar á þessari blessuðu íþróttahöll voru kyrfilega reyrðir fastir með ýmsum tólum. Þessi gjörningur finnst mér algjörlega galinn þar sem öll þessi börn gista. Ég set hér myndir af neyðarútgöngunum að vestanverðu á húsinu en svona var þetta á þeim öllum sýndist mér,“ skrifar hann á Facebook.