„Raunveruleikinn er sá að börn snerta sig – kannski ekki öll, en mörg – og jafnvel stundum hvert annað“

Undanfarna daga hefur á samfélagsmiðlum blossað upp nokkuð hatrömm umræða um kennslu barna um kynhneigð, kynvitund og kyntjáningu. Margir líta svo á að þetta sé enn eitt merki um bakslag í réttindabaráttu samkynhneigðra. Á samfélagsmiðlum hafa margir séð sig knúna til berjast gegn þessu bakslagi. Þar á meðal er rithöfunduinn Eiríkur Örn Norðdahl, en hann skrifar á bloggi sínu um málið.

„Ég veit ekki hvað maður á að halda um umræðuna síðustu daga. Það sem fólk hefur ýmist kallað klámvæðingu skólakerfisins eða vísað í sem einhvers konar mannfjandsamlegan kynusla – að kennsluefni sé beinlínis ætlað að gera stráka að stelpum, stelpur að hommum, homma að kvárum og alla að kynlífsfíklum. Það eru ansi mörg lög sem maður þarf að skræla af vilji maður skilja hvað það er í raun sem gerir fólk svona pípandi brjálað – en í grunninn er þetta auðvitað einmitt bara „bakslag“ einsog fólk kallar það, bara ofstopafullt uppnám og óskiljanleg bræði, og sennilega mest úr ranni fólks sem hefur verið að fussa og sveia við eldhúsborðið heima hjá sér í nokkur ár en blæs nú út. Það er einsog það hafi verið gefið út skotleyfi – og ekki bara á transfólk heldur á frjálslyndi í kynferðismálum almennt,“ skrifar Eiríkur Örn.

Hann segist þó fyrst og fremst sannfærður um að þessi kennsla muni bjarga lífum. „Svo það sé sagt. Ég er sannfærður um að kynfræðsluefni einsog það sem ég hef séð deilt síðustu daga – bæði til þess að skammast yfir því og til þess að fagna því – geti hreinlega bjargað mannslífum. Og einsog það væri ekki nóg að bjarga fáeinum mannslífum þá felst einfaldlega í því heilmikil menntun, fyrir hina sem eru ekki í lífshættu, og í menntun felst léttir, gleði, reisn. Börn þurfa nefnilega að læra að þekkja heiminn einsog hann er. Einsog hann birtist þeim í raunveruleikanum. Ekki einsog einhverjir neo-púrítanar myndu helst vilja að hann væri. Og það er ábyggilega voðalega erfitt fyrir marga en raunveruleikinn er samt sá að sum okkar eru trans – og sum okkar eru það löngu áður en þau verða kynþroska. Öll held ég þess utan að við séum að minnsta kosti pínulítið hinsegin (og öll pínulítið svona),“ segir Eiríkur Örn.

Hann bendir á að börn verði að læra hvar mörkin liggja, bæði sín eigin og annarra. „Þegar kemur að meintri klámvæðingu í námsefni er raunveruleikinn líka sá að börn snerta sig – kannski ekki öll, en mörg – og jafnvel stundum hvert annað, þau uppgötva heiminn hvort heldur sem er, og þau þurfa að vita að það er ekki rangt og ekki ljótt. Þau eiga ekki að þurfa að fyllast skömm yfir því. Og alveg einsog við hin þurfa þau að læra að þekkja mörk – bæði sín eigin og annarra. Það heitir ekki að „grooma“ börn – heldur að gefa þeim verkfæri til þess að skilja heiminn betur, til dæmis svo þau geti borið almennilega kennsl á það þegar á þeim er brotið. Barn sem skammast sín fyrir að hafa orðið fyrir misnotkun, af því allt svona „dóna“ er svo ljótt, segir nefnilega síður frá en það barn sem hefur ekki lært skömm og pukur púrítanana,“ segir Eiríkur Örn.

Svo nefnir Eiríkur eitt, sem margir aðrir hafa bent á, að svo virðist sem fólkið sem kvartar mest kunni varla að lesa sér til gagns. „En umræðan – ég veit ekki hvað þessi hystería er. Ég hef ekki síst áhyggjur af læsi – það er einsog margt fólk sé hreinlega ekki læst, eða vilji alls ekki lesa það sem ber fyrir augu, hafi engan áhuga á að skilja það, heldur haldi fast við rétt sinn til að túlka það allt út frá fordómum sínum eða fyrirframgefnum hugmyndum. Sjái því bara það sem það heldur fyrirfram að standi skrifað. Og vitundin leysist upp í sírenuvæl og reyk, lygar og ýkjur – og já, einmitt, gelt. Hystería er orðið,“ segir Eiríkur Örn.


Svo bendir Eiríkur Örn á að þessi hystería sé fyrst og fremst innflutt menningarstríð frá Bandaríkjunum. „Mig langar að segja að þetta sé rosalega bandarískt – en það er frjálslyndið kannski líka – og kannski eru vesturlönd bara fyrir löngu orðinn svo mikill grautur að mörkin milli Ameríku og Evrópu hafa máðst út. Stundum líður mér einsog við séum í einhverju illa skrifuðu leikriti. Eða 30 ára gömlum Jerry Springer þætti. Og ef það er satt að við séum á sömu vegferð og Bandaríkjamenn, einsog manni sýnist – nema kannski nokkrum árum á eftir – þá þyrftum við nú fljótlega að reyna að finna einhvern góðan stað þar sem við getum beygt af leið. Og áð og rætt málin – horfst í augu, faðmast, dregið andann. Áður en þetta samfélag sem sagt fer á haugana. Því hér á okkur öllum að líða vel.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí