„Nýtt upphaf“ Samskipa og Eimskips hófst með smørrebrød við Suðurlandsbraut

Ólafur Ólafsson, aðaleigandi Samskipa, flaug til Íslands sérstaklega til að eiga, ásamt Ásbirni Gíslasyni, forstjóra Samskipa, fund með Sindra Sindrasyni forstjóra og Gylfa Sigfússyni stjórnarformanni Eimskip, föstudaginn 6. júní 2008. Fundurinn var haldinn á hádegi í stjórnarfundarherbergi skrifstofubyggingar Kjalars, við Suðurlandsbraut 18.

Meðal heimilda sem Samkeppniseftirlitið hefur um fundinn eru samskipti til undirbúnings hans, sem fóru að verulegu leyti fram gegnum tölvupóst og hliðstæð skilaboð. Þar komumst við að því að Ólafur pantaði sjálfur brauð frá Jómfrúnni fyrir fundinn. Yfirheyrslur yfir viðstöddum skiluðu staðreyndum ekki jafn skilvíslega og rituðu heimildirnar.

Verkefnið hagkvæmni … nýtt upphaf

Ein lykilheimild er hins vegar glærukynning sem framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Eimskips vistaði á heimasvæði sínu um miðjan dag næsta sunnudag, það er tveimur dögum síðar, undir heitinu „verkefnið samstarf“. Að kvöldi sama dags vistaði hann kynninguna á nýjan leik undir heitinu „verkefnið hagkvæmni“. Það skjal innihélt titil kynningarinnar, sem víða er vísað til í samantekt Samkeppniseftirlitsins: „Nýtt upphaf“ – eða í fullri lengd: „Nýtt upphaf Júní 2008 Trúnaðarmál“. Í skjalinu voru fimmtán glærur um verkefni sem snerust um að „auka samstarf“ á milli Samskipa og Eimskips.

Kynningarglæra, ein af þeim 15 sem stjórnendur Eimskips undirbjuggu fyrir fundinn með stjórnendum Samskipa, sem haldinn var við Suðurlandsbraut 18 á hádegi 6. júní 2008. Hér má sjá lykilsviðin fimm sem samráðið skyldi ná yfir, til að tryggja félögunum arðsemi í erfiðu árferði.

Næsta morgun, mánudaginn 9. júní 2008, vistaði forstjóri Eimskipa kynninguna loks á sínu svæði með yfirskriftina sem skrárheiti: „verkefnið nýtt upphaf“.

Á yfirlitsglæru í kynningunni má greina fimm meginþætti sem verkefnið tók til, í starfsemi Eimskips og Samskipa: sjóflutninga til og frá Íslandi, „short sea“ siglingar, frystigeymslurekstur, skipaafgreiðslu og innanlandsþjónustu. Á glærunni kemur fram að ákveðið hefði verið að meta hagkvæmni þessara sviða „með því að auka samstarf á milli Samskip og Eimskips.“

„Bara starstruck“ að sitja á móti Ólafi

Hvorki Eimskip né Samskip færðu Samkeppniseftirlitinu afrit af þessari glærukynningu eða upplýsingar um efni hennar þegar eftirlitið óskaði eftir því, með skírskotun til Samkeppnislaga, að félögin afhentu alla samninga sín á milli, ásamt tengdum gögnum.

Þegar Samkeppniseftirlitið spurði forstjóra Eimskips fimm árum eftir fundinn, í september 2013, hvort hann hefði átt í samskiptum við Ólaf Ólafsson svaraði hann „Nei, Guð minn góður“ og greindi ekki frá 6. júní-fundinum. Tæpum tíu árum eftir fundinn, í maí 2018, sagðist hann aftur á móti við skýrslutöku lögreglu muna vel eftir honum enda hefði hann verið „bara starstruck“ að sitja á móti Ólafi Ólafssyni, „þess vegna man ég alveg eftir þessu“.

Forstjóri Samskipa hélt því fram „lengi framan af skýrslutökunni … að umræðuefni fundarins hefði aðeins varðað möguleg eignaviðskipti Samskipa og Eimskips,“ segir í skýrslu Samkeppniseftirlitsins (3. bindi). „Sá framburður breyttist eftir að glærukynning Eimskips um „Nýtt upphaf“ verkefnið var lögð fyrir hann.“ Aðspurður um verkefnin í kynningunni og hvort þau hefðu tengst „kaffispjallinu“ á fundinum 6. júní 2008“ sagði forstjórinn: „Ég held að þetta hafi verið viðrað, ég held að þetta hafi verið viðrað en að það hafi ekki verið … en að það hafi ekki verið, en að það hafi ekki verið neinn framgangur um eitt eða neitt.“ Síðar í skýrslutökunni er haft eftir forstjóranum að „þetta hafi verið að þetta hafi verið hérna rætt yfir kaffispjalli að það væri nú hægt að hérna skoða eitthvað af þessum þáttum.“

Reyndu ítrekað að villa um fyrir eftirlitinu

Forstjórinn sagði að fundurinn hefði verið frekar stuttur, engin fundargerð væri til frá honum, og fundurinn hefði snúist um eignir sem Samskip vildu kaupa af Eimskip. Hann sagði engin gögn hafa verið lögð fyrir fundinn en Ólafur „var væntanlega með einhverja, eitthvað blað eða eitthvað sem hann renndi yfir, eignir.“ Forstjóri Eimskips sagði aðspurður að hann og stjórnarformaður félagsins hefðu engar upplýsingar veitt á fundinum og skilið sem svo að „þetta væri gjörsamlega tengt Kaupþingi“.

Allt er það dæmi um hvernig stjórnendur fyrirtækjanna reyndu ítrekað að villa um fyrir Samkeppniseftirlitinu við rannsókn málsins. Ávinningnum af því ólögmæta samráði sem færðist á nýtt stig með þessum fundi og verkefninu „Nýtt upphaf“ lýstu stjórnendur sem „alsælu“. Stjórnendur alþjóðasamsteypunnar Samskipa lýstu íslensku starfseminni, árin eftir hrun, sem „cash cow“, seðlabelju, í ljósi þess hvað samráðið tryggði félaginu öruggt tekjuflæði. Sín á milli hlógu stjórnendur félaganna að viðskiptavinum sem kvörtuðu og skemmtu sér yfir gervitilboðum sem þeir gerðu í þykjustuleik um samkeppni milli félaganna, sem engin var.

Um alvarleg brot Samskipa á samkeppnislögum

Með ákvörðun sem tilkynnt var um þann 31. ágúst 2023 lauk Samkeppniseftirlitið rannsókn á brotum Samskipa á samkeppnislögum. Niðurstaða eftirlitsins er að Samskip hafi „með alvarlegum hætti brotið gegn banni 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, með ólögmætu samráði við Eimskip“. Samanlagðar stjórnvaldsektir sem lagðar eru á Samskip vegna brotanna nema 4,2 milljörðum króna.

Áður hafði Samkeppniseftirlitið lokið rannsókn á hlut Eimskips með sátt sumarið 2021, en ólíkt stjórnendum Samskipa játuðu stjórnendur Eimskips brot félagsins. Á Eimskip var lögð 1,5 milljarðs króna sekt vegna samráðsins.

Í nýbirtri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna brota Samskipa segir að samráðið í heild sinni hafi verið til þess fallið að gera fyrirtækjunum kleift „að draga með afdrifaríkum hætti úr samkeppni og hækka eða halda uppi verði gagnvart viðskiptavinum fyrirtækjanna“. Það var til dæmis gert „með hækkun við endurnýjun samninga, hækkun á gjaldskrám og þjónustugjöldum, upptöku nýrra gjalda, lækkun afslátta o.s.frv.“

Þá segir að „sameiginleg yfirburðastaða Eimskips og Samskipa á markaðnum, samskipti stjórnenda fyrirtækjanna og aðrir þættir í samráði fyrirtækjanna“ hafi skapað „kjöraðstæður fyrir fyrirtækin til að ná árangri í samráðinu og hagnast á kostnað viðskiptavina og samfélagsins alls.“

Rannsóknin á brotum Samskipa var gríðarlega umfangsmikil. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í málinu var birt í fimmtán bindum. Í þessari umfjöllun Samstöðvarinnar er einkum stuðst við fyrsta bindið, 100 blaðsíðna samantekt á því sem á eftir fer.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí