Samstöðin er á leið í sjónvarpið

Fjölmiðlar 30. sep 2023

Næsta skref hjá Samstöðinni er að hefja sjónvarpsútsendingar. Dagskráin er nú send út á Facebook og youtube, í útvarpi á fm 89,1 og í spilaranum á netinu og í appi, auk þess sem þættirnir eru aðgengilegir á öllum hlaðvarpsveitum. En næst mun Samstöðin verða aðgengileg í fjarstýringunni við Sjónvarpstækið.

„Til að koma dagskránni í sjónvarp þurfum við að safna fleiri áskrifendum,“ segir Gunnar Smári Egilsson ritstjóri. „Það er reglan hjá okkur að bæta engu við nema að eiga fyrir því. Við söfnuðum 150 nýjum áskrifendum til að ráða við útvarpssendingar í haust og ætlað að safna 200 nýjum áskrifendum til að ráða við aukin kostnað vegna sjónvarpsútsendinga.“

Áskrift að Samstöðinni er frá 2.000 kr. á mánuði. Hægt er að skrá sig fyrir áskrift hér: Áskrift. Áskrifendur geta valið að áskriftin sé jafnframt félagsgjöld í Alþýðufélagið, en Alþýðufélagið er eigandi Samstöðvarinnar. Áhorfendur, hlustendur og lesendur eiga því Samstöðina. Segja má að Samstöðin sé samvinnufélag notenda. Þau sem vilja styrkja Samstöðina til nauðsynlegra tækjakaupa vegna sjónvarpsútsendinga geta lagt inn á reikning Alþýðufélagsins: Bankanúmer: 1161-26-001669 – Kennitala: 550891-1669.

Dagskrá Samstöðvarinnar er í dag rúmlega 20 tímar á viku, um þrír tímar á dag að meðaltali. Stöðin sendir nú þegar út þessa þætti: Rauða borðið, Sanna Reykjavík, Synir-Egils, Vikuskammtur, Rauður raunveruleiki, Sósíalískir feministar, Helgi-spjall og Ungliðaspjallið. Um helgina bætist Mótmæli í morgunmat við, í vikunni Miðjan á miðvikudegi og á næstu vikum munu enn fleiri þættir bætast við.

„Frá upphafi hefur Samstöðin verið opin fyrir þau sem vilja búa til þætti og umræðu“ segir Gunnar Smári. Hann hvetur áhugasamt fólk að senda skeyti með hugmyndum sínum á samstodin@samstodin.is. „Og ekki bara fólk heldur líka félagasamtök eða baráttuhópa, öll þau sem vilja heyrast hærra og víðar. Samstöðin er búin til fyrir þau sem eru keyrð áfram af hugsjón og baráttuanda.“

Samstöðin byrjaði á útsendingum á zoom-fundum á Facebook við upphaf kórónufaraldursins. Síðan hefur verkefnið þróast. Á samstodin.is er frétta- og skoðanavefur þar sem þættirnir eru einnig aðgengilegir. Beinar útsendingar þáttanna eru á Facebook og youtube. Þættirnir eru síðan aðgengilegir á hlaðvarpsveitum, svo sem á Spotify, Apple-podcast, Simplecast og víðar. Og í haust hóf Samstöðin útvarpsútsendingar á fm 89,1 sem næst á höfuðborgarsvæðinu, allt frá Reykjanestá, upp á Skaga og að Litlu kaffistofunni á Hellisheiði. Það er líka hægt að ná í útvarpssendingar í spilaranum, á spilarinn.is á Netinu eða með því að sækja samnefnt app. Næsta skref er síðan að hefja sjónvarpsútsendingar svo dagskrá Samstöðvarinnar verði aðgengileg í fjarstýringunni við sjónvarpstækið. Þau sem eru með youtube í tækjum sínum geta horft á útsendinguna í dag, en með sjónvarpsútsendingum yrði Samstöðin aðgengileg við hliðina á Ríkisútvarpinu, Stöð 2, Sjónvarpi Símans og öðrum stöðvum.

„Þetta kann að hljóma flókið en svona eru fjölmiðlar í dag, þeir þurfa að birtast þar sem fólk er hverju sinni, í bílnum, í sjónvarpinu, í símanum og í tölvunni,“ segir Gunnar Smári. „Og svo er ekki nóg að dreifa efninu heldur verður efnið að vera þess virði að því sé dreift. Við vonum að fleiri styðji við uppbygginguna eftir því sem við dreifum víðar og það hjálpi okkur til að búa til betra efni og fjölbreytilegra. Draumurinn er að byrja flótlega á fréttayfirliti í upphafi Rauða borðsins sem síðan getur þróast út í fréttatíma. Það gengur eiginlega ekki að Ríkissjónvarpið sé með eina sjónvarpsfréttatímann sem er opinn.“

Gunnar Smári bendir þó á að Samstöðin muni aldrei keppa við Ríkisútvarpið eða stóru miðlana, sem allir fá ríkisstyrki öfugt við Samstöðina. Styrkjakerfið er hannað til að styðja stærri og eldri miðla, í raun verja þá fyrir samkeppni frá nýrri og minni miðlum. Þessi skekkja er umtalsverð. Miðað við rekstur Samstöðvarinnar í dag ætti stöðin að fá 15 m.kr. í styrk í ár og enn meira á næsta ári. En reglurnar hafa verið settar svo að Samstöðin mun í fyrsta lagi fá styrk árið 2026.

„Samstöðin er því fátæk,“ segir Gunnar Smári. „Sem er kannski ágætt. Við eyðum ekki fé í fínar sviðsmyndir eða íburð í útsendingum. Samstöðin er hversdagsleg stöð og mætir ekki í sparifötunum heim til fólks, líkari iðnaðarmanni sem vill gera við vaskinn en verðbréfasala sem ætlar að selja fólki einhverja vitleysu.“

Myndin er samsett, sýnir hvernig Rauða borðið gæti lituð út á sjónvarpsskjá á heimili fólks.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí