Sumir fjárfestar hafa „þá ranghugmynd að vopnaiðnaðurinn sé á einhvern hátt „siðlaus““, sagði Jens Stoltenberg, aðalritari NATO í ræðu sinni á Iðnþingi NATO í Stokkhólmi í dag, miðvikudag. „Það er ekkert siðlaust,“ bætti hann við, við að verja bandamenn eða hjálpa úkraínskum hermönnum að verja land sitt. Án iðnaðar eru í raun engar varnir, enginn fælingarmáttur og ekkert öryggi,“ sagði hann.
Í fréttatilkynningu NATO um erindi Stoltenbergs er sagt að hergagnaiðnaðurinn hafi orðið mikilvægari en nokkru sinni fyrr eftir innrás Rússlands í Úkraínu. Mörg aðildarríki bandalagsins hafi gengið verulega á birgðir sínar í stuðningi við landið, sem muni áfram þurfa mikið magn af „hágæða“ getu til hernaðar. Aðalritarinn sagði: „Nú þurfum við að auka framleiðslu til að mæta þörfum Úkraínu, en einnig til að styrkja okkar eigin fælingarmátt og varnir.“
Erindið var ekki óvænt eða ófyrirsjáanlegt í ljósi yfirstandandi vígvæðingar, en í fullu samræmi við þá þróun og það kapp sem aðildarríki NATO leggja nú á að auka útgjöld sín til hernaðar.
Þörfin á nýsköpun í hergagnaframleiðslu
Í þessu ávarpi til iðnaðarins og fjárfesta sagði Stoltenberg að aðildarríki NATO hafi gert stærsta átak í að efla sameiginlegar varnir sínar síðan í kalda stríðinu og aukið útgjöld til hernaðarmála. Á ráðstefnu leiðtoga aðildarríkjanna í Vilníus í sumar hafi ríkið lagt fram nýja aðgerðaáætlun um framleiðslu hergagna, til að njóta góðs af sameiginlegri eftirspurn, styrkja tengslin við hergagnaiðnaðinn og auka möguleika á samstarfi.
Aðalritarinn lagði einnig áherslu á mikilvægi samstarfs við einkageirann á sviði nýsköpunar og sagði: „NATO þarf á iðnaðinum að halda á leið okkar um heim sem er mótaður af áskorunum nýrrar tækni. Tækni á við gervigreind, sjálfráð kerfi, líftækni og skammtafræði, eru að breyta eðli átaka eins mikið og iðnbyltingin gerði.“ Því þurfi bandalagið „stöðugt að skerpa á tæknilegu forskoti sínu með þróun og aðlögun nýrrar tækni, eiga samstarf við einkageirann, móta alþjóðlega staðla, og innlima þau viðmið ábyrgrar notkunar sem felast í lýðræðislegum gildum okkar.“
Í tilkynningunni kemur fram að þetta er í fyrsta sinn sem iðnþingið, vettvangur hergagnaframleiðenda og aðildarríkja NATO, er haldið í Svíþjóð og haft til marks um hve náin samskipti Svíþjóðar og bandalagsins eru nú þegar, á meðan Svíþjóð bíður þess að verða aðili að því.