Líklegt er að tilfelli langvinnra einkenna af völdum Covid sýkingar meðal barna séu vantalin, segir Ziyad Al-Aly, læknir og faraldsfræðingur við Washington háskóla í St. Louis í viðtali við CIDRAP, fagmiðil Minnesota-háskóla í á sviði smitsjúkdómarannsókna.
„Börn koma ekki heim og segja „Mamma, ég er með vanlíðan í kjölfar áreynslu, ég er með heilaþoku,“ Það sem gerist er að þeim fer að ganga illa í skóla og foreldrar komast að því mörgum vikum síðar;“ sagði hann. Í umfjölluninni segir að mörg einkenna langvinns Covid séu fínleg og geti misgreinst sem einkenni á öðru ástandi, til dæmis kvíða.
Í sömu grein er rætt við Hönnuh Davis, einn stofnenda samtaka um rannsóknir á Long-Covid, sem segir að það geti verið sérstaklega erfitt að bera kennsl á einkennin meðal ungra barna, fyrir máltöku. „Heilt yfir hefur skort á rannsóknir á langvinnu Covid meðal barna, í samanburði við rannsóknir meðal fullorðinna,“ sagði hún. „Það sem mér finnst dapurlegt er að ég og annað fólk með langvinnt Covid á fullorðinsárum, við lifðum heilu lífi þar sem við skildum hvað það er að vera við góða heilsu og virk og vera án þessara einkenna, en það á ekki endilega við um börn.“
Geti misgreinst sem kvíði
Við Mount Sinai endurhæfingarmiðstöð barna í New York eru magaverkir algengasta einkenni langvinns Covid sem greinist meðal barna. „Oft er ekki litið á það sem langvinnt Covid í fyrstu,“ segir David Putrino, stjórnandi við stofnunina, „það er bara þremur mánuðum eftir sýkingu og barnið þitt er að kvarta undan magaverk.“
Í umfjölluninni er vísað til þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið og viðmælendum þykja ekki nægilegar. Putrino segir að á meðan svo er sé ráð hans að forðast smit: „Það er mjög auðvelt að hreinsa loft, það er mjög auðvelt að setja HEPA-síur í kennslustofur,“ sagði hann, með skírskotun til þess háttar loftsía sem notaðar eru við loftræstingu í allt frá flugvélum til sjúkrahúsa.