Samskip ásakar Eimskip um falska játningu

Samskip hyggst sækja bætur til Eimskips fyrir að játa sinn hlut í ólögmætu samráði félaganna á árabilinu 2008 til 2013, enda hafi játning Eimskips valdið Samskipum tjóni. Vert er að taka fram að ef þetta er tilraun til hótfyndni er hún ekki á vegum Samstöðvarinnar, Samskip raunverulega sendu frá sér tilkynningu þessa efnis á miðvikudag.

„Fullkomlega rangt að félögin hafi átt í samráði“

Samskip tilkynnti á miðvikudag að félagið hafi falið lögmannsstofu að sækja bætur á hendur Eimskipi vegna „ólögmætra og saknæmra athafna félagsins gagnvart Samskipum.“ Athafnirnar sem um ræðir eru þær að hafa „í sátt við Samkeppniseftirlitið lýst því yfir að félagið hafi átt í samráði við Samskip sem efnt hafi verið til á fundi 6. júní 2008 og í framhaldi þess fundar. Þessi yfirlýsing félagsins er röng og með öllu tilhæfulaus. Þá er það að sama skapi fullkomlega rangt að félögin hafi átt í samráði um breytingar á flutningakerfi, get með sér samkomulag um skiptingu markaða, um álagningu gjalda eða um afsláttarkjör.“

Allt ofantalið eru lykilatriði í þeirri atburðarás sem lýst er ítarlega í þeirri skýrslu um ólögmætt samráð félaganna sem Samkeppniseftirlitið birti um síðustu mánaðamót í 15 bindum auk viðauka. Rannsókn eftirlitsins á Eimskipasamstæðunni lauk árið 2021 með sátt, á grundvelli þess að stjórnendur Eimskips játuðu brotin. Samkeppniseftirlitið lagði á félagið sekt sem nam 1,5 milljarði króna. Stjórnendur Samskipa játuðu brotin ekki. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins eru ítarlega rakin þau villandi svör og ósannindi sem þeir veittu eftirlitinu við rannsóknina í hvívetna. Rannsókninni lauk með fyrrnefndri skýrslu og sekt sem eftirlitið gerði Samskipum, upp á 4,2 milljarða króna.

„Um er að ræða mjög alvarlega atlögu að Samskipum“

Stjórnendur Samskipa hafa áður látið í veðri vaka að þeir líti á játningu Eimskipsmanna sem viðskiptaleg klókindi, til að koma höggi á Samskip. Nú er ljóst að þeim skilningi hyggjast þeir halda til streitu og fara, að virðist, í hart á þeirri forsendu. Í tilkynningu félagsins nú á miðvikudag segir:

„Um er að ræða mjög alvarlega atlögu að Samskipum enda hefur Eimskip með þessu ranglega sakað félagið, sem og núverandi og fyrrverandi starfsmenn félagsins og Eimskip, um ólögmæta og eftir atvikum refsiverða háttsemi. Rangar sakargiftir af þessum toga eru ólögmætar og þær geta einnig verið refsiverðar fyrir þann sem í hlut á. Í þessu tilviki var þeim beint að helsta keppniauti Eimskips og voru augljóslega til þess fallnar að valda búsifjum í rekstri félagsins og hafa óeðlileg áhrif á samkeppnisstöðu félaganna, Samskipum til tjóns.“

Í sömu tilkynningu kemur fram að Samskip hafi, þann sama miðvikudag, skilað kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála vegna ákvörðunar Samkeppniseftirlitisins og þeirrar sektar sem lögð var á Samskip fyrir samráðið. Samskip fara fram á að ákvörðunin verði felld úr gildi og innheimtu sektarinnar frestað á meðan málið er til meðferðar hjá áfrýjunarnefndinni.

Horft fram hjá skýringum Samskipa – í þremur bindum

Þá segir, í tilkynningu Samskip, að í kæru félagsins sé því haldið fram að „þær kenningar og ályktanir“ sem komi fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins séu „án tengsla við gögn málsins og raunveruleg atvik í rekstri skipafélaganna.“ Samkeppniseftirlitið hafi „horft fram hjá sönnunargögnum og réttmætum skýringum“ félaganna tveggja. Þá gangi sektarfjárhæðin „gegn fjölmörgum réttarreglum“ og fyrir henni liggi „engin málefnaleg sjónarmið.“

Rétt er að geta þess að bindi 12, bindi 13 og bindi 14 í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins eru lögð undir kaflana „Sjónarmið Samskipa um málsmeðferð og lagatúlkun“, „Sjónarmið Samskipa um efni málsins“, „Sjónarmið Samskipa um „Friðinn“ 2009–2012“, og „Sjónarmið Samskipa – framhald“.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí