Meðan mannekla er svo mikil á leikskólum í Reykjavík að í sumum þeirra er ekki hægt að halda úti skólastarfi alla virka daga, þá er stuðningur borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar, við kvennaverkfallið ærandi tvískinnungur. Þetta segir Anna Kristín Blöndal Jóhannesdóttir, móðir og hjúkrunarfræðingur, í aðsendri grein á Vísi. Anna Kristín segir að tölvupóstur sem hún fékk frá borginni hafi verið dropinn sem fyllti mælinn.
Hún bendir á að þó að mannekla á leikskólum í Reykjavík sé ekki ný af nálinni, þá hafi ástandið líklega sjaldan verið eins slæmt. „Borgarstjórarnir okkar tveir hafa farið mikinn í fjölmiðlum og við foreldra leikskólabarna um hvernig þeir hyggjast ætla að bæta úr þessum vanda með ýmiss konar aðgerðum en allt kemur fyrir ekki, það næst ekki að ráða í stöður á nýju leikskólunum sem hafa verið byggðir og þeir leikskólar sem eru nú þegar starfræktir eru margir hverjir illa mannaðir,“ segir Anna Kristín.
„Þannig er komið fyrir leikskólanum sem barnið mitt er á. Það vantar 5, bráðum 6 stöðugildi og því er fáliðunaráætlun í gangi þar sem hver deild leikskólans þarf að vera heima einu sinni í viku en það nemur um 20% skerðingu á skólastarfinu. Þegar börnin fá svo að fara í skólann er starfsfólkið svo fátt að ekki er hægt að sinna venjubundnu starfi eins og listasmiðju og fleira. Það er búist við að þetta ástand muni standa fram á nýja árið.“
Anna Kristín segir að það skjóti skökku við þegar menn segjast styðja Kvennaverkfallið heilshugar en bjóða mæðrum Íslands svo upp á þetta. „Kvenna- og kvartanaverkfallið er á morgun og vinnuveitendur hafa keppst um að senda tölvupóst á starfsfólk sitt um hversu dyggilega þeir styðji við baráttuna. Reykjavíkurborg sendi hjartnæman tölvupóst þar sem lýst er yfir stuðningi við konur og kvenna og foreldrar beðnir um að halda börnunum sínum heima þennan dag. Þessi tölvupóstur skýtur ansi skökku við þegar ljóst er að Reykjavíkurborg sér ekki sóma sinn í að launa starfsfólki leikskólanna nægilega vel svo það sjái hag sinn í að starfa hjá leikskólunum,“ segir Anna Kristín.
Hún segir að í raun sé augljóst hver sé rót vandamálsins: léleg laun leikskólakennara. „Eins býður Reykjavíkurborg þessu starfsfólki upp á svo óviðunandi vinnuumhverfi að fólk vinnur sér til húðar og missir heilsuna. Sú er raunin á okkar leikskóla. Yndislega starfsfólkið sem þykir svo vænt um börnin okkar, eyðir með þeim deginum og leiðbeinir og kennir þeim af alúð er að missa heilsuna eða fara í önnur störf. Tvískinnungur Reykjavíkurborgar er ærandi. Það er morgunljóst að vandamálið liggur í launum og kjörum leikskólastarfsfólks en borgin, eins og körlum og vinnuveitendum er von og vísa, setur peninga í fyrsta sæti fram yfir heilsu og hag barna og umönnunaraðila þeirra,“ segir Anna Kristín og bætir við að lokum:
„Við foreldrar barna í Sæborg skorum á Reykjavíkurborg að láta baráttuna sig sannarlega varða og bæta kjör leikskólastarfsfólks svo börnin okkar fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á.“