Miðað við kosningaúrslit verður næsta ríkisstjórn í Póllandi samsteypustjórn undir forystu Borgarvettvangs með þátttöku tveggja flokka, báðir eru settir saman úr fleiri flokkum, Þriðja leiðarinnar og Nýja vinstrisins. Innan í þessum bandalagi er allskyns stefnur og straumar, allt frá gamla kommúnistaflokki Póllands að ákafri nýfrjálshyggju, frá kristilegri íhaldssemi til frjálslyndis. Það sem sameinar þessa flokka er hins vegar viljinn til að forða Póllandi frá þeirri braut sem Lög & réttlæti hefur markað á undanförnum árum, sem er ekki aðeins valdboðsstjórn þar sem stofnanir samfélagsins hafa verið beygðar undir flokkinn heldur pólitík sem gengur út á sundrung í samfélaginu.
Lög & réttlæti hefur verið við völd síðan 2015. Á þeim tíma hefur verið grafið undan sjálfstæðis dómstóla, fjölmiðla, háskóla, verkalýðshreyfingar og annarra stofnana opins lýðræðis. Flokkurinn hefur viljað feta sömu braut og Erdogan í Tyrklandi og Orban í Ungverjalandi, að byggja upp ríki þar sem flokkurinn er miðjan og kjarninn. Íslendingar þekkja útgáfu af þessu, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur byggt upp gríðarleg ítök út um alla stjórnsýsluna og dómskerfið, sem stutt hefur verið á yfirráðum auðvaldsins yfir fjölmiðlum.
Tök sín á samfélaginu byggði Lög & réttur upp á sundrung, svipað og Trump gerði í Bandaríkjunum. Eins og Trump þykist Lög & réttur vera að verja gildi samfélagsins gegn niðurrifi kvennabaráttunnar, baráttu hinsegin fólks og þeirra sem vilja að allir borgarar hafi saman rétt og njóti sömu virðingar. Vörnin er því utan um samfélag sem viðurkennir kúgun eins á öðrum, heldur því fram, án þess að orða það beint, að samfélagið hangi saman á slíku stigveldi, að ef það brestur muni stjórnleysi og upplausn taka við. Með þessari baráttu hefur Lög & réttlæti magnað upp átök milli landsbyggðanna og stærri borga, milli karla og kvenna, milli innfæddra og innflytjenda, milli eldri og yngri, óskólagenginni og skólagenginna og svo framvegis. Markmiðið er að sundra þjóðinni, magna upp slík átök að óhugsandi sé að til verði samhent andstaða gegn afturhaldi flokksins.
Aftur þekkja Íslendingar vel til slíkra stjórnmála.
Andstaðan sem myndast gegn svona stjórnmálum er samfylking gegn ríkjandi stjórnarflokki. En slík samfylking ólíkra hugmynda sem eiga það eitt sameiginlegt að vera EKKI-stjórnarstefnan, lukkast ekki alltaf. Erdogan vann í sumar EKKI-Erdogan-fylkinguna og Orban hefur sigrað EKKI-Orban-fylkingar í Ungverjalandi. En um helgina vann EKKI-Lög & réttur-samfylkingin kosningarnar í Póllandi og mun mynda næstu ríkisstjórn. Það er ef Lög & réttur mun ekki nýta afl sitt innan stjórnsýslunnar og dómstólanna til að hanga á völdum sínum.
Lög & réttlæti var lengi vel systurflokkur Sjálfstæðisflokksins, eftir að Sjálfstæðisflokkurinn yfirgaf bandalag hefðbundinna íhaldsflokka í Evrópu og elti breska Íhaldsflokkinn inn í bandalag með Lög & réttlæti, Erdogan og slíkum flokkum. Sjálfstæðisflokkurinn fann sig betur í kompaníi með þessum flokkum en kristilegum demókrötum Þýskalands eða íhaldsflokkum Norðurlanda. En svo missti breski Íhaldsflokkurinn áhugann á þessum leiðangri og síðan hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið utan bandalaga.
Við ræddum stöðuna í pólskum stjórnmálum við Rauða borðið við Jacek Godek stórþýðanda í Gdansk: