Stefán Ólafsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands og sérfræðingur hjá Eflingu stéttarfélagi skrifaði grein í 37. tbl. í Vísbendingu um verðbólguna hér á landi og bendir á ýmsar lausnir sem stjórnvöld hunsa.
Stefán segir að á síðustu misserum hefur sjónum í auknum mæli verið beint að því sem er kallað „seljendaverðbólga“ eða „hagnaðardrifin verðbólga“, en það hefur hingað til verið sjaldgæft sjónarhorn á verðbólguna í nútímanum.
„Þá er átt við verðbólgu sem orsakast af of miklum verðhækkunum fyrirtækja, umfram kostnaðarhækkanir, sem miða að því að auka hagnað og arðgreiðslur til eigenda. Stjórnendur fyrirtækja nota t.d. tækifæri sem viðburðir á alþjóðamarkaði skapa (Kóvid-áhrif og Úkraínustríðið) til að stækka hlut fyrirtækja og fjárfesta af þjóðarkökunni heima fyrir.“
Launafólk tapar á meðan fyrirtækin hagnast
Þá segir Stefán að samkvæmt nýlegri greiningu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (IMF) á orsökum verðbólgu meðal ESB-ríkja 2022 og 2023 var hlutur aukins hagnaðar fyrirtækja um 45% verðbólgunnar, hlutur innflutningsverðs var um 40% og launaliðurinn því í miklum minnihluta sem orsakavaldur verðbólgunnar (15-20%). Enda hefur hlutur launafólks af verðmætasköpuninni víðast hvar minnkað með rýrnandi kaupmætti og hagnaður fyrirtækja stórlega aukist í yfirstandandi verðbólgubylgju á Vesturlöndum. Stjórnendur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa nýlega sagt að til að ná verðbólgunni aftur niður á það stig sem var fyrir Kóvid þurfi fyrirtæki (einkum þau stærri) að lækka arðsemiskröfur sínar, þ.e. draga úr hagnaðardrifinni verðbólgu. Stefán segir að markmiðið með vaxtahækkunum seðlabankans í nútímanum er að gera lántöku dýrari og draga úr kaupmætti heimilanna og fjárfestingum fyrirtækja (stærri hluti ráðstöfunartekna fari í afborganir lána og minna í neyslu; yngra fólki er einnig úthýst af eigendamarkaði til að draga úr eftirspurn eftir íbúðum).
Árangur Seðlabanka Íslands að ná niður verðbólgu lítill
Stefán segir í greininni að Ísland sé með sjöundu hæstu verðbólguna í Evrópu á eftir Ungverjalandi, Tékklandi, Slóvakíu, Póllandi, Tyrklandi og Rúmeníu. Hann segir að árangur SÍ sé lítíll í að ná niður verðbólgunni hér á landi meðan verðbólgan í þeim löndum sem Ísland ber sig saman við hefur verið að lækka síðustu mánuði.
„Þessi staða Íslands er þrátt fyrir að stýrivextir hafi verið hækkaðir mun meira hér en í þeim löndum sem við helst berum okkur saman við. Stýrivextir á Íslandi eru nú þeir þriðju hæstu í þessum hópi evrópskra landa. Ísland er þarna í hópi með þjóðum Austur-Evrópu sem eru á mun lægra hagsældarstigi en við. Hinar norrænu þjóðirnar eru með mun lægri verðbólgu og mun lægri stýrivexti. Samt slapp Ísland við áhrif af hærra orkuverði til húshitunar, ólíkt samanburðarlöndunum.“
Meinsemdir í efnahagstjórn stjórnvalda
Að lokum segir Stefán að meinsemdin í efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar og seðlabankans sé sú stefna „að koma kostnaðinum af verðbólgunni yfir á launafólk,“ og vitnar þar í orð þýska hagfræðinginn Isabella M. Weber. Fleira nefnir Stefán sem mein í efnhagsstjórn landsins sem stjórnvöld telja orsök verðbólgunnar eins og t.d. að saka launafólk um að hafa skapað of mikla eftirspurn með einkaneyslu. Um það segir hann að með þeirri aðferð að draga úr eftirspurn með kaupmáttarrýrnun heimilanna bitnar með mestum þunga á tekjulægri heimilunum, einmitt þeim sem síst af öllum verða sökuð um að hafa skapað of mikla eftirspurn með neyslu sinni. Í lok greinar sinnar í Vísbendingu telur Stefán upp sex aðrar leiðir til að leira annarra leiða að vinna gegn verðbólgu, m.a. leigubremsu, gengishækkunum, auka skatttekjur í ferðaþjónustu og hækka skatta á umframeftirspurn, þá tekjuhæstu og hvalrekaskatt á ofurhagnað, hamla verðhækkandi braski fjárfesta á húsnæðismarkaði og að setja regluverk á ofurálagningu fyrirtækja.
Frétt af vef Sameykis.