Auður H. Ingólfsdóttir, sviðstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir að við þurfum að kaupa minna af fötum og nýta betur það sem við eigum.
Ef við losum okkur við föt sé brýnt að sýna ábyrgð og ekki bara henda burt.
„Við þurfum að temja okkur hringrásarhugsun í daglega lífinu,“ segir Auður.
„Hvaðan kemur efnið og auðlindirnar í hlutum sem við notum? Hvert fer það eftir að við þurfum ekki lengur á því að halda?“
Ummæli Auðar falla í tengslum við frétt á vísi um að fatagámar eru fullir og stundum er tætt úr pokum. Sorpa tekur við söfnun textíls úr fatagámum í júní. Oft hefur vond umgengni við aðra gáma ratað í fréttir.
„Það er alltaf mikil aukning á sumrin og vorin þegar það fer að birta og fólk fer að taka til. Við höfum ekki undan á þessum tíma með þau tæki og mannskap sem við höfum. Við gerum okkar besta og þetta hefst fyrir rest, en þetta er óskemmtilegt,“ segir flokkunarstjóri í fataverkefni Rauða krossins í frétt vísis.
„En það sem hjálpar ekki er umgengnin. Viðhorfið er líka mjög erfitt. Við erum ekki opinber aðili heldur mannúðarsamtök í fjáröflun þannig það er kannski ekki hægt að gera sömu kröfur. Við reynum að gera þetta eins vel og við getum.“