Grímur Atlason, framkvæmdastjóra Geðhjálpar, segir að því fari fjarri að á Íslandi sé einhver orkuskortur. Staðreyndin sé sú að á Íslandi sé gífurleg sóun á orku. Nóg sé að nefna einungis Bitcoin-námugröft sem dæmi um slíkt.
„Bitcoin námagröftur á Íslandi þarf á ári 14,3% meira rafmagn en öll heimili landsins. Gagnaverinn borga síðan umtalsvert minna fyrir rafmagnið en smánotendurnir heimilin. Álverin á Íslandi nota 75% af öllu rafmagni framleiddu á Íslandi. Hlutur álversins í Straumsvík er um 17,4% af heildarnotkun álveranna. Álverið borgar líka miklu minna fyrir rafmagnið en Jón og Gunna. Það liggur fyrir að Straumsvíkurálverinu verði lokað innan tíðar enda komið til ára sinna og hefur algjörlega þjónað tilgangi sínum. Það er svo sannarlega barns síns tíma,“ segir Grímur á Facebook.
Hann segir að þetta séu einfaldlega slæm viðskipti. „Það er enginn orkuskortur í landinu! Það er vondur bissness að selja rafmagn í bitcoin námagröft. Ekki bara umhverfislega heldur líka peningalega. Hættum því og náum þar í orku sem er 14,3% umfram það sem öll heimili landsins nota. Lokum álverinu í Straumsvík og náum þar í orku sem er 248% umfram það sem öll heimilin í landinu nota. Þessi orka mun nýtast okkur og vel til orkuskipta og þeirra samfélagslegu breytinga sem þeim fylgja. Lykilatriðið er síðan að bæta raforkuinnviðina – hringtengingar þar sem þess er þörf, jarðstrengir og almennt að bæta dreifikerfið. Það er verkefnið,“ skrifar Grímur og bætir við að lokum:
„Ekki láta fólk í jakkafötum (af öllum kynjum) ljúga að ykkur að hér ríki orkuskortur. Því fer fjarri.“