Lyfjafyrirtæki rukkuðu Suður-Afríku um allt yfir tvöfalt hærra verð fyrir bóluefni en ríki Evrópu

Samningar sem gerðir hafa verið opinberir, milli suður-afrískra stjórnvalda og nokkurra lyfjafyrirtækja, sýna að landið greiddi hærra verð fyrir sum bóluefni gegn Covid-19 en lönd Evrópusambandsins, svo munaði jafnvel meira en tvöfalt.

Samningarnir sem um ræðir eru á milli Suður-Afríku annars vegar, hins vegar Johnson & Johnson (J&J), Pfizer, Serum Institute of India og bóluefnabandalagsins Gavi. Suður-afrísk stjórnvöld voru knúin til að gera samningana opinbera í kjölfar málshöfðunar á vegum réttindasamtakanna Health Justice Initiative (HJI).

Serum Institute of India framleiddi bóluefnið sem oftast er kennt við Oxford/AstraZenece. Það rukkaði Suður-Afríku um 5,35 Bandaríkjadali á skammt, á meðan Evrópusambandið greiddi aðeins 1,78 evru fyrir skammtinn, sem jafngilti þá um 2,17 dölum. Verðmunurinn er næstum 2,5-faldur. Fyrir J&J bóluefnið greiddi Suður-Afríka 10 dali á skammtinn, eða 15% yfir því verði sem fyrirtækið innheimti af ESB.

Suður-Afríku tókst að semja um betra verð af Pfizer-bóluefninu en ESB, eða 10 dali á skammt, samanborið við þær 15,50 evrur (eðaum 19 dali) sem ESB greiddi. Samkvæmt fulltrúm HJI er það þó umtalsvert hærra en það kostnaðarverð bóluefnisins sem Afríkusambandið greiddi, sem nam 6,75 dölum.

Fatima Hassan, fulltrúi HJI, segir samningana varpa ljósi á „skaðlegan þjösnaskap lyfjaiðnaðarins“. „Skilmálar þessara samninga eru svo einhliða og svo hliðhollir fyrirtækjunum að því er erfitt að trúa,“ sagði hún. Meðal slíkra skilmála voru kröfur bæði J&J og Pfizer um að Suður-Afríka myndi ekki gefa eða flytja út neina skammta bóluefnisins án leyfis fyrirtækjanna. Í samningnum við Gavi, um bóluefni sem tryggja átti undir COVAX-áætluninni um aðgang allra landa heims að bóluefnum, var engin trygging um fjölda skammta eða tíma afhendingar.

Um sum efnisatriði samninganna höfðu þegar borist fréttir, segir í umfjöllun Politico um málið, en birting samninganna sjálfra færir loks fram áþreifanleg sönnunargögn.

Með ofureinföldun má segja Suður-Afríka sé um tífalt fátækara en Evrópusambandið: Framleiðsla ESB-landanna (GDP) nam árið 2022 yfir 70.000 Bandaríkjadölum á hvern íbúa svæðisins en framleiðsla Suður-Afríku um 7.000 dölum á íbúa.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí