Áhættuhópum býðst uppfært bóluefni gegn Covid, sem hefur valdið 23 dauðsföllum á þessu ári

23 létust af völdum Covid-19 á Íslandi á fyrstu sjö mánuðum þessa árs, 2023. Þar af dóu flestir í janúar síðastliðnum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Landlæknis frá liðinni viku. Þá kemur fram að samanburður við bólusetningarstöðu sýni að full bólusetning dragi úr dauðsföllum um allt að helming. Eldra fólki og áhættuhópum verður boðin bólusetning með nýuppfærðum bóluefnum í október.

Nýju bóluefnin gegn afbrigðinu XBB.1.5

Nýuppfærð bóluefni gegn Covid-19 sem samþykkt voru til notkunar af bandarískum yfirvöldum í liðinni viku voru í kjölfarið samþykkt af evrópskum yfirvöldum og verða notuð við bólusetningar á Íslandi sem hefjast í október. Í Bandaríkjunum hafa þrjú nýuppfærð bóluefni verið samþykkt en hér verður aðeins notast við eitt, það er bóluefni frá Pfizer/BioNTech .

Hér á landi virðist bólusetningum hafa verið frestað á meðan beðið var eftir afgreiðslu nýju efnanna, en áður var fyrirhugað að þær hæfust í september. Bóluefnum haustsins er sérstaklega beint gegn þeim afbrigðum sem verið hafa ríkjandi í nýjum smitum undanliðna mánuði, það er XBB.1.5 og skyldum afbrigðum. Þau teljast öll undirafbrigði af Omicron, sem gekk hér berserksgang við upphaf ársins 2022.

Ekki ljóst hve margir tilheyra áhættuhópum

Í Bandaríkjunum mæla sóttvarnayfirvöld með þessum bóluefnum við alla aldurshópa, frá 6 mánaða aldri og upp úr. Embætti sóttvarnalæknis hér á landi hefur enn sem komið er aðeins staðfest að boðið verði upp á bólsuetningu, bæði gegn Covid-19 og inflúensu, fyrir forgangs- og áhættuhópa, þar á meðal alla yfir sextugu.

Í rökstuðningi bandarískra stjórnvalda fyrir því að hvetja alla aldurshópa til bólusetningar kom fram að meirihluti Bandaríkjamanna glími við undirliggjandi heilsufarsvanda sem auki áhættu þeirra vegna Covid-19, meðal annars teljist 70 prósent þarlendra of feitir. Í leiðbeiningum Sóttvarnalæknis til einstaklinga með áhættuþætti, hérlendis, er talinn upp nokkur fjöldi áhættuhópa. Ekkert mat hefur þó komið fram á hversu stórt hlutfall landsmanna má ætla að tilheyri þeim.

Bólusetning fækkar dauðsföllum um helming

Í fréttatilkynningu Landlæknis um stöðu faraldursins kemur fram að um þessar mundir greinast um og yfir 40 Covid-sýkingar á landinu á hverri viku með PCR-prófum en í kringum 60 ef taldar eru með klínískar greiningar lækna. Það er fjölgun frá 8-9 PCR-greiningum á viku um mitt sumar. Þar kemur einnig fram að í fyrstu vikunni í september hafi tíu manns legið í einangrun á Landspítala vegna Covid-19 en enginn þeirra á gjörgæslu.

Loks er þess getið að 23 hafi látist úr sjúkdómnum á Íslandi það sem af er ári. Yfir helmingur þessara dauðsfalla, eða fjórtán, urðu í janúar.

Samkvæmt tölfræðigreiningu embættisins, þar sem dauðsföllin eru borin saman við bólusetningarstöðu, reyndist lífshætta fullbólusettra af sjúkdómnum um helmingi minni en lífshætta óbólusettra. Þegar litið er til áranna 2021–2023 í heild, það er allt frá því að bólusetningar hófust, reyndist „einnig marktæk vörn hjá fullbólusettum gegn andláti gegn Covid-19 með dánarhlutfall 0,59“. Það er að segja: bólusetning dró úr dauðsföllum af völdum sjúkdómsins um rúmlega 40 prósent.

„Fara varlega“ í umgengni við áhættuhópa

Í fréttatilkynningunni er fólki ráðlagt að „hafa í huga að þó COVID-19 birtist sem vægur sjúkdómur hjá flestum og tilfelli séu færri en áður þá er COVID-19 meira smitandi en inflúensa og getur valdið alvarlegri veikindum heldur en aðrar kvefpestir eða inflúensa hjá ákeðnum hópum auk þess að valda langvarandi einkennum hjá sumum.“

Þá minnir embættið fólk á „að halda sig til hlés ef með einkenni sýkingar, fara varlega í umgengni við áhættuhópa, sinna handhreinsun og almennu hreinlæti og íhuga að nota andlitsmaska ef það á við.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí