Sér merki um valdatafl innan Seðlabankans: „Virðist ekki njóta trausts hjá öðrum æðstu yfirmönnum“

Marinó G. Njálsson samfélagsrýnir segir í pistli sem hann birtir á Facebook að það hafi helst komið sér á óvart við að hlusta á fund Peningastefnunefndar í dag að svo virðist sem einhvers konar valdatafl sé í gangi innan Seðlabankans. Það hafi komið honum á óvart að heyra að spár Seðlabankans séu ekki spár Peningastefnunefndar. Enn fremur megi túlka orð Rannveigar Sigurðardóttur sem merki um að aðalhagfræðingur njóti ekki traust hjá öðrum æðstu yfirmönnum bankans.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Marinós í heild sinni.

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að halda vöxtunum sínum óbreyttum frá fyrri ákvörðun í fyrsta sinn í einhver ár og þar með ákveður að hækka þá ekki í fimmtánda skiptið í röð.  Ber að fagna því, þar sem framunda er hjöðnun verðbólgu, þó meginhjöðnunin verði ekki fyrr en á næsta ári.

Þetta er það sem helst vakti athygli mína við að hlusta á fund Peningastefnunefndar.

1.  Spár Seðlabankans eru ekki spár Peningastefnunefndar!  Þetta þarf eiginlega að skýra betur og verður áhugavert að sjá fundargerð nefndarinnar, þegar hún verður birt.  Í Peningastefnunefnd sitja þrír af æðstu yfirmönnum Seðlabankans, en ekki aðalhagfræðingur bankans sem ber ábyrgð á gerð spáa bankans.  Er togstreyta innan Seðlabankans um hvernig túlka beri hagtölur og hvert stefnir í þjóðfélaginu?  Eru þessi orð (Rannveigar Sigurðardóttur) merki um, að aðalhagfræðingurinn njóti ekki trausts hjá öðrum æðstu yfirmönnum Seðlabankans, þannig að Peningastefnunefnd þarf að gera sína eigin spár?  Verð að viðurkenna, að á þessu átti ég ekki von.  Þetta er svona svipuð yfirlýsing og þegar seðlabankastjóri sagði, að hann væri ekki að hugsa um hvað væri gott fyrir peningastefnuna, þegar hann væri að tjá sig um fjármálastöðugleika.

2.  Biturleiki forsvarsmanns einnar greiningardeildar.  Konráð S. Guðjónsson frá Arion banka var með böggum hildar yfir því að hafa lesið rangt í spilin.  Hann hafði spáð hækkun upp á 0,5 prósentustig.  Til að réttlæta, að Peningastefnunefnd hefði rangt fyrir sér og hann rétt fyrir sér, fór hann að tína til fjölda atriða sem voru ýmist úr fortíðinni eða langt inn í framtíðinni og koma því nútíðinni ekki við.  Hann kaus hins vegar ekki að nefna spár sínar um að verðbólga væri á niðurleið og að hann spáir mikilli lækkun í byrjun næsta árs.

3.  Hugsanlega sendi seðlabankastjóri mér skilaboð um að hann hefði séð pistilinn minn frá því fyrir helgi, þegar hann nefndi, að ljóst hefði verið fyrir ári, að verðbólgan myndi hækka í september vegna þess hve hún var lág í fyrra.  A.m.k. vísaði hann til þess rökstuðnings, sem ég setti fram 🙂

Að hækka ekki vexti núna, segir ekkert til um hvort þeir lækki næst eða að þetta sé bara pása í hækkunarferlinu.  Ég legg hins vegar til, að frá og með næsta ári, þá verði vaxtaákvarðanir tilkynntar, eins og núna, á fyrstu dögum mánaðar, en fjórum sinnum á þessu ári ber vaxtaákvörðun upp á tímabilið 22.-24. dag mánaðar.  Svo vill til, að mikið af hagtölum, sem skipta miklu máli við vaxtaákvarðanir eru birtar seinna hluta hvers mánaðar.  Það þýðir einfaldlega, að fjórum sinnum á þessu ári, er Peningastefnunefnd með í reynd tveggja mánaða gamlar upplýsingar og á tveimur mánuðum breytist margt.  Má þar nefna, eins og Rannveig benti á, að Hagstofan á það til að leiðrétta tölur og spár eftir að þær hafa verið birtar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí