„Hvað amar að mér?“ spyrja börn ráðþrota foreldra – WHO hvetur til aukinna rannsókna á langvinnu Covid

Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) lét á fimmtudag frá sér fréttatilkynningu um „brýna þörf“ á að fjárfest verði í þróun endurhæfingar fyrir fólk sem þjáist af langvinnum einkennum af völdum Covid. Evrópudeild stofnunarinnar kallaði í tilkynningunni eftir „nýjum krafti í rannsóknir, viðurkenningu og endurhæfingu fullorðinna og barna sem lifa í skugga Covid-19.“ Í tilkynningunni hefur stofnunin orð á því að „öll erum við þreytt á Covid-19“ en enginn sé þó þreyttari en það fólk, börn og fullorðnir, sem enn lifi við langvinnt Covid. Fjöldi þeirra hladi áfram að aukast, en fá svör hafi enn fengist um hvað veldur ástandinu eða hver er ákjósanlegasta meðferð við því.

„Hvað er að mér?“ og „Hvenær mun mér batna?“

Í fréttatilkynningunni er sérstakri athygli vikið að langvinnu Covid meðal barna. Þar er vitnað til Selinu Kikkenborg Berg, prófessors við Kaupmannahafnarháskóla, sem segir langvinn einkenni sjaldgæfari meðal barna en fullorðinna og oftast bæði mild og tímabundin. En ekki alltaf. „Við vitum að langvinnt Covid er raunverulegt,“ segir Berg, „og að það fyrirfinnst líka meðal barna. Það er mjög erfitt að greina það, því einkennin eru svo mörg og raðast saman með ólíkum hætti.“

Þar sem engin reglubundin skimun fyrir sjúkdómnum fer lengur fram og börn fá oft aðeins mild einkenni við sýkinguna sjálfa, segir Berg að foreldrar viti jafnvel oft ekki að börn þeirra hafi smitast af veirunni. Foreldrar verða kannski varir við einkenni á við skerta matarlyst, einbeitingu og skapsveiflur, segir Berg, en ung börn geti ekki alltaf útskýrt hvernig þeim líður. „Það erfiðasta fyrir foreldri er að geta ekki svarað þegar barnið þeirra spyr: Hvað er að mér?“ segir Berg. „Er þetta eitthvað sálrænt? Er verið að leggja þau í einelti? Er ég að missa af einhverju í félagslífi þeirra? Er þetta líkamlegt? Gæti það verið alvarlegt?“

Flestum batnar innan sex mánaða

Berg segir börn einnig spyrja foreldra sína: „Hvenær verð ég betri, hvenær mun mér batna?“ Því svari hún alltaf „að flest einkenni hverfi innan sex mánaða, því það er oftast raunin.“ Hins vegar segir hún rannsóknir sínar hafa sýnt að 15% þeirra sem eru með einkenni þremur mánuðum eftir sýkingu eru enn með einkenni tólf mánuðum eftir sýkingu. Þó að aðeins fáir úr þeim hópi þurfi á sjúkrahúsvist að halda, geti heilsukvillar af þessari ástæðu valdið því að þau missi úr skóla, íþróttum og leikjum.

„Þetta heldur aftur af þroska þeirra. Þetta er kafli í lífinu þegar svo margt er í gangi og þau hafa svo margt að læra og þroskast með jafningjum sínum. Þá getur jafnvel einn mánuður virst sem heilt ár,“ segir Berg.

Kallar eftir átaki, með þátttöku sjúklinga

Prófessor Berg kallar á heilbrigðiskerfi, stjórnmálamenn og aðra sem móta stefnu í heilbrigðismálum að bera kennsl á áhrifin af langvinnu Covid, auka aðgengi að heilsugæslu fyrir þau sem þarfnast hennar, og koma á laggirnar þverfaglegum heilbrigðisteymum sem fulltrúar sjúklinga taki þátt í, við leit að nálgun á meðferðir.

Þá er haft eftir Berg, í tilkynningu WHO, að langvinnt Covid feli í sér einstakt tækifæri fyrir heilbrigðissamfélagið til að kljást við króníska kvilla af völdum veirusýkinga, sem hafi verið rannsakaðir minna en tilefni er til, fram til þessa. Slík langvinn einkenni eru ekki neitt nýtt, segir hún. „Það sem er nýtt er sá fjöldi sem nú þjáist af langvinnum einkennum.“

Aukaverkanir bóluefna betur skráðar en afleiðingar smits

Í liðinni viku birtu íslenskir fjölmiðlar fréttir um tilkynningar hérlendis vegna aukaverkana af bóluefnum gegn Covid-19. Rúmlega sex þúsund tilkynningar hafa borist Lyfjastofnun vegna gruns um aukaverkanir af völdum bóluefnanna og þar af eru 360 flokkaðar sem alvarlegar, að sögn Lyfjastofnunar. Þar sem hliðstæðum gögnum virðist ekki, um þessar mundir, safnað um langvinnar afleiðingar af sýkingunni sjálfri, sendi blaðamaður fyrirspurn til Guðrúnar Aspelund, sóttvarnalæknis, um hvort komið hefði til athugunar innan embættisins að hafa greiðan farveg fyrir fólk til að tilkynna um mögulegar afleiðingar af smiti. Það var á miðvikudag, svar við fyrirspurninni hefur ekki borist.

Heimild: Fréttatilkynning WHO.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí