Við sögðum frá því í gær að hinn vel þekki skoski rithöfundur, fræðimaður, aktívisti, uppljóstrarinn og fyrrum skólastjóri og sendiherra Craig Murray hafi verið tekinn til yfirheyrslu og krafinn svara um samstöðufund á Austurvelli sem hann sótti með ritstjóra Wikileaks á Íslandi, Kristni Hrafnssyni. Murray var látinn laus eftir yfirheyrsluna en tölvu hans haldið eftir til rannsóknar í krafti terrorista-laga.
Í viðtali við breska miðilinn Grayzone segist hann vera orðinn vanur því að tölvur hans séu í haldi breskra og bandarískra njósnara, enda hefur hann ljóstrað upp um ýmis spillingarmál sem varða mikla hagsmuni, bæði fyrirtækja og ríkja. En það sem kom honum helst á óvart í þessari óvæntu yfirheyrslu voru allar spurningarnar lögreglu um fjármál hans. Til dæmis hvernig hann fjármagnaði starf sitt í þágu frelsis Julian Assange, hvort hann fengi peninga frá fjölskyldu Assange og fleiri spurningar í þeim dúr. Lögfræðingur hans tjáði honum að slíkar spurningar væru óvenjulegar en leyfilegar samkvæmt grein 7 í Hryðjuverkalögum sem sett voru árið 2000. Hann hefði rétt á að leita sér lögfræðiaðstoðar ef yfirheyrslan varði í meira en klukkustund. Samkvæmt Grayzone er nú lögfræðingur Murrays að kanna réttarstöðu hans til að vita hvort aðgerðin í nafni ,,öryggis borgaranna“ standist lög. Ljóst er að misbeiting Hryðjuverkalaga er orðin æ algengari og verða gagnrýnir pennar sérstaklega fyrir barðinu svo menn tala um alvarlega afturför í tjáningarfrelsi lýðræðisríkja heimsins.
Á myndinni má sjá Murray þegar honum var sleppt úr fjögurra mánaða fangelsi 2021 fyrir að hafa bloggað um spillingu. Tugir stuðningsmanna hans mættu með kampavín og gjafir þegar honum var sleppt úr haldi. Hann ítrekaði að gefnu tilefni að mannleg reisn varði innri mann og hana geti enginn tekið frá manni, þrátt fyrir allt og allt, og enginn heldur aukið hana að ofan, en þar vísar til þess að hann hafnaði ítrekað sæmdar-orðum drottningar.