Fjölgun covid-sýkinga er ein helsta ástæða mikils álags á bráðamóttöku

Í dag, fimmtudaginn 26. október, lét Landspítalinn frá sér tilkynningu með fyrirsögninni „Mikið álag og forgangsröðun á bráðamóttökunni í Fossvogi.“ Í tilkynningunni er fólk hvatt til að leita annað en á bráðamóttökuna ef þess er kostur: „Á bráðamóttökunni í Fossvogi er nú mikið álag,“ segir þar „og rík ástæða fyrir fólk sem er ekki í bráðri hættu að hringja fyrst í 1700 eða leita upplýsinga á netspjalli Heilsuveru áður en leitað er þangað.“ Þá segir að óhjákvæmilegt sé „við aðstæður sem þessar … að forgangsraða á bráðamóttökunni á Landspítala Fossvogi eftir bráðleika. Það getur þýtt að fólk sem ekki er í bráðri hættu þurfi að bíða lengur en annars eftir þjónustu. Ef því verður mögulega við komið er þess vegna æskilegt að reyna að leita annað.“ Síðan fylgir yfirlit um heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, afgreiðslutími Læknavaktarinnar og svo framvegis.

Í tilkynningunni kom ekkert fram um orsakir álagsins. Við nánari eftirgrennslan innan Landspítalans kom í ljós að til viðbótar við það viðkvæma ástand og þrönga kost sem sjúkrahúsið hefur við að stríða að jafnaði, eru það nú „Covid-19 og aðrar öndunarfærasýkingar“ sem valda álaginu.

Vænta má að þar leiki Covid-19 stærstan þátt. Samkvæmt birtum gögnum sýkla- og veirufræðideildar sjúkrahússins greinist veiran að baki Covid-19 umtalsvert oftar meðal sjúklinga en aðrar öndunarfærasýkingar. Flensa virðist nær hverfandi: af inflúensu A greinast 1 til 3 tilfelli á viku, af inflúensu B ekkert, en af SARS-CoV 2, veirunni að baki Covid, greindust 48, 32 og 44 tilfelli fyrstu þrjár vikurnar í október. Allan október-mánuð hefur SARS-CoV 2 verið yfir helmingur allra greindra öndunarfærasýkinga hjá deildinni.

Gögn frá sýkla- og veirufræðideild Landspítala, sótt 28. okt 2023: Öndunarfæraveirur greindar undanfarnar 12 vikur (https://www.landspitali.is/sjuklingar-adstandendur/deildir-og-thjonusta/sykla-og-veirufraedideild/).

Vandinn að nálgast upplýsingar úr heilbrigðiskerfinu

Þegar sóttvarnir gegn Covid-19 stóðu sem hæst gerðist það, í ágúst 2021, að Stefán Hrafn Hagalín, þá upplýsingafulltrúi Landspítalans, sendi tölvupóst til tæplega 300 stjórnenda innan sjúkrahússins með hvatningu um að svara ekki símtölum frá fjölmiðlum. Yfir þessu varð nokkurt uppnám í fjölmiðlum. Annars vegar var það vegna orðalags, en það fór fyrir brjóstið á einhverjum að upplýsingafulltrúinn talaði um fjölmiðlafólk, að virðist góðlátlega, sem „þessa skrattakolla“. Hins vegar kallaði inntakið sjálft fram hörð viðbrögð, enda reyndust bæði fjölmiðlar og almenningur kunna að meta upplýsingagjöf stjórnenda og annars starfsfólks innan spítalans um stöðu mála þegar viðureignin við faraldurinn var hörðust.

Í bréfinu sagði Stefán Hrafn: „Einnig er hreinskilnislega yfirhöfuð ágætis regla að svara bara alls ekki ekki beinum símtölum fjölmiðla.“ Það að Stefán Hrafn sagði skömmu síðar upp starfi sínu sem deildarstjóri samskiptadeildar Landspítalans var víða sett í samhengi við skeytið – það gerði hann sjálfur, samkvæmt frásögn mbl.is, þegar hann þakkaði „sam­starfs­fólki á Land­spít­al­an­um fyr­ir sam­starfið sem hafi verið hnökra­laust fyr­ir utan einn tölvu­póst.“

Um hvað sem þetta viðbragð og snúningar í starfsmannamálum snerist, virðist það þó ekki hafa verið inntak þeirra ráðlegginga eða tilmæli sem þáverandi upplýsingafulltrúi sendi frá sér, enda hefur allt frá þeim tímapunkti orðið umtalsvert erfiðara að ná tali af stjórnendum og starfsfólki Landspítalans, utan formfastra boðleiða. Sama á raunar við víða innan heilbrigðiskerfisins. Hafi starfsfólki og stjórnendum verið veitt tilmæli um að svara ekki fyrirspurnum fjölmiðla má segja þeim til hróss að tilmælunum virðast þau sýna fulla virðingu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí