Enn heldur almenningur áfram að benda á grunnsamlega dýr verkefni á vefnum Betri Reykjavík. Líkt og Samstöðin greindi frá í vikunni þá eru einföld verkefni oft óeðlilega dýr, samkvæmt áætluðum kostnaði á vef Reykjavíkurborgar. Þá var greint frá því að áætlaður kostnaður við að koma fyrir klukku í Nauthólsvík var fjórar milljónir króna. Margt bendir til þess að vegna þess að verkin eru boðin út að verktakar séu að féflétta borgarbúa.
Á Twitter hafa undanfarna daga í það minnsta tveir menn bent á sérstaklega slæm tilvik á Betri Reykavík. Annar þeirra, Ingvar Þóroddsson, bendir á verkefni sem snýst um að koma fyrir útigrilli við Landakotstún. Áætlaður kostnaður er sagður þrjár milljónir króna. Svo vill til að mynd af útigrilli fylgir þessu mögulega verkefni og Ingvar virðist hafa fundið uppruna myndarinnar. Þar má sjá nákvæmlega eins grill til sölu á tæplega 150 þúsund krónum. Með öðrum orðum þá mætti koma fyrir 20 slíkum grillum á Landakotstúni fyrir áætlaðan kostnað. Rétt er að taka fram að verkefnið talar þó um grill í eintölu.
Svo má benda á að þessi sömu grill eru misdýr eftir borgarhlutum. Á meðan útigrill á aparóló kostar 3 milljónir þá kostar það 6 milljónir í Vesturbænum.
Þetta er ekki eina dæmið, Sverrir Björgvinsson bendir á verðmiðinn við að setja trampólín á róló í Skerjafirði sé 15 milljónir króna. Hann bendir á að trampólín þurfi ekki að kosta meira en 60 þúsund krónur.
Svo er það Steinþór Helgi sem spyr: „Hvernig getur það kostað 39 MILLJÓNIR að setja upp saunu?“ og deilir mynd af verkefni sem snýst um að koma fyrir saunu í Sundhöllinni. Einn svarar honum og skrifar: „Það er verið að hafa okkur að fíflum“