„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) fordæmir þá útvistun starfa ræstingafólks bæði hjá hinu opinbera og á almennum markaði sem skapað hefur eins konar þrælastétt í íslensku samfélagi.“
Svo hefst tilkynning sem barst frá sambandinu í dag, föstudag. Í tilkynningunni segir að taka verði sérstaklega á útvistun starfa og kjörum ræstingafólks í komandi kjarasamningum.
Smánarleg framganga og brengluð forgangsröðun
Miðstjórn ASÍ segir að ríki og sveitarfélög leiði þá aðför að láglaunafólki sem birtist í útvistun starfa ræstingafólks:
„Miðstjórn vekur athygli á að ríki og sveitarfélög leiða þessa aðför að láglaunafólki og telur yfirgengilegan þann tvískinnung stjórnvalda að slá sig til riddara sem sérstakar hetjur kvenfrelsis og fjölmenningar á sama tíma og hin pólitíska forréttindastétt stuðlar að jaðarsetningu og fátækt viðkvæmustu hópa á vinnumarkaði.“
Í tilkynningunni er vikið að nýlegum fréttum um hópuppsagnir og útvistun starfa ræstingafólks og starfsfólks í þvottahúsi Grundar:
„Fyrr í október var enn skýrt frá hópuppsögnum og útvistun starfa; að þessu sinni ræstingafólks og starfsmanna í þvottahúsi Grundarheimilanna. Löngum voru þessi láglaunastörf nær eingöngu í höndum kvenna en í seinni tíð hefur færst í vöxt að karlar af erlendum uppruna sinni einnig slíkri þjónustu. Miðstjórn telur það dapurlega samfélagsmynd að fyrirtæki og stofnanir sem sinna börnum og öldruðum skuli telja sjálfsagt að knýja fram sparnað í rekstri með því að þvinga láglaunafólk til að sætta sig við enn verri kjör og enn meira álag. Miðstjórn telur að áleitnar spurningar hljóti að vakna um siðferðisstig þess samfélags sem samþykkir svo smánarlega framgöngu og brenglaða forgangsröðun.“
Skipulega jaðarsett og dæmd til fátæktar
Þá er vísað til könnunar Vörðu, rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, sem birtist um svipað leyti:
„Í nýrri könnun Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins er að finna sláandi upplýsingar um lífskjör og líðan starfsfólks við ræstingar. Sú mynd sem þar birtist er áfellisdómur yfir samfélagi okkar og opinberar hræsni og sinnuleysi um kjör verkafólks. Starfsfólk við ræstingar deilir hvorki kjörum né starfsaðstöðu með fólki á sama vinnustað og er því skipulega jaðarsett um leið og það er dæmt til fátæktar ásamt börnum sínum .“
Loks vekur miðstjórnin athygli „á því samfélagsmeini sem svonefndar „starfsmannaleigur” hafa reynst þar sem réttindi verkafólks eru fótum troðin og skapað hefur verið umhverfi sem býður heim hættu á misneytingu og vinnumansali.“
Miðstjórnin ályktar: „að taka beri sérstaklega á útvistun starfa og kjörum ræstingafólks í komandi kjarasamningum. Siðlausa framgöngu gagnvart viðkvæmustu hópum á vinnumarkaði verður að stöðva.“