„Það að nota sársaukafyllsta viðburð í sögu Gyðinga til að núa þeim honum um nasir er Gyðingahatur. Það að alhæfa á neikvæðan hátt um Gyðinga sem heild er Gyðingahatur,“ skrifar Finnur Th. Eiríksson í grein sem birtist í Vísi í dag, miðvikudag. Greinin ber yfirskriftina „Stækt Gyðingahatur í nafni mannréttinda.“
Þar tekur Finnur til umfjöllunar nýlega grein eftir Sigurð Skúlason, leikara, en í greininni skrifaði Sigurður meðal annars: „Gyðingar sem áttu alla okkar samúð og samkennd í Helförinni hafa nú tekið að sér hlutverk böðulsins.“ Ekki er ljóst til hvaða mengis Sigurður vildi vísa með því að Gyðingar hafi átt „alla okkar samúð og samkennd“ á þeim tíma enda vísuðu íslensk stjórnvöld á bug þeim sem til þeirra leituðu á flótta frá ofsóknum þýskra yfirvalda.
Finnur leggur áherslu á mikilvægi þess að greina ísraelsk stjórnvöld frá Gyðingum. Hann vísar til fyrra viðtals við sig um málið og segir: „Ég tók ekki nógu sterkt til orða þegar ég sagði að fjölmargir ættu erfitt með að greina ísraelsk stjórnvöld frá Gyðingum. Fjölmargir eru hreinlega ófærir um það.“ Hann brýnir fyrir lesendum að „Gyðingar hafa innbyrðis ólíkar skoðanir á þessu stríði, líkt og öllu öðru. Það er því algjörlega óboðlegt að minnihlutahópur á Íslandi sé djöfulgerður á þennan hátt á opinberum vettvangi.“
Þá gagnrýnir Finnur íslenska fjölmiðla fyrir að „lepja upp blygðunarlausan áróður Hamassamtakanna“. Hann bendir á fréttaflutning um að „Ísrael hafi skotið flugskeyti á spítala“ þegar „óyggjandi sönnunargögn“ séu fyrir því að „hryðjuverkasamtök á Gazasvæðinu hafi skotið flugskeytinu.“ Hann segir mega færa rök fyrir því að fjölmiðlar hafi „hreinlega framleitt Gyðingahatur með umfjöllun sinni.“