Haustbylgjan: Nýtt undirafbrigði Covid fannst fyrst á Íslandi

Töluvert er um Covid-19 sýkingar á Íslandi um þessar mundir, eins og fram kom í viðtali Vísis við sóttvarnalækni á miðvikudag. Þann sama dag fréttist meðal erlendra vísindamanna að nýtt undirafbrigði veirunnar að baki sjúkdómnum hefði fyrst greinst á Íslandi, um miðja síðustu viku. Marc Johnson, prófessor við læknadeild Missouri-háskóla, greindi frá undirafbrigðinu og stökkbreytingunni að baki.

Ættartréð yfirgengilega

Ættartré veirunnar er orðið æði viðamikið frá því að hún kom fyrst fram á sjónarsviðið í lok ársins 2019. Omicron er síðasta afbrigðið sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin veitti sitt eigið nafn. Síðan þá hafa flest ný afbrigði sem tekur því að nefna verið afkomendur þess og þeirra aðeins verið getið með raðnúmerum. BA.2 var eitt hinna fyrstu afdrifaríku undirafbrigða. Undir lok júlí nú í ár vakti undirafbrigði þess, BA.2.86, athygli vísindafólks og lýðheilsustofnana vegna fjölda stökkbreytinga sem þar virtust hafa orðið á einu bretti.

Það var þó ekki fjöldi stökkbreytinganna einn og sér sem vakti athygli vísindamanna heldur einnig hversu víða afbrigðið greindist á stuttum tíma. Að þessu samanlögðu þótti tilefni til að gefa því sérstakan gaum hvort afbrigðið hefði öðlast aukna getu til að komast fram hjá fyrra ónæmi og gæti þá leitt til háskalegri bylgju en þau sem fyrir voru í umferð.

Þetta afbrigði veirunnar, sem hefur verið gefið „götuheitið“ Pirola, hefur nú borist til 20 landa, samkvæmt stuttri umfjöllun í læknaritinu Lancet, sl. miðvikudag, þar á meðal til Íslands, en hér greindist það fyrst þann 29. ágúst. Höfundar greinarinnar segja framvindu og útbreiðslu þessa afbrigðis að nokkru leyti minna á feril upphaflega Omicron-afbrigðisins, fyrir nær tveimur árum síðan.

BA.2.86.1 á Íslandi

Nú á miðvikudag greindi Marc Johnson, prófessor í örverulíffræði og ónæmisfræðum við læknadeild Missouri-háskóla, frá því að nýtt undirafbrigði Pirola, BA.2.86.1, hefði greinst í fjórum sýnum frá fjórum löndum. Af þessum fjórum löndum er þetta glænýja afbrigði sagt hafa greinst allra fyrst á Íslandi, þann 20. september. Að afbrigði greinist fyrst í tilteknu landi þýðir ekki nauðsynlega að það sé upprunnið þar.

Johnson segir að stökkbreytingin sem skilgreini þetta nýja afbrigði sé „nánast áreiðanlega fyrsta flokks flótta-afbrigði“ eða „almost certainly a class-1 escape mutation“, í þeirri merkingu að komast greiðlega fram hjá fyrra ónæmi. Varkárir lesendur gefa því gaum að þetta sagði prófessorinn á X (áður twitter), ekki í ritrýndum miðli.

Þann sama miðvikudag send blaðamaður nokkrar spurningar til embætta Landlæknis og Sóttvarnalæknis um stöðu faraldursins. Svara við þeim er enn að vænta.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí