Einkastofur veita nú þegar „meiri þjónustu“ en læknar Heilsugæslu og göngudeilda Landspítala – og fara vaxandi

Innan Læknafélags Reykjavíkur má finna 352 sjálfstætt starfandi lækna. Komur sjúklinga til þeirra eru að jafnaði um 2.000 á dag eða tæplega 10.000 á viku. Í þeim skilningi veita læknar á einkastofum nú þegar meiri þjónustu en læknar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og göngudeilda Landspítalans gera til samans. Þetta kemur fram í máli Ragnars Freys Ingvarssonar, formanns Læknafélags Reykjavíkur, í viðtali sem birtist í nýútkomnu 9. tölublaði Læknablaðsins í ár.

Ragnar segir að læknar hafi hugsanlega verið „léleg í að flagga þessu gegnum árin“. Hann segir að rekstur fjölda smærri einkarekinna læknastofa sé langtum hagkvæmari en þegar sambærileg þjónusta er veitt á sjúkrahúsi og nefnir til dæmis að læknisheimsókn til gigtarlæknis á göngudeild Landspítala sé verðmetin á um 54.000 krónur en fyrir sömu komu greiðist aðeins 18.000 krónur til stofulæknis. Þá segir hann ristilspeglun vera 4-5 sinnum ódýrari á eiknareknum stofum en „hjá hinu opinbera“.

Einkastofur veiti „margfalt ódýrari“ þjónustu

Ragnar segir að „lítill og hagkvæmur rekstur“ skýri þennan mun að mestu, með þeim fyrirvara þó að „kostnaðarsamari verk eru hjá hinu opinbera, eins og kennsla og rannsóknir“, ásamt því sem stjórnun sé umfangsmeiri hluti þar en á einkastofum. „Okkur virðist hafa tekist,“ segir hann, „að sýna Sjúkratryggingum Íslands fram á hversu geysilega hagkvæm starfsemi okkar er fyrir samfélagið. Hún er margfalt ódýrari en sú þjónusta sem er veitt af hendi hins opinbera.“

Tilefni viðtalsins er samningur milli Læknafélags Reykjavíkur og Sjúkratrygginga Íslands sem undirritaður var um mitt sumar og tók gildi nú í byrjun september. Samningsins hafði verið beðið lengi en sérgreinalæknar voru samningslausir frá upphafi ársins 2019. Samkvæmt fréttatilkynningu sem Heilbrigðisráðuneytið gaf út þegar samningurinn var undirritaður má ætla að greiðsluþátttaka almennings lækki með tilurð hans um „allt að 3 milljarða króna á ári“. Þá segir að samningurinn feli í sér „mikinn ávinning fyrir almenning og tryggir jafnt aðgengi að þjónustu sérfræðilækna óháð efnahag.“

Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur. Ljósmynd úr Læknablaðinu.

Vonast innilega eftir fleiri einkastofum

Um leið virðist mega skilja formann Læknafélagsins sem svo að vonir lækna standi til að samningurinn auki hlutdeild einkarekstrar á sviðinu frekar en hitt. Formaðurinn er berorður um þetta. Aðspurður hvort hann telji að samningurinn verði til þess að ríkið sjái tækifæri í að útvista fleiri verkefnum til einkaaðila svarar hann: „Ég vona það. Það væri langhagkvæmast fyrir ríkið. Það væri langbest fyrir ríkið að færa sem flest verk í hendur sjálfstætt starfandi lækna. Það er að segja ef að markmiðið er að veita meiri þjónustu fyrir minna fé, þá er langódýrast að biðja okkur sjálfstætt starfandi lækna um að veita þá þjónustu.“

Aðspurður hvort hann sjái fram á nýliðun í einkarekstri á sviðinu eða „stofurekstri“, svarar Ragnar: „Það vona ég innilega. Við höfum búið þannig um hnútana að læknar ættu að geta horft til þess að koma til Íslands, opna stofur, göngu- og dagdeildir og veita Íslendingum þá þjónustu sem þeir eiga rétt á og þurfa.“

Þá kemur fram í viðtalinu að niðurgreiðsla ríkisins til einkastofa eykst „svo um munar … eða um tæpa 4,7 milljarða milli áranna 2022 og 2024.“ Greitt verður fyrir fleiri verk „auk þess sem hlutfall niðurgreiðslunnar hækkar. Einingunum fjölgar um 3,8 milljónir og almennt er miðað við að árlegur vöxtur þjónustunnar verði 1,5% samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands“. Rétt er að halda til haga að hér er vitnað í blaðamann Læknablaðsins en ekki viðmælanda hans.

Vaxandi hlutdeild einkarekstrar í aldarfjórðung

Verðmæti samningsins nemur um 16 milljörðum króna árlega, nú í upphafi en gert er ráð fyrir að umfang hans fari vaxandi. Í samningnum sjálfum er kveðið á um einingarverð upp á 580 krónur, miðað við verðlag í maí 2023, en 600 krónur í tilfelli „lækna sem starfa innan starfsheilda sem uppfylla sett viðmið“. Einingarverðið er verðtryggt. Í 9. grein samningsins er gert ráð fyrir að heildarfjöldi seldra eininga á þessu ári verði 27 milljónir. Sé einingafjöldi margfaldaður með einingaverði fást tæpir 16 milljarðar króna. Þá er tilgreint í samningnum að gert sé ráð fyrir að seldum einingum fjölgi um 1,5 prósent árlega. Það jafngildir rúmlega 6 prósenta vexti umfram verðtryggingu á samningstímanum, en samningurinn nær til fimm ára.

Áform um aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu hafa verið umdeild um árabil. Árið 2018 birtist í Stundinni, nú Heimildinni, grein eftir Jóhann Pál Jóhannsson undir yfirskriftinni „Einkavæðingin í heilbrigðiskerfinu: 20 ára saga í máli og myndum“. Þar segir Jóhann Páll „útgjöld hins opinbera til einkastofustarfsemi sérfræðilækna hafa aukist um 46 prósent á undanförnum 20 árum meðan útgjöld til opinberrar sjúkrahúsaþjónustu hafa aukist um 7 prósent.“ Hlutdeild sérfræðilækna og einkastofurekstrar í heildarútgjöldum hins opinbera til heilbrigðismála hefði á sama tímabili vaxið um 30 prósent. Í þeirri umfjöllun var vitnað í Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, sem benti á að hvorki heilbrigðislög né lög um sjúkratryggingar setji „nein takmörk fyrir því hversu stóran hluta heilbrigðisþjónustunnar megi bjóða út til einkaaðila á grundvelli samninga.“ Ráðherra sé „í mjög stóru hlutverki“ og geti tekið „stefnumarkandi ákvarðanir án þess að bera það nokkurn tímann undir þingið.“ Hann sagði það umhugsunarefni „í ljósi þess að í hugum kjósenda skipta heilbrigðismálin gríðarlegu máli.“

Spurningar um ágóða eru „tilfinningalegt þvaður“

Aðspurður hvort „togstreitunni“ við yfirvöld sé lokið, nú þegar nýr samningur hefur tekið gildi, svarar Ragnar Freyr að með undirritun samningsins hafi stærsti þröskuldurinn verið yfirstiginn. Samningurinn sé þó kvikur og breytilegur. „Hann vex. Hann er tryggður í launa- og vísitölu neysluverðs en líka bundinn við fólksfjölgun. Það er mikilvægt að samningurinn vaxi á samningstímanum nú þegar Íslendingum fjölgar svona ört.“

Frá undirritun samnings milli Læknafélags Reykjavíkur og Sjúkratrygginga Íslands, 27. júní 2023. Ljósmynd af vef Stjórnarráðsins.

Með vexti samningsins virðist Ragnar Freyr meðal annars vísa til fjölbreyttra hlutverka samstarfsnefndar, við endurskoðun á gjaldskrá og öðrum þáttum samningsins. Samstarfsnefndin mun meðal annars taka við tillögum „um breytingar á læknisverkum, ný læknisverk eða að fella verk út af gjaldskrá“. Þá mun hún fylgjast með kjörum lækna sem samningurinn nær til. Eins og fyrr greinir er einingarverð samningsins verðtryggt. Verðtryggingin fer fram með endurskoðun verðsins tvisvar á ári, þar sem hún uppfærð í samræmi við meðaltal launavísitölu og vísitölu neysluverðs. Ef í ljós kemur misræmi milli þeirra forsenda og þróunar verðlags eða raunlauna meðal „samanburðarstétta hjá hinu opinbera“ getur samstarfsnefndin, samkvæmt samningnum, kallað til sérfræðinga til að meta áhrifin og hvort ástæða sé til að bregðast við. Af fjórum meðlimum nefndarinnar tilnefnir læknafélagið sjálft tvo.

„Opinn krani?“ spyr blaðamaður Læknablaðsins loks formanninn, og virðist þar vísa til ótta við að tekjustreymi til einkaaðila frá hinu opinbera verði nú takmarkalaust innan heilbrigðiskerfisins. Því svarar Ragnar Freyr neitandi. „Þessi myndlíking hefur aldrei átt við rök að styðjast,“ segir hann. „Þetta er tilfiningalegt þvaður hjá þeim sem hafa viljað láta líta svo út að læknar séu bara að skara eld að sinni köku þegar þeir vilja sinna sinni þjónustu.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí